Eins og mörgum er kunnugt er í gildi herskylda fyrir alla unga karlmenn, sem til þess hafa líkamlega burði, í Suður-Kóreu, enda á landið tæknilega í stríði við nágranna sinn í norðri þó vopnahlé á milli landanna tveggja hafi staðið yfir í nokkra áratugi. Þannig þurfa ungir menn að gera hlé á lífi sínu í minnst 18 mánuði á meðan þeir eru á aldrinum 18 til 28 ára til þess að sinna herskyldu. Skiptar skoðanir eru á því hvort, eða þá hverjir, eigi að fá undanþágu frá herskyldunni.
Umræðan nú snýr helst að liðsmönnum K-pop sveitarinnar BTS og hvort þeir eigi að hljóta undanþágu frá herskyldunni vegna annars konar framlags þeirra til samfélagsins, en BTS hefur hlotið heimsfrægð og hefur komið suður-kóreskri menningu rækilega á kortið, auk þess sem velgengni þeirra skilar gífurlegum fjárhæðum inn í efnahagslífið í landinu. Þannig hefur hljómsveitin selt yfir 30 milljón plötueintök á heimsvísu, verið tilnefnd til Grammy-verðlauna og ratað ofarlega á vinsældarlista bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum, og hafa vangaveltur um undanþágu poppgoðanna, sem öll eru á þrítugsaldri, verið í umræðunni í Suður-Kóreu frá árinu 2020 þegar lagið Dynamite með BTS varð fyrsta kóreska lagið til þess að ná á topp vinsældarlistans í Bandaríkjunum.
Samkvæmt núgildandi lögum eru aðeins íþróttamenn sem hafa komist á pall á Ólympíu- eða Asíleikum og tónlistarmenn sem eru þekktir eða hafa hlotið alþjóðleg verðlaun á sviði klassískrar tónlistar undanþegnir herskyldu. Þeirra á meðal eru til dæmis Cho Seong-jin, sem varð fyrstur kóreumanna til þess að sigra alþjóðlegu Chopin-píanóleikana og Son Heung-min, sóknarmaður breska efstudeildarliðs Tottenham í knattspyrnu. Að öðru leyti hafa suður-kóresk stjórnvöld litla þolinmæði fyrir mönnum sem reyna að komast undan herskyldu. Til að mynda var leikaranum Steve Yoo, einnig þekktum sem Yoo Seung-jun, vísað úr landi og honum meinuð endurkoma í kjölfar þess að hann kom sér undan herskyldu með því að verða sér úti um bandarískan ríkisborgararétt skömmu áður en til stóð að boða hann til herskyldu árið 2002.
Kunni að setja varhugavert fordæmi
Eins og áður segir hefur hljómsveitin BTS skapað mikil verðmæti fyrir Suður-Kóreu, en samt sem áður eru um það afar skiptar skoðanir hvort liðsmenn hennar eigi að fá undanþágu vegna þessa. Mörgum finnst þeir eiga það skilið en óttast að það muni setja varhugavert fordæmi þar sem erfitt verði að leggja mat á það hverjir eigi raunverulega rétt á undanþágunni og óttast að fordæmið verði misnotað af öðrum sem ekki séu verðugir þess að vera undanskyldir herskyldunni. Öðrum finnst aðrar leiðir færari, svo sem að veita meiri sveigjanleika þannig að stjörnur geti unnið störf sín og þjónað landi sínu samhliða.
Til stendur að taka málið fyrir á suður-kóreska þinginu og vonast forsvarsmenn sveitarinnar eftir því að ákvörðun verði tekin áður en nýr forseti tekur við völdum, en þeir óttast að málið týnist í endalausum umræðum verði það raunin. Tíminn er í hið minnsta naumur og ekki síst fyrir Jin, eða Kim Seok-jin, elsta liðsmann sveitarinnar. Þeir eiga, undir núgildandi lögum, allir yfir höfði sér herskyldu innan fárra ára, en enginn þeirra hefur tjáð sig opinberlega um málið.