Bókstafur sem táknar stuðning við stríðsrekstur Rússa hefur breiðst út á ógnarhraða frá því að innrásin í Úkraínu hófst. Táknið er skýrt, auðþekkjanlegt og — það sem skiptir miklu máli að mati sumra sérfræðinga — er auðvelt að rita: Bókstafurinn Z.
„Z“ varð fyrst vart á herbílum og skriðdrekum rússneska hersins á landamærum Rússlands og Úkraínu dagana áður en innrásin hófst 24. febrúar. Síðan þá hefur „Z“ verið áberandi víða í Rússlandi, til að mynda á byggingum, fatnaði, auglýsingaskiltum og á hergögnum. Jafnvel börn hafa verið fengin til að mynda „Z“ með því að raða sér upp í lögun þess á skólalóðum. Stjórnmálaskýrendur segja það ekki fara milli mála að „Z“ varð að stuðningstákni við innrás Rússa í Úkraínu á ógnarhraða.
Hvaðan kemur „Z“ og hverjir eru að nota hana?
„Z“ hefur verið notað innan rússneska hersins um árabil og sumir sérfræðingar vilja meina að notkun þess sé stýrt af yfirvöldum.
Uppruni notkunar þess innan hersins er hins vegar á huldu en ásamt „Z“ hafa bókstafirnir O, X, A og V verið notaðir til að merkja rússneska skriðdreka og önnur hergögn. Stafirnir eru því notaðir til að aðgreina herdeildir en „Z“ merkir einfaldlega að herbílar og skriðdrekar sem bera það merki tilheyra eystri herdeild rússneska hersins. Bókstafirnir eru einnig notaðir til merkja hersveitir Rússa skilmerkilega og koma þannig í veg fyrir að herinn skjóti á eigin hersveitir, en hergögn Rússland og Úkraínu eru lík að mörgu leyti.
„Z“ tilheyrir latneska stafrófinu og er í raun ekki til í kýrillíska stafrófinu sem Rússar nota. Notkun á „z“ fyrir utan herinn þykir gefa vísbendingu um að rússnesk yfirvöld hafi hafið nokkurs konar herferð til að ýta undir stuðning Rússa við stríðið í Úkraínu.
Límdi „Z“ á keppnisbúninginn og „sér ekki eftir neinu“
Það virðist hafa gengið upp, að vissu marki að minnsta kosti. Rússneski fimleikamaðurinn Ivan Kuliak límdi til að mynda Z yfir fimleikabúning sinn við verðlaunaafhendingu á heimsbikarmóti í fimleikum í Katar fyrr í mánuðinum.
Rússneskum keppendum var bannað að bera rússneska fánann eða skjaldarmerki á keppnisbúningnum sínum og límdi Kuliak Z yfir þar sem fáninn hefði annars verið. Framtakið vakti athygli, ekki síst þar sem við hlið Kuliak stóð úkraínski keppandinn Illya Kovtun, gullverðlaunahafi í keppnisgreininni.
Við komuna heim til Rússlands sagðist hann ekki sjá eftir neinu. Kuliak, sem er tvítugur, sagði í samtali við ríkisrekna fjölmiðilinn Russia Today hafa tekið eftir stafnum hjá rússneska hernum og ákveðið að fletta upp merkingu þess, sem reyndist vera „fyrir sigur“ og „fyrir frið“. „Sem íþróttamaður mun ég alltaf berjast fyrir sigri og keppa í nafni friðar,“ segir Kuliak.
Uppátæki Kuliak mun þó hafa afleiðingar. Alþjóða fimleikasambandið (FIG) hefur falið siðanefnd sambandsins að hefja rannsókn á framkomu Kuliak sem sambandið telur vera átakanlega og hneykslanlega og á Kuliak yfir höfði sér langt keppnisbann.
Önnur birtingarmynd „Z“ sem vakið hefur mikla athygli og dreifst víða á samfélagsmiðlum er frá rússnesku borginni Kazan í vesturhluta Rússlands. Á myndinni sjást langveik börn sem dvelja á spítala þar í borg mynda „Z“ í stórum hóp. Forstöðumaður deildarinnar átti frumkvæði af uppátækinu.
Bera „Z“ saman við notkun hakakrossins
Hröð útbreiðsla „Z“ og pólitísk merking hefur vakið upp óhug meðal margra þar sem notkun táknsins svipar óþægilega mikið til notkun hakakrossins. Líkindin þykja svo mikil að merkin tvö, bókstafurinn Z og hakakrossinum, voru rituð á stein litlu hafmeyjunnar í Kaupmannahöfn um helgina með samasemmerkinu á milli. Þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem skemmdarverk eru unnin á litlu hafmeyjunni en lögreglan í Kaupmannahöfn rannsakar málið sem pólitískt skemmdarverk.
En á sama tíma og stuðningstáknið hefur náð mikilli útbreiðslu er andstaða við stríðsreksturinn til staðar. Niðurstöður könnunar sem framkvæmd var af sjálfstæðu rannsóknarfyrirtæki sýna að 58 prósent Rússa styðja innrásina í Úkraínu á meðan 23 prósent eru á móti henni.