Íslendingar áttu 180 þúsund fólksbifreiðar í umferðinni um síðastliðin áramót. Það þýðir að 1,83 einstaklingar sitja að meðaltali í hverjum bíl, miðað við nýbirtar mannfjöldatölur Hagstofunnar og tölur Samgöngustofu um fólksbílaeign. Það er svipað og árinu áður, þegar 1,85 landsmenn voru um hvern bíl í umferð.
Þetta hlutfall hefur lítið breyst undanfarin ár og efnahagskrísan hafði ekki teljandi áhrif á bílaeign landsmanna, ef litið er til fjölda fólksbifreiða á hvern landsmann. Þegar horft er yfir lengra tímabil má þó sjá hvernig sífellt færri sitja að meðaltali um hvern bíl. Með öðrum orðum þá hafa landsmenn eignast fleiri og fleiri fólksbíla. Á allra síðustu árum hefur fólksbílafjölgunin verið hæg en umfram fólksfjölgun.
Í meðfylgjandi gröfum er stuðst við opinberar upplýsingar Samgöngustofu um fólksbifreiðaeign landsmanna og mannfjöldatölur Hagstofunnar.
Í grafinu hér að ofan er stuðst við fjölda „fólksbifreiða í umferð“. Samgöngustofa hefur gefið upp fjölda bifreiða í umferð síðastliðin tvö ár. Þær voru 180.071 talsins um síðustu áramót, samanborið við 217.454 „fólksbíla alls“ á landinu. Munurinn á fólksbílum alls og fólksbílum í umferð liggur í því að ökutæki geta verið „í innlögn“ samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu. „Númer geta verið innlögð af ýmsum ástæðum, t.d. vegna viðgerða, ökutæki einungis notuð hluta af ári eða afklippt af lögreglu.“ Hlutfall fólksbifreiða í umferð af heildarfjölda fólksbifreiða var keimlíkt á árunum 2013 og 2014, eða um 82,7 prósent. Við útreikninga hefur fjöldi fólksbifreiða í umferð á árunum 1994 til 2012 verið áætlaður miðað við þetta hlutfall.
Fækkun um einn heilan
Á síðustu tuttugu árum hefur fjöldi einstaklinga í hverjum bíl fækkað um nærri einn heilan. Árið 1994 voru 2,78 landsmenn um hvern fólksbíl en voru um síðustu áramót 1,83. Þótt hlutfallið hafi breyst tiltölulega lítið undanfarin ár, þá er þróunin afgerandi þegar litið er yfir tuttugu ára tímabil. Á þessu tímabili hefur landsmönnum fjölgað um 23 prósent en fólksbílum hefur fjölgað um 87 prósent. Þá má benda á að fólksbifreiðum fjölgaði um 4.088 á árinu 2014. Landsmönnum fjölgaði á sama tíma um 3.429. Í grafinu hér fyrir neðan má sjá sömu þróun og fyrsta grafið sýnir, nema miðað er við heildarfjölda fólksbifreiða um áramót., það eru fólksbifreiðar í umferð og fólksbifreiðar „í innlögn“. Um 1,5 einstaklingur sátu að meðaltali í hverjum bíl um síðustu áramót, samanborið við 2,3 árið 1994 og 1,78 árið 2000.