Kjarninn endurbirtir nú valda pistla Borgþórs Arngrímssonar sem samhliða eru gefnir út sem hlaðvarpsþættir. Fréttaskýringar Borgþórs njóta mikilla vinsælda og sú sem er endurbirt hér að neðan var upphaflega birt þann 23. maí 2021.
Ef Eiríki Fjalar hefði verið sagt að á hafsbotni í Kattegat lægi steinsteypt flykki, sem átti að vera heil hótelhæð, hefði hann líklega spurt hvort þetta væri ekki bara „skrökulygi“. Og hann væri líklega ekki einn um þá skoðun.
Danmörk er lítið land, aðeins um 40 þúsund ferkílómetrar. Lögun landsins veldur því hins vegar að strandlengjan er löng, rúmlega 7 þúsund kílómetrar. Til samanburðar má nefna að þótt Ísland sé miklu stærra (104 þúsund ferkílómetrar) er strandlengjan styttri en sú danska, rétt um 6 þúsund kílómetrar.
Á hafsbotninum úti fyrir ströndum Danmerkur leynist margt, kafarar kalla það gósenland. Fjöldi skipa liggur á hafsbotni á þessum svæðum, sum þeirra frá síðustu öld en önnur hafa legið á hafsbotni öldum saman. Vitað er hvar mörg þessara skipa liggja en önnur, einkum frá fyrri öldum, hefur ekki tekist að finna. Þegar köfurum tekst að finna eitthvað sérlega merkilegt komast fréttir af slíku ævinlega í fjölmiðla. Og þær berast enn þá af og til.
Printz Friderich
Haustið 2018 greindu danskir fjölmiðlar (og margir aðrir) frá merkum fornleifafundi. Þá hafði hópi kafara tekist að finna skipsflak, sem þeir höfðu leitað um árabil. Þessi merki fundur var danska herskipið Printz Friderich. Skipið strandaði á grynningum skammt frá eyjunni Læsø á Kattegat í lok september árið 1780. Um borð voru 667 menn, 7 létust en hinum 660 tókst að bjarga. Skipinu, sem var rúmlega 50 metra langt og búið 70 fallbyssum, varð hins vegar ekki bjargað og það sökk í hafið.
Hér má sjá myndband af flakinu og fundi þess frá kafarahópnum Undervandsgruppen.
Forsvarsmaður hópsins sem fann flakið sagði í viðtali að þeir hefðu kafað að minnsta kosti 200 sinnum áður en flakið fannst. „Við vissum að það væri einhvers staðar á þessum slóðum og vorum staðráðnir í að gefast ekki upp. Tæknin, og þolinmæðin, sáu til þess að við fundum skipið.“
Ekki bara skip
Eins og áður sagði hafa danskir frístunda- og atvinnukafarar árum saman vitað um skipsflök og margt annað sem leynist á hafsbotni undan ströndum Danmerkur. Margir þessara staða eru fastir viðkomustaðir sem allir kafarar þekkja og heimsækja reglulega. Einn þessara staða er skammt fyrir norðan Helsingjaborg í Svíþjóð. Þar er það ekki skipsflak sem liggur á hafsbotni heldur nokkuð sem kafarar kalla „hótelið. Þetta er stærðar steypuflykki, veggir með „dyraopum“ og „gluggaopum“. Er eiginlega eins og stærðar hæð í húsi, en vantar bæði gólf og loft. „Hótelið“ liggur á nokkurra metra dýpi um tvö hundruð metra frá strönd Svíþjóðar.
SAS hótelið
Fyrir áratugum komst sú saga á kreik að þetta sem þarna lægi á hafsbotni væri hvorki meira né minna en ein hæð sem hefði með réttu átt að fara í SAS hótelið við Vesterbrogade í Kaupmannahöfn.
SAS hótelið er af mörgum talin í hópi merkustu bygginga í Danmörku, og eitt af höfuðverkum Arne Jacobsen eins kunnasta arkitekts Dana.
Bygging hótelsins hófst árið 1956 og það var tekið í notkun árið 1960. Húsið er 70 metrar á hæð, hæðirnar eru 22. Arne Jacobsen teiknaði ekki bara húsið sjálft, hann teiknaði líka allar innréttingar, húsgögn, hnífapör, ljós o.s.frv. sérstaklega fyrir hótelið. Þar á meðal eru stólarnir Eggið og Svanurinn, sem Íslendingar þekkja vel og prýða í dag tug- eða hundruð þúsunda heimila og opinberra bygginga víða um heim. Eitt herbergi, númer 606, er enn eins og það var upphaflega en önnur herbergi hafa tekið ýmsum breytingum í áranna rás. Það er til marks um sess hótelsins í dönsku þjóðarsálinni að þegar neðsti hluti byggingarinnar var málaður fyrir nokkrum árum urðu talsverðar deilur um græna litinn. Hann væri, sögðu gagnrýnendur, ekki nákvæmlega eins og hann var áður og hafði verið frá upphafi. Ritari þessa pistils bjó á þessum tíma í Kaupmannahöfn og sá vart, eða ekki, muninn á nýja litnum og þeim gamla.
Hvernig gæti heil hótelhæð endað í Kattegat?
Nú má spyrja hvernig gæti staðið á því að hluti þess sem átti að vera SAS hótelið hafi endað í Kattegat. Samkvæmt sögunni um „hótelið“ voru hæðaeiningarnar steyptar á Norður-Jótlandi og dregnar á þar til gerðum flekum til Kaupmannahafnar. Einhverju sinni gerði slæmt veður og fyrir norðan Helsingjaeyri slitnaði flekinn frá dráttarskipinu, rak drjúgan spöl og sökk svo. Blaðamaður dagblaðsins Politiken ákvað að „kafa“ niður í þessa sögu og reyna að komast að sannleikanum. Blaðamaðurinn sagðist hafa fengið bréf frá manni sem sjálfur hafði verið kafari og hafði fyrir 25 árum heyrt söguna af „hótelinu“ og langaði að vita hvort hún væri sönn. Blaðamaðurinn hafði samband við klúbb kafara í Kaupmannahöfn. Þar kannaðist sá sem varð fyrir svörum ekki við söguna um „hótelið“ en benti blaðamanninum á tiltekna heimasíðu, vragguiden.dk, þar sem hann gæti leitað. Og viti menn, þar er sagt frá „hótelinu“ staðsetningunni lýst og þeir sem hafa keypt aðgang að síðunni geta skoðað myndir sem kafarar hafa tekið. Á vefsíðunni er hins vegar ekki að finna neinar ótvíræðar sannanir fyrir því að steypuklumpurinn á hafsbotni hafi átt að enda sem hæð í SAS hótelinu.
Blaðamaðurinn hafði samband við marga sem hann taldi að gætu kannast við söguna, og kannski staðfest hvort hún væri sönn. Flestum þótti sagan góð. Einn ráðlagði blaðamanninum að láta söguna njóta vafans, en hann vildi reyna að komast að sannleikanum. Sonur fyrsta hótelstjórans kannaðist ekki við söguna og taldi sig vita að burðarvirki hótelsins, og innveggir, hefðu verið steyptir á staðnum en ytra byrðið er fyrst og fremst gler og ál.
En svo heyrði blaðamaðurinn aðra sögu um „hótelið“.
Danspallur við sænskan veitingastað
Í grúski sínu við leitina að sannleikanum um „hótelið“ heyrði blaðamaður Politiken aðra sögu. Hún var á þá leið að „hótelið“ hefði verið undirstaða palls sem eigandi veitingastaðarins Parapeten við norðurhluta hafnarinnar í Helsingjaborg lét útbúa skömmu eftir 1950. Á pallinum hefðu verið haldnar skemmtanir en svo hefði eigandinn ákveðið að selja pallinn og þá hefði eigandi hótels við ströndina skammt fyrir norðan Helsingjaborg keypt hann. Áður en komið var á leiðarenda sökk pallurinn og situr þar enn. Skammt frá hóteli nýja eigandans sem var í Laröd.
Ekkert hótel við ströndina
Blaðamanninum þótti ofangreind saga ekki verri en hver önnur en fékk hana ekki til að ganga upp.
Hvernig sem leitað var fann blaðamaður Politiken engar upplýsingar um hótel á áðurnefndu svæði. Eini gististaðurinn á þessum slóðum á sjötta áratug síðustu aldar var farfuglaheimili, nokkra kílómetra inni í landi. Fremur ólíklegt að eigendur þess hefðu keypt fljótandi danspall taldi blaðamaðurinn. Einn viðmælenda taldi sig hafa lesið um nýtt aðsetur danspallsins í Helsingborg Dagblad en þá umfjöllun gat blaðamaðurinn ekki fundið, þrátt fyrir mikla leit.
Hvað er upp og niður í þessari sögu?
Blaðamaður Politiken endar umfjöllun sína á því að segja að sér hafi ekki tekist að upplýsa sannleikann um „hótelið“. Hann viti einfaldlega ekki hvort „hótelið“ hafi í raun átt að vera hluti SAS hótelsins í Kaupmannahöfn eða hvort það hafi verið danspallur við Helsingjaborg.
Blaðamaðurinn endar á því að biðja þá lesendur sem kunni að vita eitthvað um málið að hafa samband við sig.
Eiríkur Fjalar hefði líklega sogið upp í nefið eftir að hafa heyrt þessar tvær sögur og fullyrt að báðar væru „skrökulygi“.