„Gott silfur gulli betra“ sagði íslenski landsliðsþjálfarinn í handbolta þegar landsliðið kom heim eftir Ólympíuleikana í Beijing árið 2008. Landinn samgladdist „strákunum okkar“ þegar þeir komu heim með silfurverðlaunin, enda full ástæða til. Tveir danskir karlar, Bjarne Overgaard og Christian Knudsen, gefa hinsvegar ekki mikið fyrir svona tal, „gull er það sem blífur“ segja þeir. Og þeir eru ekki að tala um gullhúðaða medalíuhlunka, heldur ekta gull.
Fyrir um það bil tuttugu árum hitti danski jarðfræðingurinn Christian Knudsen, fyrir tilviljun, mann sem sagðist vinna hjá sand- og malarvinnslufyrirtæki Bjarne Overgaard í Rødekro á Suður-Jótlandi. Þegar Christian Knudsen sagðist vera jarðfræðingur sagði malarvinnslumaðurinn að hann hefði oftar en einu sinni fundið gull í malarnámunum þar sem hann ynni. Christian Knudsen, sem hafði tekið þátt í gullleit á Grænlandi og víðar, þótti þetta athyglisvert en reynslan sagði honum hins vegar að margt getur líkst gulli án þess þó að vera gull. Christian Knudsen varð oft hugsað til þessa samtals, og fyrir sex árum sá hann viðtal við Bjarne Overgaard í danska sjónvarpinu, um gull.
Daginn eftir sjónvarpsþáttinn hringdi Christian Knudsen í Bjarne Overgaard. Í framhaldi af því samtali fór jarðfræðingurinn Christian í heimsókn í sand- og malarvinnsluna og eigandinn Bjarne sýndi honum agnir sem hann taldi vera gull og hann hafði fundið í sandi í námunum. Christian Knudsen gat staðfest, eftir rannsókn, að agnirnar sem Bjarne sýndi honum væru gull. Þeir urðu síðar sammála um að láta á það reyna hvort nægilegt gull væri að finna í sandnámunum við Rødekro til að hagkvæmt væri að vinna það. Ekki lágu miklar rannsóknir að baki þessari ákvörðun en þeir félagar voru bjartsýnir.
Sá gullkorn í vindlakassa
Í þætti sem danska sjónvarpið gerði fyrir skömmu um gullið í Rødekro sagði Bjarne Overgaard að hann hefði fyrir allmörgum árum hitt mann sem sýndi honum gullkorn sem hann var með í litlum vindlakassa. Þeim hafði maðurinn safnað í þýskri sand-og malarnámu. Bjarne sagðist hafa hugsað með sér að fyrst gull væri að finna í þýskum námum væri aldrei að vita nema það væri líka að finna í Danmörku. Sem kom á daginn.
Milljón tonn af sandi og möl
Starfsmenn sand-og malarvinnslufyrirtækis Bjarne Overgaard moka árlega upp rúmlega milljón tonnum af sandi og möl upp úr námunum við Rødekro. Að finna gull í þessari stóru hrúgu er eins og að leita að nál í heystakk og til að finna nokkur grömm af gulli þarf að moka upp tugum tonna af sandi.
Á stóru svæði í nágrenni Rødekro eru nokkrar stórar sand-og malarnámur. Sandurinn, og gullið, barst frá Noregi til Danmerkur eftir síðustu ísöld, fyrir um tíu þúsund árum. Þegar Christian Knudsen skoðaði námurnar við Rødekro mældi hann gullagnirnar sem hann fann. Stærðin var mismunandi, allt frá 0,05 millmetrum upp í 0,5 millimetra. Gullagnir af þessari stærð teljast nothæfar til frekari vinnslu en það er hinsvegar spurning um magnið.
Ákváðu að slá til
Þeir Bjarne Overgaard og Christian Knudsen urðu sammála um að láta á það reyna hvort nægilegt gull væri að finna í sandnámunum við Rødekro til að hagkvæmt væri að vinna það. Ekki lágu miklar rannsóknir að baki þessari ákvörðun en þeir félagar voru bjartsýnir. Bjuggust að sögn ekki við að verða margmilljónerar á gullvinnslu, enda væri það ekki tilgangurinn.
Þegar þeir ákváðu að hella sér út í gullleitina hafði Bjarne Overgaard aflað sér þekkingar um leit og vinnslu á þessum dýra málmi. Hann hafði jafnframt smíðað tæki til að skilja kjarnann frá hisminu ef svo má að orði komast. Tækið er í stuttu máli eins konar hristanlegt sigti. Eftir að hafa skoðað sandnámur við Rødekro taldi Christian Knudsen að í tonni af sandi gætu verið 0,044 grömm af gulli. „Það þarf, tel ég, 1000 tonn af sandi til að fá nóg gull í einn giftingarhring. Það er kannski helsta ástæða þess að fólk veigrar sér við að hella sér í svona verkefni.“
Hvað með verðið, yrði danskt gull samkeppnishæft?
Þessari spurningu varpaði fréttamaður danska sjónvarpsins fram við dönsku gullgrafarana. Svarið var að danska „gullvinnslan“ eins og komist var að orði gæti ekki keppt við gull frá löndum þar sem það væri unnið í stórum stíl, t.d Suður-Afríku. „Af hverju ætti fólk þá að kaupa danskt gull?“ var spurt. Þeir Bjarne Overgaard og Christian Knudsen sögðust telja að margir Danir myndu gjarna vilja kaupa skartgripi, ekki síst giftingarhringi, úr gulli sem fundist hefði í danskri jörð. Þar að auki yrði gullvinnsla þeirra mun umhverfisvænni en víðast hvar annars staðar. „Við þurfum ekki að nota stórvirk námuvinnslutæki og kemísk efni við gullvinnsluna, nú á dögum kunna margir að meta það.“
Bjarne Overgaard sagði fyrir nokkrum dögum, í viðtali við dagblaðið Flensborg Avis, að danskir gullsmiðir hefðu mikinn áhuga á gulli frá Rødekro. Hann hefði fengið fjölmargar fyrirspurnir eftir áðurnefndan sjónvarpsþátt og greinilegt væri að þótt danska gullið yrði eitthvað dýrara en það innflutta skipti það engu máli. „Tveir gullsmiðir vildu gera samning við okkur Christian um að kaupa allt það gull sem við gætum útvegað. Við vorum ekki tilbúnir í slíka samningsgerð,“ sagði Bjarne Overgaard. Hann bætti því við að hann hefði í hitteðfyrra látið smíða giftingarhringi fyrir son sinn. „Honum og tengdadótturinni finnst gaman að segja vinum og kunningjum að hringirnir séu úr gulli frá Rødekro og það vekur athygli. Hringirnir munu endast og ég er viss um að það geri hjónabandið líka,“ sagði Bjarne Overgaard.