Í langri fréttaskýringu sem birt var á vefsíðu Danska útvarpsins, DR, fyrir nokkrum dögum er skýringarmynd. Hún sýnir köngulóarvef (orðalag DR) kapla og röra sem liggja á hafsbotni við Danmörku og tengja dönsku eyjarnar við umheiminn. Gaslagnir, olíuleiðslur, rafmagns- og tölvukaplar, samtals rúmlega 30 talsins.
Þangað til fyrir um mánuði síðan lá þessi röra- og kaplabúnaður nánast eftirlitslaus á hafsbotni. Skemmdirnar á Nord Stream-gasleiðslunum hafa hinsvegar opnað augu margra fyrir því hve viðkvæmar þessar lagnir eru og hve auðvelt virðist vera að valda skemmdum á þeim.
Hvernig á að fylgjast með köplum og rörum á hafsbotni?
Þessa spurningu lagði fréttamaður danska útvarpsins fyrir Nils Wang fyrrverandi yfirmann í danska sjóhernum. Að sögn Nils Wang þarf slíkt eftirlit að vera tvenns konar: vöktun með þar til gerðum búnaði á hafsbotni og í öðru lagi skipulagt eftirlit með umferð skipa á dönsku hafsvæði. Tæknikunnáttu til að sinna þessum verkefnum, bæði á hafsbotni og skipaumferð, ræður danski herinn þegar yfir að sögn Nils Wang.
Varðandi vöktun á hafsbotni nefndi Nils Wang tundurduflaslæðarann Saltholm sem notaður hefur verið til að rannsaka skemmdirnar á Nord Stream-gasleiðslunni í Eystrasalti. Saltholm er búinn svonefndum Site- Scan sonar til að mynda hafsbotninn en danski flotinn ræður samtals yfir sex skipum sömu gerðar og Saltholm. Þau eru öll búin Site-Scan sónartækjum og að jafnaði eru þrír í áhöfn.
Skipunum er jafnframt hægt að fjarstýra frá herskipum, ef hætta er talin á ferðum. Sónartækið áðurnefnda er dregið meðfram, eða yfir, kapalinn eða rörið sem verið er að vakta. Með því að bera svo saman nýjar myndir við eldri myndir (allt varðveitt í tölvu) er hægt að sjá breytingar á köplum og rörum.
Nils Wang segir að þótt danski sjóherinn búi yfir tæknikunnáttu til að sinna þessu verkefni vanti mikið á að nægur búnaður sé til staðar. Hvað varðar síðara atriðið, eftirlit með skipaferðum, sagði Nils Wang að danska strandgæslan hefði til umráða 30 skip, sem geta annast það verkefni.
Aldrei hægt að útiloka skemmdarverk
Þótt hægt sé að fylgjast með skipaferðum og vakta kapla og leiðslur á hafsbotni verður, að mati Nils Wang, aldrei hægt að útiloka skemmdarverk.
Hann telur að fyrsta skrefið í eftirliti með köplum og leiðslum á hafsbotni gæti verið að skilgreina þau svæði sem eru viðkvæmust. Sums staðar liggja kaplar og leiðslur á fjögurra kílómetra dýpi og fremur ósennilegt að reynt yrði að vinna skemmdarverk á svo miklu dýpi. Hann gat þess einnig að það sé meira en að segja það að ætla að fylgjast grannt með á hafsbotninum og nefndi að í smábænum Nørre Nebel á Suðvestur-Jótlandi kemur á land sæstrengur sem er rúmlega 15 þúsund kílómetra langur. Þessi strengur tengir saman Bandaríkin og Evrópu.
Aukin umferð rússneskra kafbáta
Fyrir skömmu birti dagblaðið The Times viðtal við Tony Radakin flotaforingja í breska sjóhernum. Þar kom fram að á síðustu 20 árum hefði orðið gríðarleg (fænomenal) aukning á ferðum rússneskra kafbáta. Bretar hefðu reynt að rekja ferðir Rússanna og árið 2020 varð árekstur milli bresks herskips og rússnesks kafbáts. Í kjölfar þess urðu miklar vangaveltur um að Rússar væru að kortleggja kapla á hafsbotni.
Fyrir tíu dögum eyðilagðist sæstrengur (netkapall) sem tengir Hjaltlandseyjar við Skotland. Ekki er vitað hvort það var skemmdarverk eða fiskitroll sem eyðilagði strenginn. Viku áður en þetta gerðist skemmdist sæstrengur norðan við Hjaltlandseyjar. Sá strengur liggur til Færeyja. Íbúar Hjaltlands, sem eru 22 þúsund voru þá dögum saman í vandræðum með síma, tölvur og netbanka.
7. janúar sl. urðu skemmdir á sæstreng skammt frá Longyearbyen á Svalbarða. Ekki er vitað hvað olli en grunur beindist að rússneskum togara sam hafði verið að veiðum á þessum slóðum. Með neðansjávarmyndavél sást eitthvað sem talið var að gæti verið far eftir troll en enn hefur ekki fundist skýring á hvað gerðist.
Njósnaskipið Yantar
Eftir skemmdarverkið á Nord Stream-gasleiðslunni hafa norskir fjölmiðar fjallað talsvert um rússneska njósnaskipið (orðalag norskra miðla) Yantar.
Yantar var tekið i notkun árið 2015 og er sagt vera búið fullkomnum tækjum til neðansjávarrannsókna. Í ágúst í fyrra fylgdust Bretar með skipinu þar sem það sigldi allengi beint fyrir ofan sæstreng sem liggur frá Bandaríkjunum til Írlands. Yantar sást ennfremur á sömu slóðum og til stendur að leggja sæstrenginn Celtic Norse, milli Noregs og Írlands.
Haustið 2021 sást til skipsins fyrir norðan Skagen í Danmörku. Skömmu síðar var slökkt á svonefndum AIS-sendi skipsins, tæki sem notað er til að staðsetja skip.
Líflínur upplýsinga og orku
Nokkrum dögum eftir að skemmdirnar á Nord Stream-gasleiðslunni komu í ljós lagði Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fram drög að áætlun um eftirlit og varnir á mikilvægum innviðum „líflínum upplýsinga og orku“ eins og hún komst að orði. „Skemmdarverkin á Nord Stream-leiðslunni hafa sýnt okkur fram á hve viðkvæmt orkuflutningakerfi okkar er,“ sagði Ursula von der Leyen.
Hún sagði að orkuflutningakerfið væri það fyrsta sem þyrfti að skoða varðandi öryggi og varnir en sama gilti í raun um gagnaflutningakerfið.
Evrópusambandið þarf að mati Ursulu von der Leyen að stórauka notkun gervihnatta í þessu skyni og styrkja samvinnuna við NATÓ.
Ursula von der Leyen hefur einnig kynnt áætlun um að styrkja og auka samvinnu ESB-landanna varðandi borgarana og nefndi í því sambandi samstarfið í kringum COVID-19 veiruna. „Sú samvinna gekk mjög vel en við þurfum að koma skipulaginu í fastari skorður,“ sagði Ursula von der Leyen.