Í alþjóðlegum samanburði eru ákaflega margir skráðir í stjórnmálaflokka á Íslandi, en skráðir félagar í flokkunum eru samanlagt hátt í 100 þúsund, samkvæmt því sem Kjarninn kemst næst eftir að hafa leitað svara hjá flokkunum sjálfum. Ekki er ósennilegt að margir einstaklingar séu skráðir í fleiri en einn stjórnmálaflokk og því er fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga þessar tæplega 100 þúsund aðildir að flokkunum eflaust eitthvað lægri.
Allir flokkar landsins nema Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn reyndust tilbúnir að gefa upp hve margir félagar þeirra eru þegar Kjarninn leitaði svara um það nýlega.
Sjálfstæðisflokkurinn er langstærstur íslenskra flokka. Óljóst er þó nákvæmlega hversu margir félagarnir á flokksskrá Sjálfstæðisflokksins eru, en eftir því sem Kjarninn kemst næst eru þeir á bilinu 40 til 50 þúsund talsins. Heimildum ber ekki saman og flokkurinn neitar að gefa fjölda félaga út opinberlega. Sama hvora töluna er stuðst við þá er Sjálfstæðisflokkurinn langstærstur er litið er til fjölda félaga.
Í samtalningu Kjarnans verður miðað við að félagar í flokknum séu um 45 þúsund talsins, sem er mitt á milli þeirra talna sem vísað hefur verið til af fólki sem þekkir til. Árið 2009 gaf flokkurinn sjálfur út að félagar væru um 50 þúsund talsins.
Miðflokkurinn þögull sem gröfin
Ekki hefur reynst mögulegt að komast að því hversu margir eru í Miðflokknum, en flokkurinn hefur þá stefnu að gefa ekki upp fjölda félaga, samkvæmt svari starfsmanns flokksins til Kjarnans. Miðflokkurinn, sem var stofnaður í aðdraganda kosninga 2017, er því ekki með í þessari samtalningu Kjarnans. Svörin sem fengust frá einstaklingum sem þekkja til mála í Miðflokknum þegar blaðamaður reyndi að lokka fram svör voru þó þau að fjöldi flokksmanna hlypi á þúsundum, eða þá að flokksmenn væru „nógu margir“.
Samfylkingin næst stærsta hreyfingin
Fjöldi félaga var minna feimnismál hjá öðrum stjórnmálaöflum sem Kjarninn leitaði til með fyrirspurnir. Fyrir utan Sjálfstæðisflokkinn er Samfylkingin sá flokkur sem hefur flesta skráða félaga. Samkvæmt svörum sem fengust frá flokknum eru félagar í Samfylkingunni um 15 þúsund talsins um þessar mundir, en flokkurinn var stofnaður árið 1998 með samruna Alþýðuflokksins og nokkurra annarra afla á vinstri væng stjórnmálanna, í breiðfylkingu íslenskra jafnaðarmanna sem ætlað var að verða mótvægisafl við Sjálfstæðisflokkinn.
Framsóknarmenn flestir í landsbyggðunum
Þar næst kemur Framsóknarflokkurinn, sem er með 12.664 félaga á landsvísu, samkvæmt svari frá skrifstofu flokksins. Í svarinu frá Framsókn, sem er elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins, fékkst einnig sundurliðun á fjölda félaga eftir kjördæmum. Þar kemur í ljós að þeir eru hlutfallslega mun miklu fleiri í landsbyggðarkjördæmum en á höfuðborgarsvæðinu.
Flestir eru skráðir Framsóknarmenn í Suðurkjördæmi, eða hátt í 3.300 talsins og fæstir í Norðvesturkjördæmi, eða rúmlega 2.100 manns.
Í Reykjavík allri, þar sem 36 prósent kjósenda kjósa eru félagar í Framsóknarflokknum einungis rúmlega hundrað fleiri en í Norðvesturkjördæmi, þar sem tæp 12 prósent kjósenda voru á kjörskrá í forsetakosningunum í fyrra. Flokkurinn hefur haft það að markmiði að auka fylgi sitt á höfuðborgarsvæðinu og teflir nú fram tveimur af þremur ráðherrum sínum í oddvitasætum í Reykjavík.
Vinstri græn aldrei verið fleiri
Félagar í Vinstri grænum eru samkvæmt svari frá skrifstofu flokksins um 8.000 talsins og hafa aldrei verið fleiri en um þessar mundir, en eins og Kjarninn sagði frá á vordögum tútnuðu kjörskrár flokksins út í aðdraganda prófkjöra sem haldin voru hjá flokknum í öllum kjördæmum.
Eru þá upptaldir félagar í fjórflokknum svokallaða, þeim fjóru rótgrónu flokkum og arftökum þeirra sem hafa verið með yfirburðastöðu á Íslandi frá því að þeir urðu til á fyrri hluta síðustu aldar. Samanlagður fjöldi skráðra félaga í þessum fjórum flokkum er um eða yfir 80 þúsund manns.
Nýju flokkarnir minni einingar
Eins og eðlilegt má telja eru nýju flokkarnir, sem allir hafa orðið til á undanförnum áratug, öllu minni í sniðum en þeir sem eru rótgrónari í íslenskum stjórnmálum og með lengri sögu á bak við sig.
Ef litið er til fjölda félaga eru Píratar stærstir af nýju flokkunum, en flokkurinn bauð í fyrsta skipti fram til Alþingis árið 2013. Samkvæmt svari frá flokknum eru félagarnir hartnær 5.200 talsins, þar af tæplega 1.800 í Reykjavík.
Viðreisn, sem bauð fyrst fram árið 2016, segist vera með um 2.700 félagsmenn, en í svari starfsmanns flokksins til Kjarnans var þess sérstaklega getið að flokkurinn hefði aldrei haldið prófkjör, sem eru jú ein helsta ástæðan fyrir því að fólk skráir sig í stjórnmálaflokka.
Sósíalistaflokkurinn, sem býður nú fram til Alþingis í fyrsta sinn, hefur verið að safna liði af nokkrum krafti undanfarna mánuði og gefur reglulega út að félögum sé að fjölga. Samkvæmt svari sem Kjarninn fékk frá flokknum á síðustu vikum var fjöldi félaga að nálgast 2.700.
Flokkur fólksins segist síðan vera með um 1.000 félaga, en flokkurinn bauð fyrst fram til Alþingis árið 2016.
Til viðbótar við þessa flokka hafa fleiri flokkar sprottið fram á sjónarsviðið á síðasta rúma áratug, sem hafa verið umbrotatímar í íslenskum stjórnmálum, en síðan horfið á nú jafnharðan. Augljósasta dæmið um slíkt stjórnmálaafl er Björt framtíð, sem býður ekki fram til Alþingis að þessu sinni eftir að hafa tekið sæti í ríkisstjórn fyrir einungis fimm árum síðan.
Flokkar í vanda?
Þrátt fyrir þennan mikla fjölda félaga í flokkunum hafa verið settar fram efasemdir um virkni íslensku flokkanna á undanförnum misserum. Sjálfboðastarf í samfélaginu almennt hefur farið minnkandi og flokkarnir, sem eru orðnar vel fjármagnaðar einingar með síhækkandi framlögum hins opinbera, þurfa æ minna á virkri þátttöku almennings að halda þar sem þeir hafa fólk á launum í hinum ýmsu hlutverkum. Eða svo virðist mörgum raunin vera utanfrá.
Eitt nýjasta dæmið um skarpa gagnrýni á hlutverk flokkanna í lýðræðislegu samfélagi á Íslandi kom fram í pistli frá Styrmi Gunnarssyni heitnum í Morgunblaðinu fyrir rúmum mánuði síðan. Þar sagði hann íslensku stjórnmálaflokkana hreinlega vera í vandræðum.
„Nýju flokkarnir eru nafnið tómt og á bak við þá eru fámennir hópar fólks. Gömlu flokkarnir eiga sér lengri sögu og sumir þeirra eru með þúsundir og jafnvel tugþúsundir flokksmanna. En þeirra vandamál er stöðnun. Þeim hefur ekki tekizt að laga sig að breyttu samfélagi og eru hræddir við nýjar hugmyndir eða aðrar skoðanir en þær sem eru ríkjandi hverju sinni,“ skrifaði Styrmir.
Í grein sinni lagði Styrmir út frá stuttu viðtali Kjarnans við Guðjón Brjánsson fráfarandi þingmann Samfylkingarinnar, sem þar setti fram vangaveltur um að flokkurinn þyrfti mögulega að hugsa sinn gang. „Það mundi kveikja mikið líf í þeim flokki ef efnt yrði til opins fundar í flokknum um þessa spurningu Guðjóns,“ skrifaði Styrmir, en taldi líkurnar á því þó hverfandi.
Hann sagði að með sama hætti ætti Sjálfstæðisflokkurinn „að efna til opins fundar um hálendisþjóðgarð, sem einhverjir þingmenn þvældust fyrir að yrði samþykktur á þingi“ og sagði að slíkur fundur gæti ef til vill opnað augu einhverra þingmanna fyrir því að „andstaða við hálendisþjóðgarð er afturhald af verstu tegund.“ Ekki væru þó miklar líkur á því.
Styrmir sagði sömuleiðis að hið sama mætti segja um Vinstri græn. „Þegar skoðanakönnunin birtist um andstöðu kjósenda VG við samstarfið við Sjálfstæðisflokkinn hefði verið eðlilegt að efna til opins fundar í VG um þá könnun. Það var ekki gert,“ skrifaði ritstjórinn fyrrverandi í sitt gamla blað.