Aðsend mynd hallgrimurtesla123131.jpg

„Hallgrímur Helgason rithöfundur er ekki skráður eigandi Teslu“

Lögmaðurinn og almannatengslaráðgjafinn Þorbjörn Þórðarson fletti upp eignum rithöfundarins Hallgríms Helgasonar í bæði fasteignaskrá og ökutækjaskrá til þess að komast að því hvort rétt væri að hann ætti Tesla-bifreið, sem reyndar er í eigu nágranna hans. Hugmyndin var að nota Teslu-eignina gegn honum á opinberum vettvangi. Hallgrímur segir að honum hafi brugðið er hann komst að því að njósnað hefði verið um sig með þessum hætti.

Vörn Samherja í baráttunni um almannaálitið eftir að Namibíumálið kom upp á yfirborðið síðla árs 2019 hefur tekið á sig ýmsar myndir. Sumar skringilegri en aðrar. Lögmaðurinn og almannatengslaráðgjafinn Þorbjörn Þórðarson notaði til dæmis bæði fasteignaskrá Þjóðskrár og ökutækjaskrá Samgöngustofu til þess að fletta upp eignum rithöfundarins Hallgríms Helgasonar, í kjölfar þess að Hallgrímur setti fram gagnrýni á Samherja í desember árið 2019. Þetta sýna þau samskiptagögn sem Kjarninn hefur undir höndum glögglega fram á.

Páll Steingrímsson skipstjóri hjá Samherja sagði Þorbirni að hann teldi að Hallgrímur ætti rafmagnsbíl af gerðinni Tesla. Samkvæmt samskiptunum ætti það að gefa tilefni til þess að koma höggi á rithöfundinn á opinberum vettvangi — að koma því á framfæri að hann ætti rándýran rafmagnsbíl — verandi á sama tíma á listamannalaunum. Páll sagðist einungis þurfa að fá það staðfest að Hallgrímur ætti Tesluna sem stæði í grennd við heimili hans, en ekki nágranni hans.

Ekki kemur fram í þessum samskiptum hvernig Páll öðlaðist vitneskju um að Tesla-bifreið stæði stundum nærri heimili Hallgríms í Reykjavík. Sú kenning hans var sett fram í tölvupósti til Þorbjörns ásamt öðrum „efnivið“ sem mætti nýta til þess að rægja einstaklinga.

„Svakalegt“ að uppgötva njósnir um heimilið

Hallgrímur segir við Kjarnann að honum hafið brugðið við að heyra af þessu. „Þetta er svakalegt, að uppgötva að það sé verið að njósna um heimili manns, skoða hvaða bíla maður á og á ekki og fletta upp eignum manns.“

Tesla-bifreiðin sem um ræðir er í eigu nágranna Hallgríms. „Ég á mjög góða granna, við búum í tvíbýlishúsi og deilum innkeyrslu. Það er skuggalegt að sjá svona vinnuaðferðir, ekki síst þar sem þetta er eitt stærsta fyrirtæki landsins og þeir menn sem þar ráða eru mjög valdamiklir og beintengdir inn í ríkisstjórn Íslands,“ segir Hallgrímur.

Auglýsing

Hann skýtur því að í samtali við blaðamann að hann telji Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra aldrei hafa tjáð sig með skýrum og afgerandi hætti um málefni Samherja og framgöngu fyrirtækisins síðan Namibíumálið kom upp á yfirborðið.

„Ég á ekki von á neinu frá Katrínu núna heldur þar sem Samherji á einn ráðherra við ríkisstjórnarborðið. Það er ekki furða að Samherji telji sig geta komist upp með allt,“ segir Hallgrímur.

Reglur gilda um uppflettingar lögmanna

Lögmenn geta fengið sérstakan aðgang að bæði fasteignaskrá og ökutækjaskrá í krafti starfsréttinda sinna, en sá aðgangur er hins vegar háður ákveðnum takmörkunum.

Til dæmis skal gæta að því að óviðkomandi komist ekki yfir upplýsingar sem lögmaður fær úr fasteignaskrá og söfnun upplýsinga úr fasteignaskránni er raunar með öllu óheimil nema notandinn hafi lögvarða hagsmuni af slíkri söfnun. Tekið er fram á vef Þjóðskrár að misnotkun kunni að varða við lög.

Í ökutækjaskrá mega lögmenn síðan einungis fletta upp eftir kennitölum ef þeim hefur verið falið að innheimta kröfur eða ef þeir eru að fara með skipti þrotabús eða dánarbús. Samgöngustofa segist loka varanlega á aðgang lögmanna sem fari ítrekað á svig við þessar reglur, en við fyrsta brot skal loka aðgangi lögmanns í 3 mánuði.

Erfitt er að komast að þeirri niðurstöðu að einhverjum þessara skilyrða hafi verið mætt 20. desember 2019, þegar Þorbjörn fletti upp eignum rithöfundarins og félags í hans eigu, í því skyni að komast að niðurstöðu um hvort hann gæti mögulega átt Teslu.

„Ég get flett því upp í ökutækjaskrá. Ég hef aðgang að öllum fasteignum, ökutækjum og skipum,“ sagði lögmaðurinn í tölvupósti til Páls, sem svaraði um hæl: „Glæsilegt 😀 þú ert rétti maðurinn fyrir okkur hjá Samherja 😃“.

Nokkru seinna svaraði Þorbjörn aftur. „Hallgrímur Helgason rithöfundur er ekki skráður eigandi Teslu,“ sagði lögmaðurinn og rakti svo að Hallgrímur ætti tvo bíla af Hyundai-gerð, annars vegar Santa Fe og hins vegar Galloper-jeppa. Einnig fylgdi sögunni að Hallgrímur hefði áður átt Skoda-bifreið af gerðinni Octavia en selt hana árið 2007.

Auglýsing

Þorbjörn kom því einnig á framfæri við Pál hvaða fasteign rithöfundurinn ætti samkvæmt fasteignaskrá og fletti sömuleiðis upp einkahlutafélagi Hallgríms, sem átti hvorki fasteign né bifreið, samkvæmt athugun lögmannsins og almannatengslaráðgjafans.

„Þannig að ef að Hallgrímur hefur aðgang að Teslu þá er hún hvorki í hans eigu né félagsins,“ skrifaði lögmaðurinn í svarpósti sínum, sem bar einfaldlega heitið „Eignir Hallgríms Helgasonar“. Þar með var það mál úr sögunni — Tesla í eigu einhvers annars en Hallgríms gat ekki verið notuð til að koma höggi á rithöfundinn.

Þorbjörn og Páll rökræddu við þingmenn

Rithöfundurinn Hallgrímur kom þó aftur við sögu í samskiptum þeirra Þorbjörns og Páls. Hallgrímur setti inn færslu í hópinn Fjölmiðlanördar á Facebook snemma í ágúst árið 2020 og gagnrýndi þar frétt Morgunblaðsins um samantekin reikningsskil þeirra fyrirtækja sem Samherji starfrækti í Namibíu á árunum 2012-2018, sem sett var fram undir fyrirsögninni „Ekkert arðrán átt sér stað“.

Vert er að taka fram að Morgunblaðið fékk aðgang að gögnum um rekstur Samherja í Namibíu frá Samherja sjálfum og byggði fréttina á þeim og fullyrðingum Björgólfs Jóhannssonar þáverandi starfandi forstjóra fyrirtækisins, sem sagðist vona til þess að birting þessara upplýsinga yrði til þess að umfjöllun fjölmiðla um Samherja yrði „sanngjarnari“. Einnig er vert að taka fram að Samherji brást ekki við ósk Kjarnans um afhendingu sömu gagna, sem sett var fram í kjölfar þess að frétt Morgunblaðsins birtist.

Hallgrímur setti inn gagnrýni á fréttaflutning Moggans af tölunum frá Samherjasamstæðunni — sagði raunar að það væri gott að eiga fjölmiðil „ef maður er glæpon!“ og út frá því spunnust miklar umræður, enda eldfim yfirlýsing.

Hér ber að taka fram að Samherji á ekki lengur hlut í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, en sá eignarhlutur var seldur Eyþóri Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík með seljendaláni frá Samherja sjálfum.

Páll kom Samherja til varnar í þeim leðjuslag sem átti sér stað í kommentakerfinu, með hjálp Þorbjörns.

Lögmaðurinn sendi Páli tölvupóst með tillögu að svari til Hallgríms, sem birtist síðan orðrétt undir nafni Páls í umræðunni – reyndar með smá niðurlagi sem virðist frá Páli sjálfum komið. Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata svaraði athugasemd Páls og nokkur orðaskipti urðu þeirra á milli í framhaldinu.

Þorbjörn Þórðarson var áfram á hliðarlínunni.

Í samskiptum Þorbjörns og Páls þennan dag, 9. ágúst 2020, má finna tvo tölvupósta frá Þorbirni sem bera heitin „Svar við kommenti Björns Leví“ og „Svar til Björns Leví nr. II“. Bæði svörin sem Þorbjörn sendi birti Páll algjörlega orðrétt undir sínu eigin nafni í orðaskiptum sínum við þingmanninn.

Björn Leví er ekki eini þingmaðurinn sem Þorbjörn hefur svarað í gegnum Pál í einhverjum rifrildum á internetinu um Namibíumálið eða önnur mál sem snerta Samherja. Þorbjörn átti nefnilega líka svar á reiðum höndum fyrir Helgu Völu Helgadóttur þingmann Samfylkingar, seinna í þessari sömu umræðu.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar