Gengið út frá því að Katrín verði áfram forsætisráðherra en erfiðar málamiðlanir framundan
Stjórnarflokkarnir hafa rætt óformlega um verkaskiptingu, fjölgun ráðuneyta og hvaða málefni eigi að vera fyrirferðamest í stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar, náist samkomulag um áframhaldandi samstarf. Krefjandi verkefni eru framundan og málamiðlana er þörf til að ná saman um málefnaáherslur, sérstaklega í skatta- orku- og heilbrigðismálum.
Formenn flokkanna þriggja sem ræða nú um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf hafa þegar rætt að hluta um verkaskiptingu sín á milli, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þær óformlegu hugmyndir hafa síðan verið mátaðar í þröngum hópum í kringum þá.
Gengið er út frá því að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, verði áfram forsætisráðherra. Hún nýtur mikillar hylli í það embætti og í könnun sem Íslenska kosningarannsóknin vann í samstarfi við félagsvísindastofnun í aðdraganda kosninga kom fram að um 42 prósent landsmanna vildu að Katrín yrði áfram forsætisráðherra, sem er langt umfram það fylgi sem flokkur hennar hefur. Í öðru sæti á þeim lista var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, með 12,8 prósent stuðning í embættið og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokks, kom þar á eftir með 10,7 prósent. Báðir eru með minni stuðning í embætti forsætisráðherra en fylgi flokks þeirra enda sýndu tölur ÍSKOS að fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vildu Katrínu frekar sem forsætisráðherra en Bjarna og að 41 prósent kjósenda Framsóknar teldu að hún ætti að sitja áfram í stjórnarráðinu.
Þá skiptir ekki síður máli að Katrín er sá flokksleiðtogi sem fæstir landsmenn vantreysta, en í niðurstöðum könnunar sem MMR birti tveimur dögum fyrir kosningar kom fram að 22,7 prósent landsmanna bera frekar eða mjög lítið traust til hennar. Sigurður Ingi kemur næstur en 26,9 prósent vantreysta honum. Vantraust á Bjarna er mun meira en á hina tvö flokksformennina, en 55,5 prósent svarenda í könnuninni segjast treysta honum frekar eða mjög illa.
Sigurður Ingi horfir til fjármálaráðuneytisins
Sigurður Ingi sækist samkvæmt heimildum Kjarnans eftir því að fá fjármálaráðuneytið á grundvelli aukins styrks Framsóknarflokksins eftir kosningar, en þingmönnum flokksins fjölgaði um fimm og eru nú 13, eða þremur færri en sá fjöldi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur. Það þykir næst valdamesta ráðuneytið og þaðan er hægt að stýra fjármagni í þau stóru verkefni sem Framsóknarflokkurinn lofaði að ráðast í í aðdraganda kosninganna, til að mynda kerfisbreytinga í framfærslukerfum eldri borgara og öryrkja.
Viðmælendur Kjarnans hafa sagt að Bjarni sé ekki afhuga þessari niðurstöðu fái Sjálfstæðisflokkurinn fleiri ráðuneyti í sinn hlut í staðinn. Sjálfur myndi hann þá sennilegast setjast í stól utanríkisráðherra.
Hvernig skipting ráðuneyta verður á milli flokkanna að öðru leyti liggur enn ekki fyrir, en búast má við að ráðuneytum verði fjölgað til að höggva á þá hnúta sem gætu komið upp í þeim samningaviðræðum og til að leggja áherslu á helstu stefnumál nýrrar ríkisstjórnar. Framsóknarflokkurinn hefur þegar kallað eftir því að sérstakt innviðaráðuneyti verði að veruleika með því að húsnæðismál verði flutt yfir til samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið og jafnvel einhver verkefni sem verið hafa inni í atvinnuvegaráðuneytinu. Þá er vilji innan þess flokks að skipta aftur upp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í tvennt þannig að landbúnaði verði gert hærra undir höfði í sérstöku ráðuneyti sem kennt verði við landbúnað og matvæli. Sérstakt loftslagsráðuneyti kemur einnig til greina. Því gætu ráðuneytin orðið allt að tólf.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur áhuga á að taka yfir heilbrigðisráðuneytið og gæti mögulega líka fengið menntamálaráðuneytið, færi Lilja D. Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sig um set. Það gæti orðið erfitt fyrir Vinstri græn enda stefna flokkanna tveggja þegar kemur að aukinni aðkomu einkareksturs í þessum málaflokkum eins ólík og hægt er að vera. Það flækir málið að í kosningaáherslum Framsóknarflokks í aðdraganda kosninga kom fram að flokkurinn vilji skoða „hvort frekari tilefni sé til aukins einkareksturs innan heilbrigðisgeirans.“
Stór verkefni framundan
Flokkarnir eiga eftir, í viðræðum næstu daga, að koma sér saman um hvaða málefnaáherslur verði efst á blaði hjá nýrri ríkisstjórn nái þeir lendingu í viðræður, sem flestir viðmælendur eru sammála um að sé sennilegt. Það eru stór og krefjandi verkefni framundan. Endurreisn efnahagslífsins eftir kórónuveirufaraldur og næsta stóra lota kjarasamningaviðræðna eru þau sem eru mest aðkallandi auk loftslagsmála og samspili þeirra við efnahagsstefnu næstu ríkisstjórnar.
Efnahagsmálastefna ríkisstjórnarinnar heildrænt mun þar skipta máli og það að finna jafnvægi milli ríkisútgjalda í þau verkefni sem flokkarnir vilja ráðast í og þess að viðhalda aga og stöðugleika í ríkisfjármálum sem leiði af sér minni verðbólgu, minni halla á ríkissjóði og geti stutt við áframhaldandi vöxt. Þá þarf að taka ákvarðanir um hvort og hvernig eigi að styðja við þær atvinnugreinar sem hafa farið illa út úr kórónuveirufaraldrinum og vinna frekar á atvinnuleysi.
Þótt atvinnuleysi hafi minnkað skarpt er það enn 5,5 prósent og yfir fimm þúsund manns hafa verið atvinnulausir í meira en eitt ár. Sem stendur eru enn í gildi svokallaðir ráðningastyrkir, þar sem ríkissjóður greiðir þorra launa nýrra starfsmanna fyrirtækja tímabundið, en þeir renna flestir út á næstu vikum. Í síðasta mánuði voru 73 prósent auglýstra starfa átaksverkefni eða reynsluráðningar og mörg þúsund manns eru ráðin á þessum ráðningarstyrkjum.
Á að halda áfram stuðningi við fyrirtæki með peningum úr ríkissjóði?
Þá hefur ferðaþjónustan kallað eftir frekari aðgerðum fyrir sig, sérstaklega þegar nú liggur fyrir að ferðamenn í ár verða einungis um 600 þúsund í ár, eða rétt um 100 þúsund fleiri en í fyrra, sem er svipaður fjöldi og heimsótti Ísland árið 2011. Nýleg spá Íslandsbanka gerir ráð fyrir að þeir verði ein milljón á næsta ári, sem er svipaður fjöldi og kom hingað árið 2014. Þegar best lét árið 2019 voru ferðamennirnir yfir 2,3 milljónir.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í dag að niðurstaðan í ár sé „hörmuleg niðurstaða“. Framundan sé afar erfiður vetur fjölmargra fyrirtækja í greininni. „Það er því ljóst að tvenns konar aðgerðir þarf til að vinna úr þessari erfiðu stöðu sem er nú að lengjast verulega í umfram það sem við vonuðumst til. Annars vegar þarf að framlenga ráðningarstyrki vinnumálastofnunar til að þeir taki yfir veturinn allan en ekki bara fram að áramótum. Það mun minnka óvissuna sem starfsfólk í ferðaþjónustu stendur frammi fyrir inn í veturinn. Hins vegar þarf ný ríkisstjórn að taka skýrt frumkvæði um úrlausn skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Tillögur um það sem byggja á vel reyndri leið Beinu brautarinnar frá því eftir bankahrunið hafa legið inni hjá stjórnvöldum mánuðum saman.“
Hnútarnir og málamiðlanir
Ótalin eru mál sem rötuðu inn í síðasta stjórnarsáttmála en enduðu í deilum og náðu sum hver ekki afgreiðslu. Þar má nefna hálendisþjóðgarð, breytingar á stjórnarskrá og frekari styrking á rekstrarumhverfi fjölmiðla, en þar eru áherslur flokkanna æði ólíkar. Mikið púður fór í átök, jafnt opinberlega og bakvið tjöldin, um þessi mál á síðasta kjörtímabili og formenn flokkanna vilja forðast þá stöðu nái þeir saman um áframhaldandi samstarf.
Þegar horft er á mál sem flokkarnir settu á oddinn í aðdraganda kosninga, og eru ósammála um, er ljóst að málamiðlana verður þörf. Á meðal kosningaloforða Framsóknarflokksins voru að auka endurgreiðslur til kvikmyndagerðar upp í 35 prósent, greiða vaxtastyrk til barnafjölskyldna upp á 60 þúsund krónur á hvert barn óháð tekjum, taka upp þrepaskipt tryggingagjald og fleiri þrep í tekjuskatti fyrirtækja þar sem hreinn hagnaður fyrirtækja umfram 200 milljónir króna verður skattlagður hætta á móti lækkun til lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Vinstri græn vilja taka upp þrepaskiptan fjármagnstekjuskatt, nota skattkerfið frekar til að jafna kjör og nýta það til að styðja við markmið í loftlagsmálum. Flokkurinn vill fjölga íbúðum í almenna íbúðakerfinu og auka enn frekar við stuðning ríkissjóðs við félagslegt húsnæði. Og Vinstri græn vilja auka fjárfestingu í innviðum heilbrigðiskerfisins og auka geta opinbera hluta þess, í stað þess að auka hluta einkageirans. Þá kemur fram í stefnuskrá Vinstri grænna að flokkurinn vili að þeir sem nýti auðlindir í eigu þjóðar, þar á meðal sjávarauðlindina, greiði sanngjarnt gjald af þeirri nýtingu.
Áherslur Sjálfstæðisflokks ólíkar í ýmsum málaflokkum
Bjarni Benediktsson gagnrýndi hluta þessara áherslna samstarfsflokkanna í aðdraganda kosninga. Í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins sem birt var í vikunni fyrir kosningar sagði hann lítil rök hníga að því að auka skattbyrði fyrirtækja og að það væri óraunhæft að endurgreiða kostnað vegna kvikmyndagerðar hérlendis upp á milljarðatugi.
Sjálfstæðisflokkurinn er enda með ólíkar áherslur en ofangreindar í flestum þessum málaflokkum. Hann vill lækka skatta, hefur það sem meginmarkmið að rekstur ríkissjóðs verði orðinn jákvæður fyrir lok kjörtímabilsins, meðal annars með „umbótum í opinberum rekstri“ sem felur til dæmis í sér að fækka ríkisstofnunum. Þá er sérstaklega tiltekið í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins sem samþykkt var í aðdraganda kosninga að nauðsynlegt væri að „gjaldheimta í sjávarútvegi dragi ekki úr samkeppnishæfni á alþjóðamarkaði og fjárfestingu í greininni.“ Áhersla Sjálfstæðisflokksins í loftslagsmálum snýst fyrst og síðast um orkuskipti, sem hinir ríkisstjórnarflokkarnir styðja.
Leiðin að þeim skiptum er þó ekki sú sama í huga þeirra allra. Sjálfstæðisflokkurinn telur að græna orkubyltingin kalli „á aukna notkun á bæði raforku og rafeldsneyti sem Ísland er í kjörstöðu til að framleiða.“ Framsókn er líkleg til að styðja það að virkjað verði meira en það verður erfið pilla fyrir Vinstri græn að kyngja, enda skilgreinir flokkurinn sig út frá umhverfisvernd.
Í húsnæðismálum leggur Sjálfstæðisflokkurinn áherslu á að fjölga möguleikum fólks til að eignast húsnæði en minnist ekkert á frekari uppbyggingu á opinberu húsnæðiskerfi.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
-
10. janúar 2023Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
-
10. janúar 2023Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sögulegur en dýrkeyptur kosningasigur þingforsetans
-
7. janúar 2023BDSM-félagið fagnar því að loksins eigi að afnema klámbann
-
7. janúar 2023Litlu fjölmiðlarnir með eldspýturnar
-
7. janúar 2023Með hverjum stendur þú?
-
6. janúar 2023Tíu stærstu útgerðirnar halda á 56 prósent af öllum kvóta
-
6. janúar 2023Guðrún Hafsteinsdóttir segist taka við dómsmálaráðuneytinu í mars