Steen Andersen sagnfræðingur og sérfræðingur á danska ríkisskjalasafninu hefur um árabil unnið að rannsóknum á skjölum úr safni pólska hersins. Í desember 2019 hélt hann, ásamt Peer Henrik Hansen samstarfsmanni sínum, erindi fyrir yfirmenn úr danska hernum og háttsetta danska embættismenn. Skjalasafn pólska hersins, sem er mikið að vöxtum hefur, þangað til fyrir örfáum árum, verið lokað inni í geymslum pólska hersins og þess vegna fáum kunnugt.
Á tímum kalda stríðsins stóðu bæði NATO ríkin og ríki Varsjárbandalagsins (undir stjórn Sovétmanna) fyrir stórfelldri hernaðaruppbyggingu, vígbúnaðarkapphlaupi. Aldrei kom til beinna átaka, þótt stundum skylli hurð nærri hælum. Á níunda áratug síðustu aldar urðu miklar breytingar sem leiddu til falls Sovétríkjanna og loka kalda stríðsins.
Danmörk var á könnu Pólverja
Þrátt fyrir að mikil leynd hafi hvílt yfir uppbyggingu og áætlunum Varsjárbandalagsins og NATO fór ekki hjá því að ýmislegt læki út. Innan Varsjárbandalagsins ríkti það fyrirkomulag að aðildarríkin höfðu tiltekin lönd, eða landsvæði á sinni könnu. Samkvæmt þessu skipulagi ,,tilheyrði“ Danmörk Póllandi. Þetta hafði lengi verið vitað. Um hernaðaráætlanir Pólverja var hins vegar lítið vitað og þeim sem hlýddu á fyrirlestur Steen Andersen og Peer Henrik Hansen var brugðið. Tvímenningarnir byrjuðu hinsvegar á frásögn sem fékk viðstadda til að brosa. Í pistli sem birtist hér í Kjarnanum 12. janúar 2020 var greint frá því sem fékk viðstadda á áðurnefndum fyrirlestri til að brosa, sú frásögn sýnir vel hvernig tímarnir höfðu breyst frá árum kalda stríðsins og er því endurbirt hér:
Leyniþjónusta danska hersins taldi sig vita að ef til þess kæmi að Pólverjar réðust inn í Danmörku myndi herlið þeirra ganga á land við smábæinn Faxe á Suður-Sjálandi. Leyniþjónustan ákvað þess vegna að ráða ungan mann, búsettan við Hafnargötuna í Faxe, sem einskonar útvörð. Hann fékk þjálfun í að þekkja farartæki pólska hersins, ekki síst brynvarða herflutningavagna og flutningabíla. Hann sinnti þessari vinnu (sem aukastarfi) árum saman og fékk með reglulegu millibili sendar myndir og teikningar af nýjustu tækjum og tólum Pólverja, svo hann gæti borið kennsl á þau pólsku tæki sem færu um veginn og ruglaði þeim ekki saman við her- og flutningabíla danska hersins.
Á gafli húss „útvarðarins“ hafði leyniþjónustan komið fyrir lítt sýnilegu loftneti og á háalofti í húsinu var öflugur radíósendir, með talstöð. Ef stríð skylli á skyldi „útvörðurinn“ fylgjast grannt með umferð og sæi hann skyndilega pólsk hertól á veginum átti hann umsvifalaust að kveikja á talstöðinni og láta yfirstjórn hersins vita. „Útvörðurinn“ sinnti starfinu af kostgæfni árum saman, prófaði sendibúnaðinn af og til, en aldrei kom til þess að hann sæi pólska herliðið koma stormandi eftir veginum og hann þyrfti að gera viðvart. Það var þessi frásögn sem fékk viðstadda á áðurnefndum fyrirlestri dönsku sérfræðinganna til að brosa. Þótt hugmyndin um „útvörðinn“ með talstöðina hafi kannski einu sinni verið góð og gild voru áætlanir Pólverja, ef til innrásar kæmi árið 1989, af allt öðrum toga.
Í áðurnefndum fyrirlestri dönsku sagnfræðinganna kom fram að ef Pólverjar réðust gegn Danmörku yrði beitt leiftursókn og það sem kom mest á óvart var að Pólverjar myndu líklega beita kjarnorkuvopnum. Það hafði fyrrverandi flugmaður í pólska hernum reyndar nefnt í tímaritsgrein haustið 2019, en ekki vakið mikla athygli.
Gjöreyðingaráætlunin
Steen Andersen sagnfræðingur hefur haldið áfram rannsóknum sínum á skjalasafni pólska hersins. Og þótt þeim sem hlýddu á fyrirlestur hans og samstarfsmanns hans í desember 2019 hafi brugðið þegar þeir heyrðu um hernaðaráætlanir Pólverja hefur sagnfræðingurinn nú séð í skjalasafninu aðra áætlun. Sannkallaða gjöreyðingaráætlun.
Þessi áætlun er frá árinu 1989, skömmu áður en múrinn féll og allt breyttist. Mikil leynd hefur alla tíð hvílt yfir þessari áætlun sem hefur verið gætt sérstaklega, hernaðarsérfræðingar töldu sig vita að hún fyrirfyndist en höfðu aldrei vitað neitt meira. Nú hefur Steen Andersen, eftir mikla leit, fundið áætlunina sem fyllir 42 vélritaðar síður og mjög nákvæmlega útlistuð. Hún skiptist í nokkur þrep og óhugnanleg að ekki sé meira sagt.
Fyrst 131 sprengja og svo 133 til viðbótar
Í fyrsta þrepi var gert ráð fyrir að varpa 131 kjarnorkusprengju á skotmörk í Danmörku. 100 sprengjur átti að flytja með rússneskum Scud eldflaugum og 31 sprengju skyldi varpað úr flugvélum. Skotmörkin voru einkum flugvellir og aðsetur danska hersins, til dæmis á suðurhluta Amager þar sem Hawk loftvarnaflaugar voru staðsettar.
Í öðru þrepi áætlunarinnar var gert ráð fyrir að varpað yrði 133 sprengjum til viðbótar á tiltekin skotmörk, ekki var tilgreint hvers konar sprengjur þar var um að ræða.
Í áætluninni, sem birt hefur verið af Berlingske, er ekki getið um stærð kjarnorkusprengjanna sem notaðar yrðu. Danskir hernaðarsérfræðingar hafa reiknað út að samanlagður sprengikraftur 131 kjarnorkusprengju næmi líklega 6550 kílótonnum en til samanburðar má nefna að sprengjan sem varpað var á Hiroshima árið 1945 var 15 kílótonn. Sú sprengja banaði að minnsta kosti 60 þúsund manns og annar eins fjöldi særðist alvarlega.
1 kílótonn jafngildir 1000 tonnum af TNT sprengiefni.
Hver var tilgangurinn með gereyðingaráætluninni?
Steen Andersen sagnfræðingur telur að tilgangur með stórárás á Danmörku hefði verið sá að sýna mátt Varsjárbandalagsins, neyða Danmörku og NATO ríkin í Evrópu til tafarlausrar uppgjafar. Í skjölunum sem Steen Andersen hefur lesið og rannsakað kemur fram að kjarnorkusprengjurnar í Póllandi væru geymdar í sovéskum herstöðvum og þegar herstjórnin í Moskvu tæki ákvörðun um að ráðast á Danmörku yrðu sprengjurnar afhentar pólskum hersveitum. Pólverjarnir myndu stjórna skotpöllunum en sovéskir sérfræðingar myndu miða út skotmarkið og sjá um að „hleypa af“.
Steen Andersen segir að í gögnum komi fram að Sovétmenn hafi haft alla stjórn fyrirhugaðra aðgerða með höndum.
Athyglisvert er að á síðari hluta níunda áratugarins ákvað Mikhail Gorbatsjev leiðtogi Sovétríkjanna breytingar á Varsjárbandalaginu, það skyldi framvegis vera varnarbandalag en ekki árásarbandalag. Þrátt fyrir yfirlýsingar Sovétleiðtogans undirbjuggu Pólverjar, undir stjórn hernaðaryfirvalda í Moskvu hugsanlega kjarnorkuárás á Danmörku.
Steen Andersen sagnfræðingur sagði í viðtali við dagblaðið Berlingske að mörgum þætti ef til vill þessar áætlanir um árásir á Danmörku reyfarakenndar. „Á undanförnum vikum höfum við hins vegar séð að allt getur gerst.“