Samkomulag stórveldanna við Íran um kjarnorkuáætlun þeirra er nú í sjónmáli eftir áratuga deilur. Hver er staða málsins, hverjar eru líkurnar á að samkomulagið komist í höfn og hver er bakgrunnur þessara deilna? - Myndin sem vesturlandabúar fá gjarnan af Íran er að þeir séu að vígbúast með kjarnorkuvopnum, m.a. til þess að geta að þurrkað Ísrael út af kortinu, en er það alveg svo?
Nú rétt fyrir páska var mikilsverðum áfanga náð þegar undirrituð var yfirlýsing um ramma nefnds samkomulags. Áætlanir Írana um nýtingu kjarnorku hafa lengi verið þyrnir í augum heimsbyggðarinnar. Hafa Bandaríkjamenn og Sameinuðu þjóðirnar m.a. beitt Íran viðskiptaþvingunum svo þeir falli frá áformum sínum.
Rétt er að hafa í huga að jafnframt því sem Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt stranga sáttmála um hvernig skuli staðið að þróun kjarnorku í heiminum, er einnig viðurkenndur óumdeilanlegur réttur hvers ríkis til að þróa og nýta kjarnorku í friðsamlegum tilgangi. En um hvað snýst samkomulagið, hvers vegna er þetta svona mikið mál, og af hverju eiga ríki heims, sér í lagi Bandaríkjamenn og Ísrael, erfitt með að horfa upp á Írana þróa kjarnorku?
Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Íran þegar samkomulagið var í höfn. Viðskiptaþvinganir hafa enda leikið landið og íbúa þess grátt.
Um kjarnorkuáætlun Írans
Hér verður ekki farið út í smáatriði en samkvæmt bandarískum stjórnvöldum er nýundirritað rammasamkomulag í megin dráttum þannig: Íranir skuldbinda sig til að skera niður búnað til auðgunar úrans um tvo þriðju; Þungavatnsverksmiðjum breytt þannig að þær geti ekki framleitt auðgað úran sem nota má í kjarnorkuvopn; Öll starfsemi sem snýr að kjarnorku í Íran mun verða undir eftirliti Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar; og þess í stað verður viðskiptaþvingunum á Íran aflétt í áföngum.
Utanríkisráðherra Íran dró að einhverju leyti úr ofangreindu og sagði ekki allskostar rétt farið með. Hann sagði einnig ekki vera þörf á að leggja of nákvæmlega út frá núverandi rammasamkomulagi eins og málin stæðu – menn væru ánægðir með niðurstöðuna nú og það skipti mestu máli. Samkvæmt þessu er því of snemmt að fullyrða nokkuð um hvor endanlegt samkomulag muni nást. Þó virðist gæta mikillar bjartsýni ef marka má yfirlýsingar Forseta Bandaríkjanna, Barack Obama, sem hafði forgöngu um samkomulagið, sem og almenn viðbrögð í Íran. Engan skyldi undra að stjórnvöld í Ísrael finna samkomulaginu allt til foráttu og segja það færa Íran nær því að koma sér upp kjarnavopnum.
Harðlínuöfl í Íran hafa auk þess gagnrýnt samkomulagið og sagt það vera til marks um undirlægjuhátt gagnvart vestrænum ríkjum. Bæði Obama og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, leggja þó áherslu á að samkomulagið byggi á gríðarlegri vinnu og trúverðugu framlagi allra aðila, ekki einhverri óskhyggju. Kerry segir að það væri ábyrgðarlaust af þingmönnum á Bandaríkjaþingi að láta pólitíska stundarhagsmuni skyggja á staðreyndir og trufla langtíma hagsmuni.
Á það ber að líta að Íranir eru engir nýgræðingar í þróun kjarnorku, en hún hófst um miðjan sjöunda áratuginn, með fulltingi Bandaríkjamanna—og voru þeir komnir vel á veg þegar byltingin var gerð árið 1979.
Mikilvægur þáttur sem gott er að hafa í huga þegar fjallað er um kjarnorkumál er það sem kallað hefur verið „nuclear exeptionalism“ upp á ensku. Það má útleggja þannig að kjarnorka og allt sem henni tengist njóti svo mikillar sérstöðu - sé svo óvenjulegt og mikilfenglegt - að um hana verði að gilda önnur lögmál og forsendur en hefðbundnari hluti og tækni. Á einhvern hátt er því hægt að halda kjarnorku utan þess sem venjulega er rætt, fyrirbærið verður dularfullt, óljóst og óútskýranlegt—sem gerir erfitt fyrir með að henda reiður á hvað er rétt og rangt eða viðeigandi. Þetta á bæði við um orðræðu innan viðkomandi ríkja sem og á alþjóðavettvangi.
Auðvelt er því fyrir þá sem nú ráða yfir kjarnavopnum að nota slíkar hugmyndir eða skýringar - og sérstöðu kjarnorkunnar - sem áróðurstæki, m.a. til að koma í veg fyrir að „óæskileg“ ríki komist yfir tæknina, eins og sýndi sig berlega í aðdraganda innrásar Bandaríkjamanna í Írak. Þá tókst Bush stjórninni að telja umheiminum trú um að mikil hætta stafaði af Írak, m.a. af því að þeir hefðu jú keypt einhver reiðinnar bísn af úran frá Afríku! - Athugið orðalagið, Afríka er heilt meginland, en kannski bara nógu myrk og óljós til að þjóna tilgangi sínum sem ímynd illra afla í heiminum— meira þurfti í raun ekki til, tilgangnum var náð.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hafði forgöngu um samkomulagið við Írani. Hann á hins vegar enn eftir að koma því í gegnum bandaríska þingið, þar sem Repúblíkanar eru með meirihluta í báðum deildum. Það gæti orðið einmannaleg vegferð fyrir forsetann.
Mið-austurlönd - Ísrael
Hluti af deilunni við Íran snýst um þá ógn sem sem tiltekin ríki, sér í lagi Ísrael og Sádi-Arabía - og þar með Bandaríkjamenn - hafa af mögulegum yfirburðum Íran í Mið-austurlöndum. Það þarf ekki að fjölyrða um það flókna ástand sem þar ríkir, en myndin sem við fáum hér á vesturlöndum er oft talsvert einvíð og hlutdræg. Ef við förum þá leið að ganga út frá trú og fylgjendum tiltekinna trúarbragða sem einhverskonar reglu um tengsl óvina og vina, lendum við fljótlega í ógöngum.
Hvernig eigum við að fá botn í málin þegar Íranir, sem eru shía-múslimar, styðja Hamas á Gaza sem eru súnni-múslimar? Síðan styðja þeir einnig baráttu Íraskra Shia-múslima með þarlendum súnni-flokki gegn ISIS, með fulltingi Bandaríkjamanna. – Hverjir eru þá vinir hvers? – það er augljóst að svona viðmið eru nánast gagnslaus vilji maður skilja ástandið.
Það sem ræður gjarnan, þegar betur er skoðað, eru viðskiptahagsmunir sem byggja á ýmsum þáttum eins og góðum samgöngum, snurðulausri orku-öflun og viðskiptum milli ríkja. Rannsóknir hafa m.a. leitt í ljós að Íranir hafa fremur látið þessa efnahagslegu þætti ráða í samskiptum við nágrannaríki, en hvort þar fari trúbræður þeirra við völd.
Á sama hátt gæti verið varasamt að hlusta á þá sem hæst láta um hættuna af samningum við Íran því það eru gjarnan öfl sem hagnast á spennuástandi. Þeir sem vilja halda völdum, t.a.m. Ísraelsk stjórnvöld, er talsverður hagur í að til sé óvinur eins og Íran og vilja því magna upp hættuna af kjarnorkuáætlunum þeirra. Þetta á sérstaklega við um Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísaels, sem hefur til fjölda ára varað við því að Íranir séu um það bil að verða tilbúnir með kjarnorkuvopn.
Hassan Rowhani, forseti Íran, segir að samkomulagið um kjarnorkuvinnslu Írana sé nýr kafli í alþjóðasamskiptum landsins. Nú sé runnið upp tímabil virðingar og samvinnu við umheiminn.
Íran – yfirlýsingar, utanríkisstefna og samskipti við Bandaríkin
Þegar grannt er skoðað hafa Bandaríkjamenn ekki lagt fram nein haldbær rök um hvers vegna Íranir megi ekki halda áfram að þróa kjarnorku önnur en þau að það gæti haft hræðilegar afleiðingar. Þó hefur verið nefnt að þar sem landið búi yfir svo miklum auðlindum af jarðefnaeldsneyti þurfi það ekki á kjarnorkunni að halda. Á móti hafa Íranir svarað að ríki eins og Rússland og Bretland búi yfir kjarnorku en séu jafnframt auðug af jarðefnaeldsneyti.
En eru Íranir ekki herskáir múslimar sem stefna að yfirráðum í Mið-austurlöndum og er tilbúnir til að beita til þess þeim meðölum sem til þarf? - Skemmst er að minnast háværra yfirlýsinga fyrrverandi forseta Íran, Mahmoud Ahmadinejad, um Ísrael, en síendurteknar beinlínis rangtúlkanir á orðum hans, gáfu til kynna að Íranir stefndu að því að þurrka Ísrael út af landakortinu — líkast til með kjarnorkusprengju, eða hvernig þurrkar maður annars lönd út?
Auk þess að vera beinlínis ósönn voru harkaleg ummæli Ahmadinejads langt í frá að endurspegla utanríkisstefnu Írans á þessum tíma. Það er einnig alþekkt í alþjóðasamskiptum að harðorðar yfirlýsingar er gjarnan ætlað að höfða til ákveðinna stuðningshópa innanlands, og þurfa ekki að vera í samræmi við raunverulega stefnu viðkomandi ríkis.
Það er þó full ástæða fyrir ríki heims að hafa varann á sér og kannski bjartsýni að ætla að ekki geti stafað nein ógn frá Íran. Ayatollah Ali Khamenei, sem fer fyrir hinum trúarlega armi stjórnvalda, hefur haft í frammi mjög hörð ummæli um Ísrael, sem túlka má ógnandi. Stjórnarhættir Íran eru einnig langt í frá að vera til fyrirmyndar og þar eru fjölmörg dæmi um mannréttindabrot. Ýmislegt bendir þó til þess að Íranir vilji leggja sitt af mörkum til að koma á stöðugleika á svæðinu, þ.e. séu ekki endilega tilbúnir til þess að hleypa öllu í bál og brand með einleik, eins og td. að koma sér upp kjarnavopnum í óþökk annarra ríkja. Jafnframt er rétt að hafa í huga að Íran hefur aldrei í nútímasögu sinni staðið fyrir árás á grannríki sín. Hefur Íran þar frekar verið fórnarlamb, samanber árás Írak á Íran á níunda áratugnum.
Þó það hljómi ótrúlega hafa Íranir sýnt umtalsverðan sáttavilja í gegnum árin, sér í lagi áður en hinn herskái Ahmadinejad konmst til valda árið 2005, á meðan Bandarísk stjórnvöld virtust skella við skollaeyrum. Til eru opinber gögn um að háttsettur embættismaður Íransstjórnar hafi boðið fram 500 milljón dollara framlag Írans í sjóð til endurbyggingar í Afganistan, eftir innrásina 2002—sem Íranir hafa að mestu staðið við. Því boði svöruðu Bandaríkjamenn með því að skilgreina Íran, ásamt Írak og N-Kóreu, sem hluta öxulveldis hins illa. Að sama skapi buðu Íranir Bandaríkjamönnum aðstoð við þjálfa hinn nýja Afganska her, og hafa einnig lagt sitt af mörkum í baráttunni við öfgasinnuð öfl eins og ISIS.
Samkomulag við Íran snýst um talsvert meira en bara hvort þeir geti búið til sprengju. Þó það henti einhverjum að halda Íran niðri og útmála það sem óvin - öxulveldi hins illa - er einnig mikið í húfi að þar geti þróast eðlilegt samfélag. Færa má fyrir því rök að með aðgerðum sem byggja á viðskiptaþvingunum sé einungis verið að bera efni í bálköst harðlínumanna innan Íran og gefa öfgafullum öflum aukið vægi.
Með tilslökunum sem lúta að því að styrkja lýðræðisöfl í Íran væru meiri líkur á því að til valda kæmust hófsamari stjórnvöld sem tryggðu betra jafnvægi á svæðinu. Á það hefur verið bent að bandaríkjamenn eigi í raun mun meiri samleið með hinum persnesku Írönum en bandamönnum sínum í Saudi Arabíu, hvað sem líður harðlínuöflum klerkastjórnarinnar sem nú fer með völd. Hér er því haldið fram að bandarísk stjórnvöld séu jafnvel farin að átta sig á því að Íran hefur þrátt fyrir allt verið með stöðugri aðilum í Mið-austurlöndum, sem jafnvel er hægt að stóla á til að bregðast við öfgaöflum og viðhalda stöðugleika. Verstu öfgaöfl Íslamista í Mið-austurlöndum eiga auk þess mun frekar rætur í Wahabisma Sádí-Arabíu, ef út í það er farið.