Bára Huld Beck

Slegist um átta pláss í sérdeildum grunnskóla Reykjavíkurborgar – Foreldrar búnir að fá nóg

Mikið færri komast að en vilja í sérdeildir í þeim sex grunnskólum Reykjavíkurborgar sem bjóða upp á slík úrræði. Foreldrar 30 barna með einhverfu hafa fengið „fyrirhugaða synjun“ um pláss næsta skólaár og nú tekur við ferli þar sem þeir ákveða að andmæla synjuninni eða sætti sig við að barnið fari í hverfisskólann með stuðningi. Mikið og erfitt ferli, segja sumir foreldrar – og óskýrt og ruglingslegt.

Fá útvalin börn fá laus pláss í sér­deild fyrir börn með ein­hverfu næsta skólaár í Reykja­vík. Alls bár­ust 38 umsóknir í slíkt úrræði – sem er met­fjöldi – en ein­ungis 8 pláss eru laus þetta árið. Nú hafa for­eldrar margra barna fengið svo­kall­aða „fyr­ir­hug­aða synj­un“ frá Reykja­vík­ur­borg og má greina mikla reiði og örvænt­ingu hjá þeim.

Ein­hverfu­grein­ingum barna á grunn­skóla­aldri hefur fjölgað mikið síð­asta ára­tug­inn. Árið 2010 voru þær 213 en á þessu ári alls 433. Í Reykja­vík eru sér­deildir fyrir ein­hverf börn í sex grunn­skólum en í þeim eru alls 58 pláss. For­eldrar gagn­rýna úrræða­leysi, skort á upp­lýs­inga­gjöf og það að plássum í sér­deild hafi ekki fjölgað í sam­ræmi við grein­ing­ar.

Auglýsing

Öll eiga skilið að fá þá aðstoð sem þau þurfa

Ellen Harpa Krist­ins­dótt­ir, móðir 6 ára drengs með dæmi­gerða ein­hverfu­grein­ingu, mál­þroska­röskun og væga þroska­rösk­un, lýsir áhyggjum sínum af ástand­inu í skóla­kerf­inu í sam­tali við Kjarn­ann. Sonur hennar fékk á dög­unum fyr­ir­hug­aða synjun fyrir næsta skólaár og hefur það valdið fjöl­skyld­unni miklum áhyggj­um.

Umsækj­endum gefst tæki­færi til að and­mæla synj­un­inni og það ætlar Ellen að gera. Hún segir að staðan sé þó erfið og lýsir hún ástand­inu sem von­lausu. Eins og fram hefur komið munu ein­ungis 8 börn af 38 fá pláss í sér­deild og þýðir það þá að þessi 38 berj­ist um sömu pláss­in. Einnig er vert að nefna að þessi 8 pláss eru ekki ein­ungis fyrir 1. bekkjar nema heldur fyrir nem­endur á öllum grunn­skóla­aldri.

„Auð­vitað vil ég að barnið mitt fái pláss en ég veit að aðrir for­eldrar eru í mjög svip­aðri stöðu. Það að við and­mælum þess­ari nið­ur­stöðu þýðir ekki að mitt barn eigi þetta endi­lega eitt­hvað meira skilið en önnur börn. Þau eiga öll skilið að fá þá aðstoð sem þau þurfa.“

Upp­lýs­inga­gjöf í molum

Ellen Harpa Kristinsdóttir Mynd: Aðsend

Ellen segir að allir sér­fræð­ingar sem hún hafi talað við hafi metið það þannig að dreng­ur­inn hennar þyrfti á stuðn­ingi að halda og mæltu með því fyrir hann að fara í sér­deild eða í sér­skóla.

Þannig stóðu tveir mögu­leik­ar, fyrir utan almennan skóla, drengnum til boða; að fara í sér­deild eða í Kletta­skóla, sem er sér­skóli fyrir nem­endur með þroska­hömlun og við­bót­ar­fatl­an­ir. Ellen segir að dreng­ur­inn hennar hafi sýnt miklar fram­farir í ýmsum sviðum und­an­farið og því myndi sér­deild henta honum einkar vel. „Þar gæti hann fengið að vera með krökkum og að skipta um umhverfi. Fyrir mér var þetta aug­ljóst val. Í Kletta­skóla eru krakkar aftur á móti með svo mik­inn stuðn­ing að ég sé ekki fyrir mér að strák­ur­inn minn myndi passa þar inn.“

Ellen gagn­rýnir harð­lega að ekki sé meiri upp­lýs­inga­gjöf til for­eldra. Hún seg­ist í raun ekki vita hvað tekur við næst eða hvað standi til boða fyrir son hennar í stað­inn fyrir sér­deild­ina. Gert er ráð fyrir því að þau börn sem fá synjun um pláss í sér­deild fari í hverf­is­skóla með stuðn­ingi.

Þetta telur hún skjóta skökku við.

Auglýsing

„Þetta er bara orðið lottó“

Hvernig líst þér á að strák­ur­inn þinn fari í hverf­is­skól­ann með stuðn­ingi?

„Bara mjög illa,“ svarar Ellen um hæl og viðrar áhyggjur sínar vegna þessa. „Ef þau ætla að segja nei við 30 krakka og bjóða stuðn­ing í hverf­is­skóla þá skil ég ekki hvernig þau ætla að manna þær stöð­ur. Er til svona mikið af fag­fólki í borg­inni sem getur sinnt 30 mis­mun­andi börnum í stað­inn fyrir að hafa sér­deild með fag­að­ila sem sér um þennan stuðn­ing? Þetta er bara orðið lottó – hvort þú fáir góðan stuðn­ing eða ekki.“

Ellen óskaði eftir fundi þegar fjöl­skyldan fékk þessa fyr­ir­hug­uðu synjun til þess að óska eftir svörum varð­andi fram­hald­ið. Sá fundur verður í byrjun næstu viku en á mánu­dag­inn næst­kom­andi rennur út frestur til að and­mæla synj­un­inni.

Fólk búið að fá nóg

Þroska­hjálp hélt opinn fund um málið í vik­unni og þar komu fram hin ýmsu sjón­ar­mið for­eldra barna með sér­þarf­ir. Margir lýstu yfir áhyggjum sínum af ástand­inu og ótt­uð­ust að börn þeirra fengju ekki þá aðstoð sem þau þyrftu. Uppi voru vanga­veltur hvort gott væri fyrir börn með ein­hverfu að vera inn í almennum bekk ef stuðn­ings­að­ilar hefðu ekki sér­staka menntun eða reynslu til að sinna þessum börn­um.

Fólk er búið að fá nóg, að mati Ellen­ar. Hún segir að fólk kvíði fram­tíð­inni. Öll upp­lýs­inga­gjöf sé af skornum skammti, bæði hvað umsókn­ar­ferli varðar sem og eft­ir­mála. „Allt er þetta rosa­lega óskýrt. Þú veist ekk­ert hvort eða hvenær þú eigir von á plássi.“

Hugmyndin um „skóla án aðgreiningar“ hljómar vel, að mati Ellenar, ef til staðar sé nægilegur stuðningur.
Pexels

Verður að vera val um úrræði

Ellen segir að hug­myndin um „skóla án aðgrein­ing­ar“ hljómi vel ef til staðar sé nægi­legur stuðn­ing­ur. „Við búum á litlu landi og það er bara ákveðið margt fag­fólk í þessu fagi, þroska­þjálfar og aðr­ir. Mér finnst per­sónu­lega að það væri skyn­sam­legra að sér­deildir væru til staðar með pott­þéttu fólki. Svo þetta væri ekki svona mikið lott­er­í.“

Bendir hún enn fremur á að hópur ein­hverfra sé mjög fjöl­breyttur – og þess vegna sé gott að geta valið á milli úrræða. „Það er flott að hafa alla þessa þrjá kosti: Sér­skóla, sér­deild eða stuðn­ing í bekk. En það verður að vera hægt að velja um þessa kosti. Ekki að öllum sé bara hent í eitt­hvað.“

Skóli án aðgreiningar

Með skóla án aðgreiningar er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að í skóla án aðgreiningar sé sérhverju barni mætt í námi og félagsstarfi óháð atgervi þess og stöðu. Fullgild og virk þátttaka allra barna og virðing fyrir réttindum þeirra sé leiðarljós reykvískra grunnskóla.

Að allir nemendur eigi kost á að sækja hverfisskóla sinn þar sem þeir fá kennslu við sitt hæfi. Þetta merki meðal annars að foreldrar barna með alvarlegar fatlanir geta valið um það hvort börn þeirra sæki hverfisskóla, sérskóla eða sérdeildir.

Fólki býðst að halda umsókn sinni virkri

Í svari Reykja­vík­ur­borgar við fyr­ir­spurn Kjarn­ans hvernig valið sé á milli umsókna segir að við inn­ritun í ein­hverfu­deild sé nem­endum for­gangs­raðað eftir hamlandi ein­kennum ein­hverfu og að tekið sé mið af inn­sendum gögnum frá for­eldrum með umsókn­inni, svo og vett­vangs­at­hugun fag­fólks.

Áréttað er í svar­inu að engri umsókn í ein­hverfu­deild hafi form­lega verið synjað en umsóknir fyrir næsta skólaár séu nú í vinnslu. Bent er á að vel á fimmta hund­rað börn á ein­hverfu­rófi séu í almennum bekkj­ar­deildum í grunn­skólum borg­ar­inn­ar.

„For­eldrar sem sótt hafa um inn­göngu fyrir börn sín í ein­hverfu­deild fengu til­kynn­ingu um fyr­ir­hug­aða synjun en hafa and­mæla­rétt til og með 3. maí næst­kom­andi og því er ekki enn búið að synja neinum form­lega né bjóða neinum pláss. Það verður gert eftir 3. maí. Öllum umsækj­endum býðst að halda umsókn sinni virkri þegar pláss í ein­hverfu­deild losnar en tekið er inn í þær árlega og eru nem­endur á öllum aldri. Þeir nem­endur sem fá synjun munu geta inn­rit­ast í almennan grunn­skóla og býðst þeim þar mik­ill stuðn­ing­ur. Ein­hverjir þess­ara nem­enda munu kom­ast í sér­deild síðar en ljóst er að synja þarf 30 af 38 umsækj­endum á næsta skóla­ári,“ segir í svar­inu.

Þá kemur jafn­framt fram að reynslan sýni að margir for­eldrar nem­enda sem ekki kom­ast inn í ein­hverfu­deild og fara í almennan skóla dragi umsókn sína síðar til baka því reynslan af almennum skóla komi þeim mjög á óvart og nem­endum líði yfir­leitt mjög vel í almennri bekkj­ar­deild.

Öllum umsækjendum býðst að halda umsókn sinni virkri þegar pláss í einhverfudeild losnar en tekið er inn í þær árlega og eru nemendur á öllum aldri, segir í svari Reykjavíkurborgar.
Birgir Þór

„Mis­skiln­ing­ur“ að ein­hverfu­deild sé fram­tíð­ar­úr­ræði

Full­trúar Reykja­vík­ur­borgar voru á fund­inum með Þroska­hjálp í vik­unni og segir í fyrr­nefndu svari að til­gangur fund­ar­ins hafi verið sam­tal við for­eldra um mál­efni ein­hverfra barna og fram­tíð þeirra í almennum skól­um. Í þeim sé unnið sam­kvæmt stefnu og alþjóða­sam­þykktum um menntun án aðgrein­ing­ar, og eins og komið hefur fram eru vel á fimmta hund­rað ein­hverf börn í grunn­skólum Reykja­vík­ur.

„Varð­andi met­fjölda umsókna í ein­hverfu­deild þetta haustið þá er margt sem kemur til, svo sem auknar grein­ingar og að hluta til mis­skiln­ingur um að ein­hverfu­deild sé fram­tíð­ar­úr­ræði, en mark­mið þeirra er að nem­endur þeirra fari í almennar bekkj­ar­deild­ir,“ segir í svari Reykja­vík­ur­borg­ar.

Stendur til að fjölga plássum í ein­hverfu­deild vegna þess­arar eft­ir­spurn­ar?

„Þessi mál eru í stöðugri skoðun og nú er unnið að stofnun ein­hverfu­deildar í Rétt­ar­holts­skóla.“

Auglýsing

Almennt skortur á sér­mennt­uðu starfs­fólki í skólum

Kjarn­inn hafði sam­band við Ein­hverfu­sam­tökin og spurði hvað virk­aði vel í skóla­kerf­inu fyrir ein­hverf börn, að þeirra mati, og hvað mætti betur fara.

Fram­kvæmda­stjóri Ein­hverfu­sam­tak­anna, Sig­rún Birg­is­dótt­ir, segir að svarið sé ekki ein­falt – það sé ein­stak­lings­bundið hvað virk­ar.

„Fyrir sum börn er nóg að fá stuðn­ing inn í bekk, þ.e. ef aðstæður þar eru góðar og bekk­ur­inn ekki of fjöl­menn­ur. Önnur börn þurfa sér­deild í sumum tímum en geta verið inni í bekk í öðr­um. Svo eru sum börn með miklar og flóknar stuðn­ings­þarfir og ná engan veg­inn að höndla dag­inn inni í almennum bekk,“ segir hún í skrif­legu svari til Kjarn­ans.

Bendir hún á að almennt sé skortur á sér­mennt­uðu starfs­fólki í skólum en þar er hún að tala um þroska­þjálfa, iðju­þjálfa og sér­kenn­ara. Æski­legt væri að einnig færi fram sjúkra­þjálfun, iðju­þjálfun og tal­þjálfun í skólum svo ekki þyrfti að sækja börnin og slíta sundur dag­inn til að fara í þessa tíma.

Mikil vinna sem þarf að fara fram í skólum ef þeir eiga að vera fyrir alla

Sig­rún segir að hér séu bekkir almennt of fjöl­menn­ir, stuðn­ingur of lít­ill og aðstæður þar sem eru opin rými og kennt í stórum hópum henti í raun ekki neinum börn­um. Bekkir þurfi að vera fámennir og hús­næðið hent­ugt, þ.e. líta verði til hljóð­vistar og lýs­ing­ar. Nauð­syn­legt sé að hafa afdrep eða her­bergi þangað sem börnin geta farið þegar áreitið inni í bekk er orðið of mik­ið.

„Það er mis­mun­andi eftir skólum hvernig aðbún­aður er. Ef skól­inn á að vera fyrir alla, án aðgrein­ing­ar, þá er ansi mikil vinna sem þarf að fara fram í flestum ef ekki öllum skól­u­m,“ segir hún að lokum í svari sínu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar