vg fundur

Aldrei fleiri skráð í VG – kjörskrár tútnuðu út í aðdraganda forvals

Metfjöldi félaga er um þessar mundir skráður í VG, eða yfir 7.111 manns. Frá áramótum hafa á bilinu 1.400 til 1.500 manns bæst í flokkinn, flestir í þeim kjördæmum þar sem forval hefur þegar farið fram. Þingmaður sem tapaði oddvitaslag í Norðvesturkjördæmi segir vert að endurskoða hvernig flokkurinn velur sér fulltrúa inn á þing.

Fjöldi félaga í Vinstri hreyf­ing­unni – grænu fram­boði hefur vaxið all­nokkuð það sem af er ári og kjör­skrár í nokkrum kjör­dæmum þar sem for­völ hafa farið fram nú þegar hafi tútnað ræki­lega út, sam­an­borið við síð­asta ár.

Á fimmtu­dags­morgun voru félagar í hreyf­ing­unni orðnir 7.111 tals­ins, sam­kvæmt svari frá Björgu Evu Erlends­dóttur fram­kvæmda­stjóra VG við fyr­ir­spurn Kjarn­ans, en þeir hafa aldrei verið fleiri en um þessar mund­ir.

Björg segir að hana reki minni til þess að fjöldi félaga hafi verið á bil­inu 5.600 til 5.700 tals­ins um ára­mót, sem þýðir að félögum hafi fjölgað um 1.400 til 1.500 á innan við fjórum mán­uð­um.

Þing­maður sem tap­aði odd­vitaslag efins um leik­regl­urnar

Athygli vakti á dög­unum að þing­mað­ur­inn Lilja Raf­ney Magn­ús­dóttir steig fram eftir að hafa lotið í lægra haldi fyrir Bjarna Jóns­syni í for­vali flokks­ins í Norð­vest­ur­kjör­dæmi og sagði hrein­lega að smalað hefði verið gegn sér í for­val­inu.

Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna laut í lægra haldi í oddvitaslag í Norðvesturkjördæmi.
Bára Huld Beck

„[M]ér finnst þetta ekki endi­lega vera heið­ar­legar leik­reglur eða lýð­ræð­is­legar í sjálfu sér og umhugs­un­ar­efni til fram­tíðar hvort þetta sé leiðin til þess að velja fólk á lista, að fjöldi manns komi inn og kannski fari út strax að for­vali lokn­u,“ sagði Lilja Raf­ney í sam­tali við RÚV þegar úrslit lágu ljós fyr­ir.

Ekki grenj­andi en telur end­ur­skoð­unar þörf

Kjarn­inn heyrði í Lilju Raf­n­eyju og hún er enn sama sinn­is. Hún seg­ist vita fyrir víst að um 500 nýir félagar hafi hafi bæst við flokk­inn í Norð­vest­ur­kjör­dæmi rétt fyrir for­valið og veltir því fyrir sér hvort að þetta sé besta leiðin til þess að velja full­trúa flokks­ins með lýð­ræð­is­legum hætti.

Hún segir að það sé auð­vitað ekki óleyfi­legt sam­kvæmt lögum og reglum flokks­ins að hvetja fólk til þess að ganga í hreyf­ing­una og ljá sér stuðn­ing í for­vali. Svipað eigi sér einnig stað í öðrum flokk­um, að margir komi nýir inn skömmu áður en flokks­menn fari í það að velja sér full­trúa með atkvæða­greiðsl­um. En þetta finnst Lilju Raf­ney vera of stór þáttur í ferl­inu.

„Þetta virð­ast hlut­irnir ganga út á og mér finnst að alla­vega minn flokkur þurfi að taka til end­ur­skoð­un­ar,“ segir Lilja Raf­ney, sem hefur verið full­trúi VG í Norð­vest­ur­kjör­dæmi á þingi frá árinu 2009. Hún segir að nýliðar þurfi að sjálf­sögðu að eiga mögu­leika á að kom­ast að, en segir spurn­ingu hvernig aðferða­fræðin eigi að vera.

Á henni er að heyra að núver­andi fyr­ir­komu­lag geri sitj­andi þing­mönnum ef til vill erfitt fyrir við að leggja störf sín í dóm flokks­manna. Sjálf er hún ekki enn búin að ákveða hvort hún þiggi 2. sætið á lista Vinstri grænna í kjör­dæm­inu.

„Ég er enn að velta vöngum yfir þessu. Það er aldrei að vita hvað maður ger­ir. Maður er bar­áttu­maður í eðli sínu og er ekki grenj­andi yfir þessu,“ segir Lilja Raf­ney og seg­ist vilja horfa á heild­ar­sam­hengi hlut­anna. Hún hafi þannig fengið um 30 pró­sent fleiri atkvæði en síð­ast þegar hún og Bjarni átt­ust við í for­val­inu árið 2016. En það hafi líka verið um það bil 50 pró­sent fleiri á kjör­skránni en voru skráðir í félagið skömmu fyrir for­val­ið.

Nýir félagar flykkj­ast að í aðdrag­anda for­vala

Í ljósi þess­ara orða Lilju Raf­n­eyjar og ummæla hennar um að 500 nýja félaga sem hefðu bæst við í aðdrag­anda for­vals­ins óskaði Kjarn­inn eftir upp­lýs­ingum frá hreyf­ing­unni um þróun í fjölda flokks­fé­laga frá ára­mótum og bað flokk­inn sömu­leiðis um að gefa upp hvernig þróun fjölda flokks­fé­laga í hverju kjör­dæmi fyrir sig hefði ver­ið, ef mögu­legt væri.

Í svari frá flokknum var gefið upp hversu margir voru á kjör­skrá í for­vali flokks­ins nú og þær tölur bornar saman við fjölda félaga í ein­staka kjör­dæmum eins og hann var þann 19. mars árið 2020. Fram­kvæmda­stjóri flokks­ins segir þó að nær öll fjölg­unin sem hér er fjallað um hafi verið á yfir­stand­andi ári. Tekið skal fram að fjöldi skráðra félaga í hverju kjör­dæmi gefur ekki mynd af heild­ar­tölu skráðra félaga, þar sem hluti félaga VG eru búsettir erlendis eða ekki skráðir í kjör­dæma­fé­lög.

Í kjör­dæmi Lilju Raf­n­eyj­ar, Norð­vest­ur­kjör­dæmi, jókst fjöldi félaga um 502 á milli ára. Þar voru félagar 949 í mars í fyrra en síðan voru 1.451 á kjör­skránni í for­val­inu sem fram fór fyrr í mán­uð­in­um. Það er rösk­lega 52 pró­sent aukn­ing.

Félagar í svæðisfélögum VG í mars 2020 og svo fjöldi félaga sem voru eða eru komnir á kjörskrá í svæðisfélögum VG. Hafa ber í huga að ekki eru allir félagar í VG skráðir í svæðisfélag. Heimild: VG
Kjarninn

Mest fjölgun hefur orðið í Suð­vest­ur­kjör­dæmi, þar sem einnig var odd­vita­slagur fyrr í þessum mán­uði. Guð­mundur Ingi Guð­brands­son umhverf­is- og auð­linda­ráð­herra og vara­for­maður hreyf­ing­ar­innar hafði betur gegn þing­mann­inum Ólafi Þór Jóns­syni, sem hafn­aði í öðru sæti. Þar voru félagar 1.139 tals­ins í mars í fyrra en 1.698 manns end­uðu á kjör­skrá flokks­ins í for­val­inu, sem er fjölgun um 559 manns. Rúm­lega 49 pró­sent fjölg­un.

Mest hlut­falls­leg fjölgun hefur hins vegar orðið í Suð­ur­kjör­dæmi, en þar voru skráðir félagar ein­ungis 388 í mars í fyrra. Á kjör­skránni í spenn­andi for­vali, þar sem Hólm­fríður Árna­dóttir skóla­stjóri úr Sand­gerði hreppti odd­vita­sæt­ið, voru 668 manns, 280 fleiri en skráðir voru í flokk­inn í kjör­dæm­inu fyrir rösku ári síð­an. Þetta er 72 pró­sent fjölgun félaga.

Í Norð­aust­ur­kjör­dæmi, þar sem Óli Hall­dórs­son sveit­ar­stjórn­ar­maður frá Húsa­vík hafði betur í odd­vitaslag gegn þing­flokks­for­mann­inum Bjarkeyju Gunn­ars­dóttur Olsen, fjölg­aði einnig hlut­falls­lega mik­ið, en þar voru skráðir félagar 647 tals­ins í mars í fyrra og svo voru 1.040 manns á kjör­skrá þegar for­valið fór fram í mars. Félög­unum fjölgar um 393 og er um 60 pró­sent fjölgun á milli ára að ræða.

Enn hægt að kom­ast inn á kjör­skrána í Reykja­vík

Í Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum hefur ekki enn farið fram for­val, en það verður snemma í maí. Allir sem verða félagar í svæð­is­fé­lagi Vinstri grænna í Reykja­vík fyrir kl. 8 að morgni fimmtu­dags­ins 6. maí geta kosið í for­val­inu.

Auglýsing

Félagar í svæð­is­fé­lagi VG í Reykja­vík eru nú 2.566 tals­ins en voru 2.366 í mars í fyrra – sem er fjölgun um 200 manns. Reikna má með því að enn fjölgi á næstu dög­um, en bar­átta er um 2. sæti á listum í báðum Reykja­vík­ur­kjör­dæm­unum og reyna fram­bjóð­endur og stuðn­ings­fólk þeirra að vekja athygli á sér og virkja tengsla­netið til þátt­töku í for­val­inu.

Í bar­átt­unni um 2. sætið etja sitj­andi þing­menn, Stein­unn Þóra Árna­dóttir og Kol­beinn Ótt­ars­son Proppé, kappi við þau Dan­íel E. Arn­ar­son, Andrés Skúla­son, Orra Pál Jóhanns­son og Elvu Hrönn Hjart­ar­dótt­ur, sem öll bjóða sig fram í 2. sæti.

Meira um kosningar haustsins

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar