Fyrstu F-16 þoturnar, sem eru bandarískar, voru smíðaðar árið 1976 og þóttu á þeim tíma þær fullkomnustu sem völ var á. Danski herinn fékk árið 1978 sína fyrstu þotu af þessari gerð en á nú samtals 43 slíkar. F-16 þotur danska hersins, smíðaðar hjá Boeing, hafa reynst vel, eru í góðu lagi en þurfa mikið viðhald og tæknibúnaður þeirra ekki lengur í samræmi við ströngustu kröfur.
Umræður um endurnýjun
Umræður um endurnýjun flugflotans hófust í danska þinginu og innan danska hersins árið 2011. Þingmenn kölluðu fyrirhugaða endurnýjun „viðskipti aldarinnar“. Nokkrar nefndir unnu að undirbúningi kaupanna en þar var í mörg horn að líta. Vega og meta þurfti kosti og galla einstakra flugvélagerða, leggja mat á þarfir danska flugherins á komandi árum o.s.frv. Fjárfestingin er mikil, vélarnar þurfa að henta verkefnum sem flugherinn sinni og tryggja þarf að að varahlutir verði fáanlegir næstu áratugi, svo fátt eitt sé nefnt.
Þrjú meginverkefni
Verkefni danska flughersins skiptast í þrjá meginflokka:
- Eftirlit með danskri lofthelgi. Þessu sinna að jafnaði tvær vélar. Verkefnið er að fylgjast með umferð erlendra flugvéla, annarra en farþegavéla. Umferð erlendra flugvéla um danska lofthelgi, einkum rússneskra, hefur aukist til muna frá aldamótum. Danir hafa harðlega gagnrýnt Rússa fyrir að virða allar reglur að vettugi og árið 2015 munaði minnstu að farþegavél frá SAS og rússnesk flugvél (sögð njósnavél) rækjust saman yfir Eyrarsundi.
- Loftrýmiseftirlit á vegum Atlantshafsbandalagsins, NATO. Gæslan nær til Íslands og Eystrasaltslandanna þriggja en þessi lönd ráða ekki yfir flugher. Samningurinn um eftirlitið er frá árinu 2004 og síaukið hernaðarbrölt Rússa hefur orðið til þess að aukin nauðsyn er talin á slíku eftirliti.
- Alþjóðleg verkefni. Danmörk hefur skuldbundið sig til að taka þátt í alþjóðlegum verkefnum NATO og leggja þar til að minnsta kosti fjórar vélar, með fullri áhöfn og þeirri þjónustu, t.d flugvirkjum, sem slíkum verkefnum tilheyra. Danir hafa sömuleiðis tekið þátt í verkefnum einstakra NATO landa. Fyrstu verkefni af þessu tagi voru í Kosovu á tíunda áratug síðustu aldar. Danskar orrustuvélar tóku einnig þátt í árásum í Afganistan 2002-2003, í Líbíu árið 2011 og Írak á árunum 2014 og 2015.
F-35, F-18, Eurofighter Typhoon
Eftir að hafa kannað valkostina stóð valið milli þriggja véla: Nýju vélarinnar F- 35 Joint Strike Fighter frá Lockheed Martin, F 18 Super Hornet frá Boeing og Eurofighter Typhoon frá Airbus. Síðastnefnda vélin er framleidd í Evrópu, hinar tvær eru bandarískar. Danska varnarmálaráðuneytið, herinn og danska þingið, Folketinget, komust að lokum að þeirri niðurstöðu að F- 35 vélin frá Lockheed Martin væri besti kosturinn. Lokaákvörðun um flugvélakaupin lá fyrir í árslok 2016 og samningurinn við Lockheed Martin hljóðaði upp á 27 vélar af gerðinni F- 35. Fyrsta vélin skyldi afhent árið 2023 og allar 27 vélarnar yrðu komnar í hendur danska flughersins árið 2025. Þá verða liðin 14 ár frá því að umræður um endurnýjun orrustuþotna danska flughersins hófust.
Herinn vill selja þær gömlu
Eins og áður sagði á danski herinn 43 orrustuþotur af gerðinni F- 16. Ákveðið hefur verið að selja, í áföngum 24 þessara þotna og ráðgert er að á næsta ári verði seldar 8 þotur. Síðan verði 16 þotur til viðbótar seldar fram til ársins 2025 en þá eiga allar nýju vélarnar, 27 talsins að vera komnar í hendur danska hersins. Þótt gömlu F- 16 vélarnar hafi brátt runnið, eða flogið, sitt skeið hjá danska hernum eru þær síður en svo á leiðinni í brotajárn. Danski herinn ætlar að selja þær og samkvæmt mati hersins má fá fyrir þær umtalsvert fé, hundruð milljóna danskra króna. Casper Børge Nielsen talsmaður flughersins sagði í viðtali við danska sjónvarpið, DR, að margir vilji kaupa vélarnar sem séu í topplagi, eins og hann komst að orði, og „þær eigi mörg ár eftir“.
Ekki hver sem er fær að kaupa
Dani sem ætlar að selja gamlan bíl, notaða þvottvél og 10 ára gamla kaffikönnu lætur oft duga að smella inn auglýsingu í Den Blå Avis og áður en dagur er að kveldi kominn er hann laus við gamla dótið. Og er út af fyrir sig ekki mikið að velta fyrir sér hver kaupandinn sé, peningarnir eru aðalatriði málsins. Svona gengur það ekki fyrir sig þegar selja á gamla orrustuþotu. Þar skipta peningarnir vitaskuld miklu en meiru skiptir þó hver kaupandinn er. Og gegnum það nálarauga kemst ekki hver sem er. Þegar Danski flugherinn keypti F-16 þoturnar á sínum tíma fylgdu kaupunum ýmis skilyrði. Eitt þessara skilyrða var að bandaríska varnarmálaráðuneytið og framleiðandinn Lockheed Martin skuli samþykkja kaupandann. Þetta er gert til tryggja að þoturnar lendi ekki í höndum hryðjuverkasamtaka eða óvinveittra aðila, eins og það er orðað. Auk þess þurfa flokkarnir sem standa að danska varnarsamkomulaginu á þingi að leggja blessun sína yfir söluna.
Casper Børge Nielsen talsmaður flughersins sagði að sala þotnanna tæki langan tíma en það skipti engu ,,við höfum nægan tíma“.
Strangar öryggiskröfur og mikill kostnaður
Meginaðsetur danska flughersins er í Skydstrup á Suður-Jótlandi. Þýska hernámsliðið í Danmörku byggði flugvöllinn sem var tekinn í notkun árið 1943. Öll viðhaldsvinna flugflota danska hersins fer fram í Skydstrup og samstals starfa þar um eitt þúsund manns. Strangar öryggiskröfur gilda um alla starfsemina og á síðustu árum hafa þær kröfur orðið æ strangari. Nýtt risastórt flugskýli er í byggingu, kostnaður við það er fyrir löngu kominn langt fram úr áætlun. Því valda fyrst og fremst síauknar kröfur um öryggi.
Hávaði og skaðabætur
Þegar tilkynnt var um kaupin á nýju F- 35 vöknuðu grunsemdir hjá nágrönnum flugvallarins. Þeir töldu sig vita að nýju þoturnar væru mun háværari en þær gömlu og var hávaðinn þó, að þeirra mati, nægur fyrir. Forsvarsmenn flughersins fullyrtu að hávaðinn frá nýju þotunum yrði að ,,mestu leyti innan marka“ eins og það var orðað, og nánast sá sami og frá þeim gömlu. Síðar kom í ljós að þær fullyrðingar áttu ekki við rök að styðjast. Þetta olli miklum deilum. Danska þingið samþykkti fyrir tveimur árum að íbúum í 1600 húsum í nágrenni flugvallarins skyldu greiddar bætur vegna ónæðis frá herþotunum. „Hávaðadeilunni“ er þó langt í frá lokið og búast má við að málaferli vegna hennar standi í mörg ár.