Elísabet Englandsdrottning var „í fínu formi“ að sögn Harry Bretaprins þegar hann fékk sér te með ömmu í Windsor-kastala á skírdag ásamt Meghan Markle eiginkonu sinni. Þau hittu einnig Karl Bretaprins, föður Harrys. Drottningin fagnar 96 ára afmæli í dag.
Hertogahjónin af Sussex komu við hjá drottningunni á leið sinni á Invictus-leikana í Hollandi, alþjóðlegra leika sem Harry stendur fyrir þar sem hermenn sem hafa slasast eða veikst við herþjónustu etja kappi í alls konar íþróttagreinum. Ekki var greint sérstaklega frá heimsókninni en í viðtali við Today Show á NBC segir prinsinn nánar frá heimsókninni.
„Það var frábært að hitta hana, sérstaklega í ró og næði,“ sagði Harry, sem kom ömmu sinni til að hlæja eins og oft áður. „Ég var bara að tryggja að hún njóti verndar og sé umkringd rétta fólkinu,“ segir Harry í viðtalinu, sem birt var í heild sinni í gærkvöldi.
Þetta er í fyrsta sinn sem Harry og Meghan fara saman til Bretlands eftir að þau sögðu sig frá öllum konunglegum skyldum fyrir rúmum tveimur árum. Harry hefur tvisvar komið einn í heimahagana, annars vegar til að vera viðstaddur jarðarför Filippusar prins, afa síns, og hins vegar þegar stytta til minningar um móður hans var afhjúpuð.
Harry segir samband sitt við ömmu sína einstakt. Aðspurður hvað sé það besta í fari Englandsdrottningar segir Harry: „Skopskyn hennar og hæfileiki hennar til að sjá það fyndna við marga hluti. Við tölum um hluti sem hún getur ekki talað um við aðra.“ Harry telur hins vegar að amma hans hugsi lítið um afmælisdaginn. „Ég held að þegar þú ert kominn á vissan aldur fáir þú leið á að eiga afmæli,“ segir Harry. Drottningin hafði vissulega hægt um sig í dag og dvaldi í húsi konungsfjölskyldunnar í Sandringham, sem var í uppáhaldi hjá Filippusi prins.
Lítur á Bandaríkin sem heimili fjölskyldunnar sem stendur
Harry segir Bandaríkin vera heimili sitt „um þessar mundir“ og segir að fjölskyldunnihafi verið tekið þar með opnum örmum.
Harry og Meghan tilkynntu í upphafi árs 2020 að þau ætluðu að afsala sér konunglegum titlum sínum. Það gekk í gegn vorið 2020. Harry er þó áfram prins og er sjötti í erfðaröðinni að bresku krúnunni.
Elísabet Englandsdrottning studdi ákvörðun þeirra, ef marka má yfirlýsingu hennar þar sem hún sagði konungsfjölskylduna hafa fundið „uppbyggilega og stuðningsríka leið fram á við fyrir sonarson minn og hans fjölskyldu.“ Harry, Meghan og Archie verða alltaf elskuð af fjölskyldunni, sagði einnig í yfirlýsingunni. Drottningin sagðist hafa skilning á þeim áskorunum sem þau hafa upplifað síðustu tvö ár, verandi undir nálarauga fjölmiðla, „og ég styð ósk þeirra um meira sjálfstæði“.
Síðan þá hefur fjölskyldan stækkað, en Lillibet litla sem verður eins árs í sumar hefur aldrei hitt konungsfjölskylduna og Archie, sem verður þriggja ára í byrjun maí, hefur ekki hitt afa sinn og langömmu frá því að foreldrar hans sögðu skilið við krúnuna.
Höfðu betur gegn slúðurpressunni eftir þriggja ára dómsmál
Áreiti bresku götublaðanna, nokkuð sem móðir Harrys, Díana prinsessa, þekkti mætavel, var meðal ástæða þess að Harry og Meghan sögðu skilið við lífið í höllinni. Meghan varð fljótt uppáhald slúðurpressunnar sem átti að verða hin nýja „prinsessu fólksins“. Harry viðurkenndi í viðtali haustið 2019 að hann óttaðist að Meghan myndi hljóta sömu örlög og móðir hans, sem lést í bílslysi í París eftir að hafa verið hundelt af ljósmyndurum.
Eftir að eitt götublaðanna, Mail on Sunday, birti hluta bréfs sem Meghan skrifaði föður sínum skömmu fyrir brúðkaup þeirra Harry ákváðu hjónin að nóg væri komið. Í október 2019 gaf Harry út yfirlýsingu þar sem fram kom að hjónin hygðust lögsækja Mail og Sunday fyrir að birta upplýsingar úr einkabréfi.
Dómsmállið stóð yfir í um þrjú ár en lauk í upphafi þessa árs þegar Meghan voru dæmdar skaðabætur vegna málsins. Upphæðin var þó ekki nema eitt pund, enda var það ekki upphæðins sem skipti máli heldur viðurkenning Mail on Sunday á innrás í einkalíf Meghan og staðfesting á að láta ekki reyna frekar á málið fyrir dómstólum.
„Ég hef séð hvað gerist þegar þeir sem ég elska eru gerðir að söluvöru og ekki lengur komið fram við þá eins og alvöru persónur. Ég missti móður mína og nú horfi ég upp á eiginkonu mína verða fórnarlamb sömu valdamiklu afla,“ sagði meðal annars í yfirlýsingu prinsins.
Ekki leið langur tími þar til hjónin tilkynntu á Instagram að þau ætluðu að láta af ölllum konunglegum skyldum sínum og dvelja á víxl í Bretlandi og Norður-Ameríku.
Vernda drottninguna fyrir hverju?
Þar hafa þau nú dvalið í tæp tvö ár og það vakti athygli konungslegs fréttaritara Breska ríkisútvarpsins hvað Harry átti í raun og veru við þegar hann sagðist hafa verið að kanna öryggi ömmu sinnar.
„„Vernda“ hana fyrir hverju?“ spyr Sean Coughan, konunglegur fréttaritari BBC. Í broti úr viðtalinu sem NBC hefur birt er ekki gefið upp hvers vegna Harry finnst hann þurfa að vernda ömmu sína. Er hún orðin heilsuveil eða vill hann vernda hana frá slæmum ákvörðunum?
Heilsa drottningarinnar hefur verið til umræðu upp á síðkastið, skiljanlega sökum aldurs hennar. Drottningin var lögð inn á spítala í október og í kjölfarið hefur hún dregið úr viðveru sinni á ýmsum viðburðum, hún sótti til að mynda ekki messu á páskadag eins og venja er. Þá fékk hún COVID í byrjun árs og hefur greint frá því að hún þjáist af bakverkjum, eigi erfitt með gang og treysti sér því ekki til að standa lengi.
Coughan, sem birti pistil sinn áður en viðtalið var birt í heild sinni, bendir réttilega á að áhættusamt sé að ráðast í ítarlega greiningu á broti úr stærra viðtali, kannski muni Harry útskýra frekar hvað hann á við þegar viðtalið verður birt í heild sinni. Það gerði hann hins vegar ekki, en viðtalið var á mjög léttum nótum.
Eitt er þó ljóst í máli Harrys að mati konunglega fréttaritarans: Hann sér framtíð sína og fjölskyldunnar fyrir sér í Bandaríkjunum, að minnsta kosti eins og sakir standa. Hvað sem konunglegum genum líður, lífið snýst um gallabuxur og sólskin í Santa Barbara þessa stundina þar sem fjögurra manna fjölskyldan hefur búið sér heimili og virðist vera að festa rætur.