Birkenstock er vörumerki sem mörgum er kunnugt. Þýskt gæðamerki. Inniskór. Klossar. Eða eru þeir kannski meira en það?
Til eru fjölmargar tegundir af Birkenstock-skóm. Ein þeirra, klossarnir „Boston“, hefur notið gríðarlegra vinsælda upp á síðkastið.
Almennt söluverð klossanna í dag er 160 dollarar, um það bil 23 þúsund krónur, það er að segja, ef þú finnur þá. Þökk sé samfélagsmiðlum eru klossarnir nánast ófáanlegir þar sem YouTube- og TikTok-stjörnur hafa gert klossana, sem eitt sinn þóttu með því hallærislegra sem fyrirfinnst, að því allra heitasta í dag.
Johann Adam Birkenstock stofnaði fyrirtækið árið 1774 í Neustadt í Þýskalandi og saga skóframleiðandans því nærri 250 ára gömul. Birkenstock vildi hanna skó með þægindin í fyrirrúmi, skó sem syðja við og lagast að útlínum fótanna. Skórnir voru svar við flötum sóla sem var nánast það eina sem fáanlegt var á þessum tíma. Árið 1896 kom Birkenstock-korksólinn á markað, sem er undirstaðan í öllum skóm framleiðandans, og á þriðja áratug 20. aldar voru Birkenstock-sandalar og -klossar fáanlegir um alla Evrópu.
Birkenstock eru fyrir löngu orðinn fasti í tískuheiminum en vinsældir þeirra hafa náð hæðum og lægðum líkt og gengur og gerist. Hönnuðir hafa gripið tækifærið þegar færi gefst og sem dæmi má nefna samstarf Birkenstock og Phoebe Philo fyrir Céline þar sem „Arizona“-sandalar Birkenstock eru fóðraðir með minkafeldi og þekktir undir nafninu „Furkenstock“.
Þrír möguleikar í stöðunni
Birkenstock-klossar af tegundinni „Boston“ eru til í nokkrum útgáfum en drapplitaðir, rúskinn og leður klossar eru uppseldir í vefverslun Birkenstock og aðeins örfá pör eru til í öðrum litum. Einungis þau sem eru afar smáfætt, eða stórfætt, gætu haft heppnina með sér.
Þrír möguleikar eru í stöðunni. Augljósasti möguleikinn er að bíða þolinmóð eftir að klossarnir komi aftur í sölu. Líflegar umræður hafa myndast á sérstökum Birkenstock-umræðuþræði á Reddit þar sem notendur eru iðnir við að láta vita þegar sérstakar týpur af klossunum eru aftur fáanlegir.
Annar möguleiki er að leita til annarra söluaðila en Birkenstock-verslana, en þar gengur einnig hratt á birgðirnar. Kristen Seninger, 24 ára, er ein fjölmargra sem hefur verið á höttunum eftir Birkenstock-klossum. Í lok ágúst hringdi hún oft á dag, fimm daga í röð, í skóbúðina Journeys í San Francisco, þar til henni tókst ætlunarverkið.
„Stelpurnar í búðinni voru farnar að þekkja mig. Þær hötuðu mig, en okkur tókst að tryggja vöruna í dag,“ sagði hún í myndskeiði sem hún birti á TikTok, himinlifandi með árangurinn. Seninger segir í samtali við New York Times, sem hefur gert ítarlega greiningu á vinsældum „Boston“, að starfsmaðurinn sem seldi henni klossana hafa verið spennt yfir því að hún hafi loksins náð pari.
@hauskris consistency is key!!! #birkenstocks #birkenstockboston #birkenstockscheck #journeys #shoes #psa ♬ original sound - Kristen
Svo er það þriðji möguleikinn, að leita að pari á uppsprengdu verði á sölusíðum á borð við eBay og Poshmark. Dæmi eru um að par hafi selst þar á tvöföldu smásöluverði, allt upp í 350 dollara, eða sem nemur rúmum 50 þúsund krónum.
50 þúsund krónur fyrir klossa
Sarah Cowie, endurskoðandi frá Michigan, greiddi 330 dollara fyrir sitt par. „Ég var svo sein í partýið að þeir voru uppseldir alls staðar,“ segir hún. Klossana sá hún hjá uppáhalds YouTube-stjörnunni sinni, Gretchen Geraghty, og gat varla hugsað um annað þar til hún eignaðist þá. En klossarnir eru umdeildir. „Sumum finnst þeir mjög sætir en aðrir kalla þetta kartöfluskóna,“ segir Cowie.
Cowie keypti klossana af Savanna Huml, sem var snemma í því í jólagjafainnkaupum þegar hún keypti fimm pör í sumar og ætlaði að gefa vinkonum sínum og systur. Þegar hún áttaði sig á vinsældum klossanna ákvað hún að láta slag standa og selja þá á sölusíðunni Poshmark.
Pörin hefur hún selt á allt að 350 dollara og hefur hún fengið ýmsar athugasemdir frá notendum þar sem hún hefur meðal annars verið sökuð um að verðleggja alltof hátt. Sumar athugasemdirnar eru það ljótar að Huml hefur tilkynnt þær til Poshmark sem áreitni. Huml bjóst við að ljótustu athugasemdirnar væru frá unglingsstelpum. „Þetta virðast vera mömmur, mæður sem eru að áreita mig á netinu af því að ég á par af Boston-klossum sem dætur þeirra girnast,“ segir Huml.
Vinsældir klossanna urðu ekki til á einni nóttu. Rúmt ár er síðan stjörnur eins og Kendall Jenner og Kaia Gerber (dóttir Cindy Crawford) skörtuðu klossunum. Þegar YouTube-stjörnur á borð við Emma Chamberlain fóru að dásama klossana var svo ekki aftur snúið.
Sala á „Boston“-klossunum hefur margfaldast að sögn fulltrúa Birkenstock, sem þó gat ekki gefið New York Times nákvæma sölutölu, annað en að söluaukninguna megi telja í tugum prósenta og að eftirspurn almennt hafi verið umfram framboð síðustu tíu ár.
Tíminn mun leiða í ljós hvort Birkenstock-klossarnir séu komnir til að vera. Það verður þó að teljast ólíklegt þar sem samfélagsmiðlar, og þá sérstaklega TikTok, eru vettvangur æðanna og spurningin ætti því frekar að vera: Hvaða æði kemur næst?