Ísland lætur af formennsku í Norðurskautsráðinu

Sjálfbær þróun og umhverfismál eru grundvallarstef norðurslóðasamvinnu en mega þessi mjúku mál sín einhvers þegar Rússar eru að efla hernaðarlega uppbyggingu og Bandaríkjamenn bregðast við með aukinni viðveru, m.a. á Íslandi?

Frá fundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi árið 2019 þegar Ísland tók við formennsku í ráðinu. Rússar taka við keflinu á fundi ráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí.
Frá fundi Norðurskautsráðsins í Rovaniemi í Finnlandi árið 2019 þegar Ísland tók við formennsku í ráðinu. Rússar taka við keflinu á fundi ráðsins sem fram fer í Reykjavík í maí.
Auglýsing

Nú er að ljúka tveggja ára for­mennsku Íslands í Norð­ur­skauts­ráð­inu en Rússar munu taka við kefl­inu á ráð­herra­fundi sem hald­inn verður í Reykja­vík nú í vik­unni, dag­ana 19. og 20. maí. Far­ald­ur­inn hefur sett mark sitt á for­mennsku­tíð Íslands en þó hefur tek­ist að halda sam­starf­inu gang­andi með hjálp tækn­inn­ar.

Sam­vinna á norð­ur­slóðum – Norð­ur­skauts­ráðið

Sam­vinna á norð­ur­slóðum hefur við­geng­ist síðan í kalda stríð­inu en árið 1973 und­ir­rit­uðu Sov­ét­rík­in, Kana­da, Dan­mörk, Nor­egur og Banda­ríkin Hvíta­bjarn­ar­samn­ing­inn sem bann­aði notkun á þyrlum við veiðar á hvíta­björn­um. Segja má að þar hafi grunn­ur­inn að Norð­ur­skauts­ráð­inu verið lagður með sam­starfi vest­rænna ríkja og Sov­ét­ríkj­anna, síðar Rúss­lands.

Árið 1982 leiddu Banda­ríkin og Sov­ét­ríkin samn­inga­við­ræður um haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­ein­uðu þjóð­anna sem inni­heldur ákvæði sem hafa bein áhrif á norð­ur­slóð­ir, þar á meðal meng­un­ar­varnir á haf­svæðum undir ís og grein um land­grunns­rétt­indi sem teygja sig meira en 200 sjó­mílur frá strand­línu. Norð­ur­slóða­sam­starf jókst eftir því sem dró að lokum kalda stríðs­ins og árið 1987 hvatti Mik­haíl Gor­batsjev þáver­andi Sov­ét­leið­togi til upp­bygg­ingar stofn­ana til efl­ingar umhverf­is­verndar á svæð­inu. Það leiddi til að lokum til stofn­unar Norð­ur­skauts­ráðs­ins árið 1996. Þar eiga fast sæti átta ríki: Banda­rík­in, Kon­ungs­ríkið Dan­mörk með Græn­land og Fær­eyjar inn­an­borðs, Finn­land, Ísland, Kana­da, Nor­eg­ur, Rúss­land og Sví­þjóð.

Auglýsing

For­mennska Íslands

Málefni norð­urslóða snerta nær alla þætti ís­lensks sam­félags. Fá ríki hafa því jafn mikla hags­muni af hag­felldri þróun á svæð­inu og Ísland, enda telst landið allt og stór hluti efna­hagslögsög­unnar liggja innan hefð­bund­inna marka norð­ur­slóða. Í stefnu­miðum Íslands vegna for­mennsku­hlut­verks­ins hefur því verið leit­ast við að styrkja starf­semi Norð­ur­skauts­ráðs­ins enn frekar, jafnt inn á við sem út á við.

Í starfsáætlun ráðs­ins fyrir for­mennsku­tíð Íslands eru talin upp hátt í hund­rað verk­efni sem ýmist hafa verið á dag­skrá ráðs­ins eða ný sem kynnt hafa verið til sög­unn­ar. Sjálf­bær þróun er grund­vall­ar­stef norð­ur­slóða­sam­vinnu og með það að leið­ar­ljósi hefur ís­lenska for­mennskan beint kast­ljós­inu sér­stak­lega að þremur áherslu­svið­um: málefnum hafs­ins, lofts­lags­málum og end­ur­nýj­an­legri orku, og fólk­inu á norð­urslóðum – þar sem jafn­rétt­is­mál eru veiga­mik­ill þátt­ur.

Sam­kvæmt Utan­rík­is­ráðu­neyt­inu hefur almennt gengið vel að vinna að fram­gangi þeirra stefnu­mála sem lagt var upp með í for­mennsku­tíð Íslands. Áður en hún var hálfnuð setti COVID-19 heims­far­ald­ur­inn strik í reikn­ing­inn en í flestum til­fellum reynd­ist unnt að halda áfram vinnu við verk­efni ráðs­ins og ljúka þeim á til­settum tíma. Svo dæmi séu nefnd leiddi Ísland verk­efni um kynja­jafn­rétti á norð­ur­slóðum og um mögu­leika í bláa líf­hag­kerf­inu, sem bæði eru á áætlun og verða loka­skýrslur þeirra lagðar fyrir kom­andi ráð­herra­fund.

Fundir emb­ætt­is­manna­nefndar Norð­ur­skauts­ráðs­ins, vinnu­hópa og und­ir­nefnda voru færðir á fjar­funda­form, sem og ýmsar ráð­stefnur og við­burð­ir. Ísland efndi t.d. til alþjóð­legrar vís­inda­ráð­stefnu um plast­mengun í norð­ur­höfum og gekkst einnig fyrir veffunda­röð um mál­efni hafs­ins sl. haust. Jafn­framt var staðið fyrir veffunda­röð um um þan­þol á norð­ur­slóðum (Arctic Res­ili­ence For­um) í sam­starfi við Harvard Kenn­edy School, en upp­haf­lega hafði staðið til að þessir við­burðir færu fram á Akur­eyri og Egils­stöðum í tengslum við fundi ráðs­ins.

Þess ber að geta að aðkoma Íslands að norð­ur­slóða­málum er langt í frá bundin við for­mennsk­una s.l. tvö ár og hafa þessi mál fengið tals­vert rými á und­an­förnum árum. Nú liggja fyrir Alþingi til­lögur nefndar sem utan­rík­is­ráð­herra Guð­laugur Þór Þórð­ars­son skip­aði til að end­ur­skoða norð­ur­slóða­stefnu Íslands, en núgild­andi stefna var sam­þykkt á Alþingi árið 2011. Einnig má nefna tvær skýrslur sem komu út í lið­inni viku, önnur um stöðu kynja­jafn­réttis á norð­ur­slóðum og hin um efna­hag­s­tæki­færi. Að ógleymdum stuðn­ingi stjórn­valda við að koma fót stofnun Ólafs Ragn­ars Grím­sonar um mál­efni norð­ur­slóða.

Her­væð­ing en ekki vopn­væð­ing – Sam­ráðs­vett­vangur mik­il­vægur

Þegar norð­ur­slóðir eru ann­ars vegar eru Rússar óhjá­kvæmi­lega fyr­ir­ferð­ar­miklir því þeir eiga mik­illa hags­muna að gæta. Aukin spenna hefur verið að fær­ast í sam­skipti Vest­ur­landa og Rússa og norð­ur­slóðir því dreg­ist inn í umræður um mögu­leg átaka­svæði. Því mætti spyrja hvort eitt­hvað gagn sé af tali um sjálf­bæra þróun og jafn­rétti þegar Rússar eru að auka hern­að­ar­lega upp­bygg­ingu á svæð­inu – og Banda­ríkja­menn að bregð­ast við – er ekki nýtt kalt stríð í upp­sigl­ingu þar sem víg­línan liggur um norð­ur­slóð­ir?

Mich­ael Byers fræði­maður sem hefur fjallað um mál­efni norð­ur­slóða um ára­bil segir marga frétta­skýrendur hafa varað við því að aukin sam­keppni á svæð­inu, m.a. um auð­lind­ir, geti leitt til nýs kalds stríðs. Þróun á norð­ur­slóðum með end­ur­nýjun her­stöðva, skipa og flug­véla sem komnar eru til ára sinna séu nefnd til vitnis um vopn­væð­ingu og illan ásetn­ing.

Hann áréttar hins vegar að slíkur mál­flutn­ingur sé helst ætl­aður til að ná athygli les­enda, með fleiri smell­um. Fólk sem ekki hefur sér­fræði­þekk­ingu, þar á meðal stjórn­mála­menn, bæði í vest­rænum ríkjum sem og í Rúss­landi, lesi þessar fregnir og líti þ.a.l. á aðgerðir and­stæð­inga með auk­inni tor­tryggni. Hættan á örygg­is­klemmu á norð­ur­slóðum sé því raun­veru­leg – þar sem rangar upp­lýs­ingar leiða til mis­skiln­ings og hugs­an­lega til rangra við­bragða sem síðan geta stig­magn­ast.

Byers segir mik­il­vægt að gera grein­ar­mun á her­væð­ingu og vopn­væð­ingu á norð­ur­slóð­um. Sú hern­að­ar­lega upp­bygg­ing sem þar eigi sér stað, m.a. af hálfu Rússa, snúi að mestu að því að tryggja öryggi á svæð­inu þar sem umsvif og umferð vegna sigl­inga eykst jafnt og þétt. Svæði sem til­heyra norð­ur­slóðum séu og verði vissu­lega vett­vangur flutn­ings á her­bún­aði, m.a. með kaf­bátum og skip­um, en svæðið sjálft þyrfti ekki að verða vett­vangur beinna átaka.

Hann setur norð­ur­slóðir í sam­hengi við geim­inn á áhuga­verðan hátt þar sem ákveðnar hlið­stæður eru fyrir hendi. Norð­ur­slóðir eru gríð­ar­lega víð­áttu­miklar, stór svæði tor­fær og hættu­leg vegna haf­íss og erf­iðra veð­ur­skil­yrða. Í því sam­hengi er vert að rifja upp ummæli yfir­manns kanadíska flot­ans þegar hann var spurður um hvernig hann myndi bregð­ast við inn­rás­ar­her sem kæmi um Íshaf­ið: „Ég myndi byrja á að fara og bjarga þeim.“

Nán­ast engar deilur um land­svæði – ríkin sjá hag af sam­starfi

Almennt gera ríkin sér því grein fyrir því að ekk­ert þeirra sé nógu öfl­ugt til að standa á eigin fótum gagn­vart áskor­unum norð­ur­slóða. Mik­il­vægt er einnig að hafa í huga að það eru nán­ast engar deilur um haf- eða land­svæði ef frá er tal­inn lít­ill hólmi í haf­inu miðja vegu milli Kanada og Græn­lands. Og einu mörk yfir­ráða á haf­svæðum sem deilt er um eru á milli NATO-landa, þ.e. Kanada og Banda­ríkj­anna, og Kanada og Dan­merk­ur. Það er því ekk­ert útlit fyrir að neitt norð­ur­skauts­ríkj­anna muni krefj­ast mik­ils meira og þaðan af síður fara að berj­ast um það.

Um svæðið gilda nú þegar skýr alþjóða­lög sem ríki leggja sig fram við að fara eftir og sjá sér hag í. Rann­sóknir fræði­manna í alþjóða­sam­skiptum sýna fram á að sam­starf eins og hefur þró­ast á vett­vangi Norð­ur­skauts­ráðs­ins getur blómstrað þrátt fyrir nún­ing og árekstra á öðrum svið­um. Þannig hefur sam­starf sem t.d. teng­ist umhverf­is­málum og samn­ingum um leit og björgun skapað það sem kall­ast gagn­hæði þar sem ríkin sjá sér aug­ljósan hag af nánu og tryggu sam­starfi.

Hér er rétt að und­ir­strika að einmitt hið hefð­bundna lagaum­hverfi alþjóða­sam­skipta, eins og t.d. end­ur­spegl­ast í Haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­ein­uðu þjóð­anna, er lyk­il­þáttur í frið­sam­legum sam­skiptum Norð­ur­skauts­ríkj­anna, en setur einnig ramma um aðgengi og aðkomu ríkja utan svæð­is­ins, eins og Kína, þannig að virð­ing fyrir alþjóða­lögum er þeim ríkjum einnig í hag.

Sam­starf sem skapar stöð­ug­leika

Hið víð­tæka sam­starf í Norð­ur­skauts­ráð­inu virð­ist hafa sinn gang þrátt fyrir að hrikti í á öðrum víg­stöðv­um, t.d. vegna inn­limunar Rússa á Krím­skaga. Það kemur einmitt fram í svörum utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins að norð­ur­skauts­ríkin átta eigi almennt mjög gott sam­starf innan ráðs­ins. Þeim hafi tek­ist að vinna saman með upp­byggi­legum hætti að mál­efnum norð­ur­slóða þrátt fyrir ágrein­ings­efni sem upp hafa komið á vett­vangi alþjóða­mála.

Þrátt fyrir að hern­að­ar­mál séu sam­kvæmt stofnsátt­mála Norð­ur­skauts­ráðs­ins bein­línis und­an­skilin á þeim vett­vangi virð­ist sam­starfið geta haft jákvæð áhrif á hin hörðu örygg­is­mál. Hefur það skapað tæki­færi til opinna sam­skipta og má nefna fund Blin­kens og Lavrovs sem hitt­ast í Reykja­vík á fundi Norð­ur­skauts­ráðs­ins til marks um þetta. Nú þegar ríki heims taka umhverf­is­mál og ógnir vegna lofts­lags­breyt­inga alvar­legar verður Norð­ur­skauts­ráðið því mik­il­væg­ari vett­vangur stjórn­unar á norð­ur­slóðum og á sinn þátt í að auka stöð­ug­leika í alþjóða­mál­um.

Sendi­herra rúss­neska utan­rík­is­ráðu­neyt­is­ins og full­trúi Rúss­lands í emb­ætt­is­manna­nefnd Norð­ur­skauts­ráðs­ins, Niko­lai Korchu­nov, tekur í sama streng. Hann segir ekki mega van­meta hætt­una á víg­bún­að­ar­kapp­hlaupi og Rússar séu því hlynntir fjöl­þjóð­legum við­ræðum um öryggi á norð­ur­slóðum og reiðu­búnir til sam­skipta á hern­að­ar­legum grunni til að draga úr spennu. Korchu­nov telur mega færa anda upp­byggi­legs sam­starfs sem birst hefur í Norð­ur­skauts­ráð­inu yfir á hið hern­að­ar­lega svið.

Fram­tíð­ar­horfur á Norð­ur­slóðum – Ganga Rússar í takt?

Norð­ur­slóðir þurfa því ekki að verða vett­vangur vopn­aðra átaka þrátt fyrir hern­að­ar­lega upp­bygg­ingu og aukna spennu í sam­skiptum Rússa og Vest­ur­landa. Hættan stafar ekki af sam­keppni eða ásælni í auð­lindir sem leitt gæti til átaka heldur mögu­legs skorts á sam­skiptum og sam­ráði.

Lofts­lags­breyt­ingar eru hin raun­veru­lega ógn á norð­ur­slóðum en á síð­ustu ára­tugum hefur hita­stig á svæð­inu hækkað nær þrefalt hraðar en heims­með­al­tal. Ummerki hlýn­unar eru hvergi jafn greini­leg, sbr. bráðnun jökla og haf­íss og þiðnun sífrera, og áhrifin á við­kvæm vist­kerfi og lífs­af­komu íbúa eru umtals­verð. Þetta eru ekki einka­mál íbúa á norð­ur­slóðum heldur mál allra jarð­ar­búa þó þau varði ekki síst frum­byggja á svæð­inu.

Því er það rök­rétt mat íslenskra ráða­manna sem koma að norð­ur­slóða­mál­um, að trygg­ing sjálf­bærrar þró­unar á svæð­inu sé það mál sem leggja þarf meg­in­á­herslu á næstu árin. Horfa þurfi jafnt til allra þriggja stoða sjálf­bærrar þró­un­ar, þ.e. umhverf­is­vernd­ar, efna­hags­þró­unar og sam­fé­lags­legrar þró­un­ar. Af ein­stökum málum sé brýn­ast að leggja áherslu á aðgerðir til að sporna gegn lofts­lags­breyt­ingum og bregð­ast við nei­kvæðum áhrifum hlýn­un­ar.

Öll standa ríkin frammi fyrir ákveðnu vali þegar kemur að því að fram­fylgja fögrum orðum í stefnu um umhverf­is­mál. Rússar hafa lík­lega mest dregið lapp­irnar en þeir hafa þó hvað mest fundið fyrir lofts­lags­breyt­ing­um, m.a. vegna bráðn­unar sífrer­ans sem hefur bæði ógnað nátt­úru, byggðum og efna­hag. Rússar hafa hins vegar talið sig eiga í vök að verj­ast gagn­vart Vest­ur­löndum og má búast við að hið fallandi heims­veldi muni fyrst um sinn að ein­hverju leyti láta tíma­bundna efna­hags­lega hags­muni ráða ferð­inni.

Hins vegar hefur orðið við­snún­ingur undir nýrri stjórn í Banda­ríkj­unum en Ant­ony Blin­ken utan­rík­is­ráð­herra hefur lýst því yfir að bar­áttan gegn lofts­lags­breyt­ingum verði leið­ar­stefið í utan­rík­is­stefn­unni og end­ur­reisn efna­hags­lífs­ins. Verður fróð­legt að sjá hvort þar muni fara saman orð og gjörðir en athygl­is­vert er að þar telja banda­rísk stjórn­völd að ekki sé verið að fórna efna­hags­legum hags­mun­um. Þvert á móti er bent á þann efna­hags­lega ávinn­ing sem felst í grænum lausnum og sjálf­bærni og mik­il­vægi for­ystu­hlut­verks Banda­ríkj­anna í þeim efn­um.

Það virð­ist vera full ástæða fyrir Ísland og Íslend­inga til að vera stoltir af og ánægðir með hvernig tek­ist hefur til við for­mennsku Íslands í Norð­ur­skauts­ráð­inu. Að sama skapi verður áhuga­vert að fylgj­ast með hvernig Rúss­landi tekst að sigla milli skers og báru í for­mennsku­tíð sinni. Sér­stak­lega þar sem oft er ekki auð­séð, hvort landið er sker eða bára, eða hvort tveggja í senn, þegar kemur að stöðu alþjóða­mála.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Rannsóknarskipið Hákon krónprins við rannsóknir í Norður-Íshafi.
Ískyggilegar niðurstöður úr Norður-Íshafi
Lífríkið undir ísnum í Norður-Íshafinu er ekki það sem vísindamenn áttu von á. Í nýrri rannsókn kom í ljós að vistkerfið einkennist ekki af tegundum sem helst einkenna hin köldu heimskautasvæði.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Ingrid Kuhlman
Tölum um dauðann
Kjarninn 17. ágúst 2022
Lilja Alfreðsdóttir er menningar- og viðskiptaráðherra.
Stefnt að því að sameina þrjá tónlistarsjóði í einn og skilgreina Sinfó sem þjóðareign
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur lagt fram drög að nýjum heildarlögum um tónlist. Stofna á Tónlistarmiðstöð, sjálfseignarstofnun sem á að verða hornsteinn íslensks tónlistarlífs og rekin með svipuðum hætti og Íslandsstofa.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Í sumar hafa tugir borga í Kína lýst yfir hættuástandi vegna hita.
Verksmiðjum lokað og mikill uppskerubrestur blasir við
Hitabylgja sumarsins hefur haft gríðarleg áhrif á stórum landsvæðum í Kína. Rafmagn er skammtað og algjörum uppskerubresti hefur þegar verið lýst yfir á nokkrum svæðum.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Seðlabankinn mun kynna næstu stýrivaxtaákvörðun í næstu viku.
Búast við að stýrivextir verði komnir upp í sex prósent í byrjun næsta árs
Markaðsaðilar vænta þess að verðbólgan sé við hámark nú um stundir en að hún muni hjaðna hægar. Í vor bjuggust þeir við að verðbólga eftir ár yrði fimm prósent en nú telja þeir að hún verði 5,8 prósent.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Segja toppana í samfélaginu hafa tekið sitt og að lágmark sé að launafólk fái það sama
Í Kjarafréttum Eflingar er lagt til að almenn laun hækki um 52.250 krónur á mánuði miðað við núverandi verðbólgu. Ríkið þurfi auk þess að koma að kjarasamningaborðinu með tug milljarða króna aðgerðir til að bæta stöðu þeirra verst settu í samfélaginu.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Starfsmenn Hvals hf. komu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglunnar á Akranesi án þess að til húsleitaraðgerðar þyrfti að koma.
Hvals-menn skiluðu dróna svissneska ríkisfjölmiðilsins til lögreglu
Lögreglan á Akranesi fékk kvikmyndatökudróna sem starfsmenn Hvals hf. hirtu af starfsmönnum svissnesks ríkisfjölmiðils afhentan og kom honum til eigenda sinna. Bæði drónaflugið og drónastuldurinn eru á borði lögreglunnar.
Kjarninn 17. ágúst 2022
Suðurhringþokan mynduð af WEBB-sjónaukanum í tveimur ólíkum útfærslum.
2.000 ljósár á sextíu sekúndum
Þau sem dreymir um að ferðast um geiminn ættu ekki að láta nýtt myndband geimferðastofnana Bandaríkjanna og Evrópu framhjá sér fara. Á sextíu sekúndum er boðið upp á 2.000 ljósára ferðalag með hjálp hins magnaða WEBB-sjónauka.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Meira eftir höfundinnBjarni Bragi Kjartansson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar