Mynd: EPA Sýrlensk stúlka í flóttamannabúðum Sýrlendinga í Akkar í Líbanon, apríl 2021.
Mynd: EPA

Hinum Norðurlöndunum hefur tekist að bjóða kvótaflóttafólk velkomið í heimsfaraldrinum

Enginn kvótaflóttamaður kom til Íslands í fyrra og einungis 11 af þeim 100 sem átti að bjóða velkomin í fyrra samkvæmt ákvörðunum stjórnvalda eru komin. Von er á hópi sýrlenskra fjölskylda í septembermánuði og vonir standa til að afganskir flóttamenn komist til landsins í haust. Kjarninn kannaði hvernig hinum Norðurlöndunum hefur gengið að bjóða flóttafólk velkomið á tímum veiru.

Þrátt fyrir að heims­far­ald­ur­inn hafi óum­deil­an­lega sett strik í reikn­ing­inn varð­andi mót­töku kvótaflótta­manna hafa flest hin Norð­ur­löndin þegar náð að taka við góðum skerf af þeim kvótaflótta­mönnum sem ríkin ætl­uðu sér að taka á móti í fyrra og á þessu ári.

Ísland, á sama tíma, náði ekki að taka á móti neinum kvótaflótta­manni í fyrra, en til stóð og stendur enn að taka á móti alls 100 manns, sam­kvæmt ákvörð­unum stjórn­valda. Ell­efu manns komu til lands­ins undir lok júní úr þeim fimmtán manna hópi sem íslensk stjórn­völd buð­ust til að taka við úr Mori­a-flótta­manna­búð­unum á Les­bos í Grikk­landi, eftir að eldur braust þar út síð­asta haust.

Mót­taka ann­arra flótta­manna, Sýr­lend­inga sem eru staddir í Líbanon, flótta­fólki frá Keníu og af­gönsku flótta­fólki sem er stað­sett í Íran, hefur hins vegar ekki kom­ist til fram­kvæmda. Sam­kvæmt svörum sem Kjarn­inn fékk frá félags­mála­ráðu­neyt­inu munu við­töl og fræðsla fyrir hóp­inn sem er í Líbanon fara fram núna um miðjan mán­uð­inn og eru fjöl­skyld­urnar frá Sýr­landi vænt­an­legar til lands­ins fyrri hluta sept­em­ber­mán­að­ar.

Afganska flótta­fólkið hefur þegar farið í við­töl og fengið stutta fræðslu um hvað bíði þeirra á Íslandi og núna er unnið að því í sam­starfi við Flótta­manna­stofnun Sam­ein­uðu þjóð­anna að útvega nauð­syn­leg ferða­gögn. Vonir standa til að hóp­ur­inn komi til lands­ins á haust­mán­uðum en ferða­til­högun mun ekki liggja fyrir fyrr en búið er að ganga frá ferða­gögn­um.

„Varð­andi hóp­inn í Kenía hafa verið meiri tafir en und­ir­bún­ingur er haf­inn,“ sam­kvæmt svari frá félags­mála­ráðu­neyt­inu.

Stefnt að því að taka við 100 í ár til við­bótar við þau sem eru nú vænt­an­leg

Sam­kvæmt svörum frá félags­mála­ráðu­neyt­inu er það stefna rík­is­stjórn­ar­innar að taka á móti 100 kvótaflótta­mönnum árið 2021, til við­bótar við þá 100 sem stefnt var að því að taka á móti árið 2020.

„Vegna þeirra tafa sem hafa orðið á mót­töku hóps­ins sem átti að koma árið 2020 hefur und­ir­bún­ingur vegna nýs hóps taf­ist. Stefna stjórn­valda hefur ekk­ert breyst þó að ljóst sé að tafir séu á mót­töku árin 2020 og 2021,“ segir í svari ráðu­neyt­is­ins, en íslensk stjórn­völd hafa aldrei ætlað sér að taka á móti fleiri kvótaflótta­mönnum á einu ári og raunin er nú.

Kjarn­inn leit­aði til þeirra opin­beru aðila í Nor­egi, Dan­mörku og Finn­landi sem sjá um mót­ttóku kvótaflótta­fólks og spurð­ist fyrir um hversu margir ein­stak­lingar hefðu komið af þeim fjölda sem áætlað var að taka á móti í fyrra og það sem af er þessu ári og hvernig mót­t­töku­ferlið hefði geng­ið, á tímum heims­far­ald­urs. Hvað Sví­þjóð varðar var stuðst við upp­lýs­ingar í skýrslu frá flótta­manna­stofnun lands­ins, þar sem svör við þeim spurn­ingum sem á blaða­manni brunnu var að finna.

Svíar tóku við 3.599 af 5.000 í fyrra og ætla að bæta það upp í ár

Sví­þjóð hefur löngum tekið á móti fleiri kvótaflótta­mönnum en önnur ríki á Norð­ur­lönd­um. Í fyrra var stefnan sett á að taka á móti 5.000 manns til lands­ins, en ein­ungis náð­ist að taka á móti 3.599 manns af þeim kvóta.

Vand­kvæði vegna far­ald­urs­ins ollu trufl­unum í starfi bæði Flótta­manna­hjálpar Sam­ein­uðu þjóð­anna (UN­HCR) og Alþjóð­legu fólks­flutn­inga­stofn­un­ar­innar (IOM) og sænska flótta­manna­stofn­unin ákvað að flytja enga kvótaflótta­menn til lands­ins frá mars og fram í ágúst í fyrra, sam­kvæmt því sem segir í skýrslu sænsku flótta­manna­stofn­un­ar­innar um starf árs­ins 2020.

„Þar sem það verk­efni að koma fólki sem þarf vernd fyrir á nýjum stað er gríð­ar­lega mik­il­vægt hélt sænska flótta­manna­stofn­unin áfram með að flytja fólk til Sví­þjóðar um miðjan ágúst og út árið,“ segir í skýrslu sænsku stofn­un­ar­inn­ar.

Auglýsing

Þar kemur einnig fram að sökum þess að verr hafi gengið að taka á móti flótta­fólki en gert var ráð fyrir hafi sænska rík­is­stjórnin ákveðið að veita flótta­manna­stofn­un­inni tæki­færi til þess að fylla þau pláss sem ekki tókst að nýta í fyrra. Í ár ætla Svíar því að taka á móti 6.401 kvótaflótta­manni, í stað 5.000 eins og áður hafði verið stefnt að.

Dan­mörk tók við 31 kvótaflótta­manni í fyrra

Danir hafa á und­an­förnum árum, sam­fara öðrum breyt­ingum sem gerðar hafa verið á lögum um mál­efni fólks á flótta þar í landi, dregið veru­lega úr mót­töku kvótaflótta­manna og tóku raunar ekki á móti neinum slíkum á árunum 2018 né 2019 og ein­ungis fimm flótta­mönnum árið 2017, sam­kvæmt tölum frá UNHCR. Á árunum 2010-2016 tóku Danir á móti á milli 320 og 650 kvótaflótta­mönnum árlega.

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem Kjarn­inn fékk frá dönsku inn­flytj­enda­þjón­ust­unni, sem heyrir undir ráðu­neyti inn­flytj­enda­mála og aðlög­unar þar í landi, tók Dan­mörk á móti 31 kvótaflótta­manni í fyrra. Fólkið kom til lands­ins á kvóta sem ákvarð­aður var af dönskum stjórn­völdum árið 2019.

Kvóti árs­ins 2020 hjóð­aði upp síðan á 200 flótta­menn, sem allir munu koma frá Rúanda. Eng­inn þeirra er enn kom­inn, en búist er við að þeir komi síðar á þessu ári, sam­kvæmt svari dönsku stofn­un­ar­inn­ar.

Danir hættu að taka við kvótaflóttamönnum í ráðherratíð Inger Støjberg, sem fór með útlendingamál.
EPA

Þar segir einnig frá því að COVID-far­ald­ur­inn hafi sett strik í reikn­ing­inn í starfi bæði UNHCR og IOM í Rúanda. Danska inn­flytj­enda­þjón­ustan hafi vegna far­ald­urs­ins neyðst til þess að fresta nám­skeiðum um danskt sam­fé­lag sem haldin eru fyrir flótta­menn á erlendri grundu áður en fólkið er flutt til nýrra heim­kynna í Dan­mörku. Þar er boðin kennsla um danskt sam­fé­lag, venjur og hefðir og grund­vall­ar­rétt­indi borg­ara.

Rík­is­stjórnin er ekki búin að gefa út kvóta Dan­merkur fyrir árið 2021, en UNHCR hefur í skýrslum sínum hvatt Dani til þess að taka á móti fleiri kvótaflótta­mönnum en þeir gera nú.

Litlir hópar koma á nán­ast hverjum degi til Nor­egs

Far­ald­ur­inn hefur flækt mót­töku flótta­manna til Nor­egs mjög, sam­kvæmt svörum sem Kjarn­inn fékk frá norsku útlend­inga­stofn­un­inni. Flutn­ingur flótta­fólks hefur þannig taf­ist gríð­ar­lega, bæði vegna sótt­varna­ráð­staf­ana og reglu­gerða þeim tengdum og sökum þess að starfs­menn stofn­un­ar­innar hafa ekki getað ferð­ast og tekið við­töl við fólkið sem er á leið­inni til lands­ins.

„Við erum að fram­kvæma fjar­við­töl yfir Teams og Skype. Það er tíma­frekara og við náum að afgreiða mun færri mál en áður en far­ald­ur­inn hóf­st,“ segir í svari frá fjöl­miðla­full­trúa stofn­un­ar­innar til Kjarn­ans.

EPA

Þrátt fyrir þetta tók Nor­egur á móti 1.504 kvótaflótta­mönnum í fyrra, sam­kvæmt tölum frá UNHCR. Það sem af er ári er búið að sam­þykkja að taka á móti 1.573 flótta­mönnum og þann 4. ágúst höfðu 1.147 manns þegar komið til Nor­egs. Það eru „litlir hópar að koma á nán­ast hverjum ein­asta deg­i,“ sam­kvæmt svari frá útlend­inga­stofn­un­inni en margir þeirra sem komu nú eru í hópi þeirra sem sam­þykkt var að taka við í fyrra.

Norð­menn hafa frá árinu 2015 tekið á móti 2.200-3.150 flótta­mönnum árlega, nema í fyrra þegar fjöld­inn fór niður í 1.504, sem áður seg­ir.

Finnar náðu að taka við 661 af 850

Þrátt fyrir far­ald­ur­inn náðu Finnar að bjóða vel­komna hátt hlut­fall af þeim kvótaflótta­mönnum sem þeir höfðu ætlað sér að taka á móti, eða 661 af þeim 850 ein­stak­lingum sem rík­is­stjórn lands­ins ákvað að taka á móti.

Kvót­inn fyrir árið 2021 hefur verið hækk­aður og stefnt er að því að taka á móti 1.050 manns á þessu ári. Í lok júlí var búið að taka við 280 manns, en sam­kvæmt sér­fræð­ingi í inn­an­rík­is­ráðu­neyti Finn­lands sem veitti Kjarn­anum svar standa vonir til þess að kom­ast nærri mark­mið­inu um að taka á móti 1.050 kvótaflótta­menn vel­komna á haust­mán­uð­um.

Auglýsing

Ferða­tak­mark­anir og far­ald­urs­flækjur komu í veg fyrir að sendi­nefndir Finna kæmust utan til þess að taka við­töl við flótta­menn, en sam­kvæmt svörum inn­an­rík­is­ráðu­neyt­is­ins kom tæknin að miklu gagni við að halda mót­töku­ferl­inu gang­andi.

Í svar­inu frá Finn­landi segir jafn­framt að UNHCR hafi hvatt mót­töku­ríki til þess að nota fjar­við­töl með hjálp tölvu­tækn­innar og máls­skjöl til þess að meta þörf fólks og reynslan af þessu hafi verið jákvæð. Nán­ast hafi tek­ist að halda í áætl­anir rík­is­ins um mót­töku kvótaflótta­fólks.

„Að sjálf­sögðu kjósum við þó frekar venju­legar sendi­farir og viljum halda þeim áfram eins fljótt og mögu­legt er,“ segir í svar­inu frá finnska ráðu­neyt­inu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar