Samkvæmt samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá 2010 var álagningarprósenta útsvars í lögum um tekjustofna sveitarfélaga hækkuð um 1,2 prósentustig til að mæta þeim kostnaði sem félli til hjá sveitarfélögunum við yfirtöku á þjónustu við fatlað fólk. Tíu árum síðar, árið 2020, var rekstrarniðurstaða íslenskra sveitarfélaga vegna þjónustunnar orðin neikvæð um 8,9 milljarða króna og hafði rekstrarhallinn þrefaldast frá árinu 2018.
Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps um greiningu á kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk árin 2018-2020 sem birt var á vef stjórnarráðsins í gær, en hún var hluti af stærri skýrslu um heildarendurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Skýrslurnar voru birtar með yfirlýsingu um stofnun nýs starfshóps sem á að móta tillögur varðandi kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk. Stofnun starfshópsins var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í gær, föstudag, og mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra sjá um að skipa starfshópinn.
Hækkun álagsprósentu útsvars í lögum um tekjustofna sveitarfélaga árið 2010 grundvallaðist á mati á kostnaði hjá ríkisjóði við þjónustuna árin 2008 og 2009 og áætlaðri fjölgun notenda, en þá var gert ráð fyrir að jafnvægi yrði náð með 1.100 notendum, sem var fjölgun um rúm 20% frá 2009 þegar notendur voru 919, en vegna mikils kostnaðarauka hjá sveitarfélögunum hefur síðan meðal annars útsvarsprósentan verið hækkuð, auk þess sem ríkissjóður jók hlutfall skatttekna til Jöfnunarsjóðs til úthlutnar til sveitarfélaga vegna málaflokksins.
Notendum fjölgaði um 3 prósent en gjöld jukust um 35
Á árunum sem skýrsla um kostnaðarþróun í þjónustu við fatlað fólk fjallar um, 2018 til 2020, fjölgaði notendum um minna en 3% úr 1.241 árið 2018 í 1.275 árið 2020, en eins og áður segir jókst rekstrarhallinn þrefalt, um 300% úr tæpum 3 milljörðum í tæpa 9 milljarða króna. Gjöld vegna þjónustar við fatlað fólk jukust um 35,1% á sama tíma og tekjur jukust aðeins um 12,9%.
Í auknum kostnaði á tímabilinu vega einna hæst laun og launatengd gjöld, sem hækkuðu um 34% úr 15,8 milljörðum í 21,1 milljarð króna, og í skýrslunni er sú ályktun dregin að magnbreytingar og auknar kröfur um þjónustu vegi þungt í auknum launakostnaði, en laun eru langstærsti útgjaldaliður sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlaða í búsetuúrræðum, eða 84-85%. Þá er gert ráð fyrir talsverðri hækkun útgjalda í málaflokknum á næstu árum vegna áætlana um að leggja niður herbergjasambýli og gefa fötluðu fólki þess í stað kost á að búa í eigin íbúð með það að markmiði að einstaklingsvæða þjónustuna.
Það er því ljóst að útsvar og greiðslur úr Jöfnunarsjóði standa ekki undir þeirri þróun sem á sér stað í málefnum fatlaðs fólks, en áætlað er að starfshópur um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk skili tillögum fyrir 15. október 2022.
Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir koma fram fjölmargar tillögur sem skiptast á mörg málasvið, þ.e. húsnæðis- og búsetumál, atvinnumál, notendastýrða persónulega aðstoð (NPA), hvernig staðið er að samráði aðila og mat á stuðningsþörf. Mun félags- og vinnumarkaðsráðuneytið rýna efni þeirra tillagna og gera tillögu um frekari úrvinnslu og næstu skref, að því er fram kemur í tilkynningu Stjórnarráðsins. Við þá vinnu verði ákvæði í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna höfð til hliðsjónar. „Skýrsla starfshópsins er mikilvægt innlegg í vinnu við lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en kveðið er á um lögfestingu hans í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.“