Orðræða ýmissa framsóknarmanna um Icesave, gegn Evrópusambandinu, um íslenska kúrinn, hrægammasjóði, heimilin í landinu og gegn innflytjendum, nú síðast múslimum, ber einkenni þess að Framsóknarflokkurinn sé orðinn þjóðernispopúlískur flokkur. Þetta kemur fram í fræðigrein Eiríks Bergmann, „Populism in Iceland: Has the Progressive Party turned populist?“ sem birtist í tímaritinu Stjórnmál og stjórnsýsla í dag. Eiríkur kemst að þeirri niðurstöðu að flokkurinn sé að minnsta kosti mjúk útgáfa af popúlískum flokki.
Popúlisminn ekki einfaldur
Eiríkur segir að þjóðernishyggja hafi lengi verið undirliggjandi í evrópskum stjórnmálum og popúlismi sé „náskyldur ættingi“ þjóðernishyggjunnar. Popúlismi sé hins vegar ekki einhver vel afmörkuð og rökrétt stefna og að minnsta kosti þrjár bylgjur popúlisma hafi riðið yfir á undanförnum 40 til 50 árum og alltaf í tengslum við kreppur eða miklar félagslegar breytingar. Þær hafi allar verið ólíkar rétt eins og flokkarnir sem hafa talist til popúlista.
Í greininni kemur fram að ekki er samhljómur um það í fræðunum hver skilgreiningin á popúlisma eigi að vera, en Eiríkur tekur fram tíu einkenni sem nútíma popúlískir stjórnmálaflokkar í Evrópu bera.
Þessir flokkar eru iðulega á móti innflytjendum og elítum. Þeir eru fullir efasemda um Evrópusamrunann, í þeim eru siðapredikarar sem aðhyllast verndunarstefnu í efnahagsmálum, tala fyrir lögum og reglu og eru á móti fjölmenningarþróun í Evrópu. Þeir vilji heldur höfða til tilfinninga en raka, geri greinarmun á „okkur“ og „hinum“ og treysti á sterka leiðtoga sem séu gæddir persónutöfrum og tali í einföldum lausnum á flóknum málum sem íþyngi almenningi. Hann segir að hægt sé að finna dæmi um öll þessi einkenni hjá Framsóknarflokknum undanfarin ár.
Breytti um stefnu mjög hratt eftir að Sigmundur tók við
Eiríkur segir að þrátt fyrir að þjóðernishyggja sé og hafi alltaf verið sterk á Íslandi hafi þjóðernispopúlískir flokkar ekki, svipaðir þeim sem hafi rutt sér til rúms annars staðar í Evrópu, ekki náð mikilli fótfestu fyrr en eftir hrunið. Það hafi verið í því umhverfi sem ný forysta komst til valda í gamla landbúnaðarflokknum.
Framsóknarflokkurinn hafi átt rætur sínar að rekja til landbúnaðarsamfélagsins og hafi alla tíð verið byggður á þjóðerniskennd. Flokkurinn hafi þó reynt að nútímavæðast fyrir hrunið og reynt að ná til kjósenda í þéttari byggðum landsins. Hann hefði alltaf verið efasemdarflokkur þegar kom að Evrópusambandinu en þetta hafi breyst og á árunum 2000 til 2004 hafi hann jafnvel verið í forystu þeirra flokka sem töluðu fyrir Evrópusambandsaðild.
Þegar Sigmundur Davíð hafi tekið við stjórnartaumunum eftir kreppu hafi hins vegar fljótt verið snúið aftur til stjórnmála fyrri tíma. Ný forysta flokksins hafi hoppað yfir frjálslyndu tímana og farið aftur í að samsama sig með þjóðernissinnuðum forverum eins og Jónasi Jónssyni frá Hriflu. Flokkurinn hafi fljótt breytt um stefnu og fært sig í popúlískari átt.
Hann sé þannig eitt mjög fárra dæma um hefðbundna flokka sem færi sig yfir í popúlismann. Hinir flokkarnir séu Þjóðarflokkurinn í Sviss og Frelsisflokkurinn í Austurríki. Eiríkur bendir einnig á að flokkurinn sé þá fyrsti popúlíski flokkurinn á Norðurlöndunum til að vera í forsvari ríkisstjórnar.
Orðræðan passar við öll einkenni popúlisma
Eiríkur rekur dæmi um orðræðu framsóknarmanna, ekki síst Sigmundar Davíðs, gegn ESB og gegn Icesave. Þá fjallar hann um ummæli framsóknarmanna um erlenda kröfuhafa, sem hafi kerfisbundið verið kallaði hrægammar, og um ummæli gegn innflytjendum, flóttamönnum og múslimum.
Eiríkur rekur einnig óánægju meðal framsóknarmanna sem sögðu sig úr flokknum vegna stefnubreytinga. Frjálslyndari meðlimir eins og Guðmundur Steingrímsson hafi farið úr flokknum, og þá hafi Sigmundur Davíð orðið óumdeildur og vel liðinn leiðtogi, sem sé eitt merkjanna um popúlisma. Gagnrýni frá öðrum um að flokkurinn væri að færast í popúlíska átt hafi verið mætt með því að segja það taktík vinstrisinnaðrar elítu og einelti.
Eiríkur fjallar einnig um sjálfsmynd þjóðarinnar, og það að þjóðerniskennd hafi alltaf verið rík hér á landi. Þetta litist af því að vilja vera sjálfstæð og fullvalda þjóð en á sama tíma vera viðurkennd sem jafningi annarra ríkja. Einn hluti sjálfsmyndarinnar togi Ísland frá öðrum ríkjum með því að leggja áherslu á hversu einstakir Íslendingar séu, en annar ýti á þátttöku í alþjóðahagkerfinu. Þetta valdi oft spennu, nú síðast í hruninu og eftir það.
Ennþá frekar þjóðernisflokkur en eingöngu popúlískur
Flokkurinn er þrátt fyrir allt ekki eingöngu popúlískur að mati Eiríks, heldur enn meiri þjóðernisflokkur en nokkuð annað. Samt sem áður segir hann ekki annað hægt en að flokka Framsóknarflokkinn með „að minnsta kosti“ mýkri útgáfum af popúlistaflokkum í Evrópu.