Elnaz Rekabi tók þátt í asíska meistaramótinu í klifri í Suður-Kóreu um síðustu helgi. Eftir keppni hvarf hún sporlaust. Hún var ekki með höfuðslæðu á meðan hún keppti, líkt og lög kveða á um í heimalandi hennar, Íran, og fljótlega vöknuðu spurningar hvort hvarf hennar hefði eitthvað með það að gera.
Myndskeið af Rekabi þar sem hún keppir án slæðunnar fór á flug á samfélagsmiðlum og var Rekabi lofuð fyrir að standa uppi í hárinu á írönskum stjórnvöldum.
Hörð mótmæli hafa staðið yfir í Íran síðastliðnar fimm vikur eftir að Mahsa Amini, 22 ára kona frá Kúrdistan, lést í haldi siðgæðislögreglunnar í Íran. Amini var á ferðalagi í Teheran, höfuðborg Íran, um miðjan september þegar íranska siðgæðislögreglan handtók hana fyrir meint brot á reglum um að bera slæðu. Mat siðgæðislögreglan það svo að slæðan huldi ekki nægilega mikið af höfði hennar þar sem hár hennar var sýnilegt. Þá hafi klæðnaður hennar einnig verið „óviðeigandi“.
Skikka átti Amini á námskeið um klæðaburð en skömmu eftir handtöku hennar féll hún í dá. Hún lést á sjúkrahúsi þremur dögum síðar. Fjölskylda hennar og vitni segja að hún hafi verið barin til dauða. Yfirvöld fullyrða hins vegar að hún hafi fengið hjartaáfall.
Rekabi er meðal fremstu keppniskvenna í klifri í heimi. Á síðasta ári varð hún fyrsta íranska konan sem vann til verðlauna á heimsmótaröðinni í klifri og í keppninni um síðustu helgi varð hún í fjórða sæti. Eftir að mótinu lauk heyrði hvorki fjölskylda hennar né vinir frá henni en þau vissu síðast af henni í fylgd íransks embættismanns.
Sendiráðið „hafnar öllum falsfréttum, lygum og upplýsingaóreiðu“
Í tilkynningu sem íranska sendiráðið í Suður-Kóreu sendi frá sér á þriðjudag sagði að Rekabi væri á leið heim til Tehran. „Sendiráð íslamska lýðveldisins Írans í Suður-Kóreu hafnar öllum falsfréttum, lygum og upplýsingaóreiðu um fröken Elnaz Rekabi,“ sagði í tilkynningu sendiráðsins.
خانم الناز رکابی پس از پایان مسابقات سنگ نوردی قهرمانی آسیا در سئول، بامداد روز سه شنبه 26 مهر 1401 به همراه سایر اعضای تیم از سئول به مقصد ایران حرکت کرد. سفارت جمهوری اسلامی ایران در کره جنوبی تمامی اخبار جعلی، کذب و اطلاعات نادرست در خصوص خانم الناز رکابی را قویا تکذیب می کند. pic.twitter.com/6RvIdhDUkH
— Iran embassy in Seoul (@IraninSKorea) October 18, 2022
Rekabi birtist svo á Instagram á þriðjudaginn, um tveimur sólarhringum eftir að hún lauk keppni, þar sem hún sagðist vera heil á húfi. Hún baðst afsökunar á að hafa valdið áhyggjum, þær hafi verið óþarfi. Ástæða þess að hún bar ekki höfuðslæðu í keppninni áttu sér eðlilegar skýringar, slæðan hefði einfaldlega dottið af í hamaganginum þar sem hún var kölluð fyrr til leiks en hún bjóst við.
Rekabi kom til Tehran snemma á miðvikudagsmorgun þar sem fjölskylda hennar tók á móti henni. En þau voru ekki þau einu. Fjöldi fólks safnaðist saman við Imam Khomeini-flugvöllinn og tóku fagnandi á móti Rekabi.
„Kvenhetja,“ kyrjuðu þau sem tóku á móti henni. Mótmælendur sem hafa fjölmennt á götur borga víðs vegar í Íran eftir andlát Amini eru á öllum aldri, konur jafnt sem karlar, en það sem er ef til vill nýtt við mótmælin nú er að þau eru leidd af konum af öllum kynslóðum og hafa stjórnmálaskýrendur fullyrt að um feminíska byltingu sé að ræða, byltingu þar sem krafan snýst um frelsi til að velja.
Afsökunarbeiðnin var þvinguð
Samkvæmt heimildum persnesku útgáfu BBC hafði Rekabi þó ekki frelsi til að velja þar sem hún var neydd til að biðjast afsökunar. Írönsk yfirvöld hótuðu að svipta fjölskyldu hennar öllum eignum sínum ef hún færi ekki að fyrirmælum stjórnvalda.
Þá hefur fjölmiðillinn Iran Wire, sem er gagnrýninn á írönsku klerkastjórnina, heimildir fyrir því að formaður íranska klifursambandsins hafi sannfært Rekabi um að koma í sendiráðið að keppni lokinni og lofað því að hún kæmist örugg heim til Írans ef hún afhenti símann sinn og vegabréf.
Við komuna til Íran baðst Rekabi afsökunar á því sem gerst hafði og ítrekaði að höfuðslæðan hefði dottið af „fyrir slysni“. Rekabi bar ekki slæðu en klæddist hettupeysu og huldi hár sitt með derhúfu.
Óljóst er hvert Rekabi fór frá flugvellinum í Tehran. Nokkuð víst þykir að hún fór ekki heim og hefur Iran Wire heimildir fyrir því að henni hafi verið fylgt beint á fund íþróttamálaráðherra Írans. Þaðan hafi hún svo verið færð í stofufangelsi, fjarri heimili hennar. Írönsk yfirvöld hafna því en segja hana vera heima þar sem hún sé þreytt og þurfi að hvílast.
Langt frá því að vera einsdæmi
Mál Rekabi er ekki einsdæmi. Stjórnvöld annarra ríkja hafa gripið inn í þegar þekktar íþróttakonur gera eitthvað sem varpað getur skugga á ágæti ríkisins. Kína er gott dæmi um það.
Í nóvember í fyrra birti kínverska tennisstjarnan Peng Shuai færslu á samfélagsmiðlinum Weibo þar sem hún sakaði fyrrverandi varaforseta Kína um að hafa þvingað hana til kynmaka. Færslan var ítarleg, 1.600 orð, þar sem Peng lýsti samskiptum hennar við varaforsetann í smáatriðum. Færslan var fjarlægð um tuttugu mínútum eftir að hún birtist og ekkert heyrðist frá Peng sem virtist hafa horfið sporlaust.
Um tveimur vikum eftir að færslan birtist á Weibo birti ríkisfjölmiðillinn CGTN tölvupóst sem Peng sendi framkvæmdastjóra Samtaka kvenna í tennis. Þar segir að hún sé örugg og að ásakanirnar sem birtust á Weibo séu ekki sannar. Fjórum dögum seinna, 21. nóvember, birtust myndskeið af Peng, annars vegar á veitingastað og hins vegar á tennismóti barna, en trúverðugleiki þeirra var dreginn í efa, ekki síst þar sem þau voru birt af Hu Xijin, ritstjóra Global Times, ríkisrekins fjölmiðils.
Í desember sagði Peng í viðtali við blaðamann frá Singapore að hún hefði alltaf verið frjáls ferða sinna. „Af hverju ætti einhver að fylgjast með mér?“ sagði hún í viðtalinu.
Lítið hefur heyrst af Peng frá því í febrúar. Í viðtalinu í L'Equipe gaf hún til kynna að tennisferli hennar væri brátt að ljúka. „Með tilliti til aldurs míns, fjölda aðgerða og heimsfaraldursins sem hefur neytt mig til að hætta að spila svona lengi tel ég að það verði mjög erfitt fyrir mig að ná aftur líkamlegum styrk,“ sagði Peng.
Íþróttaferli Elnaz Rekabi, sem er 33 ára, er hvergi nærri lokið. Óljóst er þó hvernig honum verður háttað, en reikna má með að klerkastjórnin muni hafa góðar gætur á henni. Rekabi birti færslu á Instagram á föstudag þar sem hún þakkaði öllum íbúum í Íran fyrir stuðninginn og sagðist ekki geta komist yfir „hindranir framtíðarinnar“ án hans.