„Ég þorði aldrei að segja að ég hafi verið í vændi eða neyslu eða, af því ég var svo hrædd um að mér yrði ekki trúað þú veist, að þessi atburður yrði alltaf tengdur bara við lífernið sem ég lifði.“
Þannig lýsir kona upplifun sinni af því að hafa verið í vændi. Hún er meðal 14 kvenna sem eru viðmælendur í nýrri rannsókn á reynslu kvenna sem eru í vændi eftir að breytingar voru gerðar á vændisákvæði Almennra hegningarlaga árið 2009.
Rannsóknin beinir sjónum sínum sérstaklega að úrræðum til útgöngu úr vændi. Meðal helstu niðurstaða er að konur sem hafa verið í vændi upplifa vantraust í garð lögreglu, heilbrigðisstarfsfólks og félagsþjónustunnar. Rannsakendur eru Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði, og Sveina Hjördís Þorvaldsdóttir, sem lauk meistaragráðu í kynjafræði við Háskóla Íslands í haust. Rannsóknin birtist í nýjustu útgáfu tímaritsins Stjórnmál & stjórnsýsla og ber yfirskriftina „Draumastaður“ og önnur úrræði til útgöngu úr vændi.
Samkvæmt breytingu sem gerð var á vændisákvæði Almennra hegningarlaga árið 2009 eru kaup á vændi og hagnaður þriðja aðila af vændissölu refsiverð en sala á vændi er refsilaus. Örfáir hafa hlotið dóm fyrir vændiskaup á Íslandi en hér tíðkast að vændiskaupendur fái sektir, allt að 200.000 krónum, frekar en dóm. Á árunum 2009-2019 voru flest málin 175 árið 2013 en fæst árið 2016, fimm talsins.
Fyrir gildistöku laganna var lítið vitað um aðstæður fólks í vændi og engar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi eftir gildistöku þeirra sem kannar reynslu þeirra sem eru í vændi.
Tilgangur rannsóknarinnar er að bæta úr því og er henni ætlað að vera innlegg í opinbera stefnumótun í málaflokknum með hagsmuni þolenda vændis að leiðarljósi. Í rannsókninni er rætt við 14 íslenskar konur sem hafa hætt í vændi og er markmið rannsóknarinnar að skoða hver sé aðdragandi þess að þær fóru í vændi og hvaða úrræði þær telja að þurfi að vera til staðar fyrir þau sem vilja hverfa úr vændi.
Úrræðaleysi á öllum stigum
Í rannsókninni var leitast eftir því að svara hvaða úrræði hafa nýst þolendum vændis og hvaða úrræðum óska þeir eftir til að stuðla að og auðvelda útgöngu úr vændi?
Konurnar 14 sem rætt er við í rannsókninni eiga það sameiginlegt að hafa upplifað úrræðaleysi innan heilbrigðiskerfisins í aðdraganda vændis. Viðmælendur lýsa því einnig að mæta úrræðaleysi þegar kemur að því að vinna úr afleiðingum vændis. Almenn þekking virðist ekki vera til staðar um hvað felist í því að hafa verið í vændi, ofbeldið sem þrífst innan þess og hvaða afleiðingar þolendur þurfi að takast á við í kjölfarið.
Einfaldara að leita ekki aðstoðar í stað þess að mæta skilningsleysi
Einn viðmælandinn lýsti því að það væri einfaldara að leita sér ekki aðstoðar en að mæta skilningsleysi hjá heilbrigðisstarfsfólki. Flestar þorðu ekki að deila reynslu sinni með læknum eða öðru heilbrigðisstarfsfólki af ótta við útskúfun og fordóma.
Aðeins ein af konunum 14 sem rætt var við hafði reynt að kæra vændiskaupendur til lögreglunnar eftir að hafa safnað til þess kjarki í langan tíma. Lögreglan gat engin svör veitt henni og sagði hún að:„hún [lögreglan] bara veit ekkert hvað hún á að gera við mig“. Konan var send heim án þess að formlega hafi verið tekið við kæru hennar og rúmu ári síðar hafði hún enn ekkert heyrt frá lögreglunni og upplifði þessi viðbrögð lögreglunnar þannig að hún skipti ekki máli og að lögreglunni væri sama þó hún hafi orðið fyrir ofbeldi.
„Hann ætti rétt á því að nauðga mér því hann væri að borga mér“
Einn viðmælandi varð fyrir hrottalegri nauðgun og frelsissviptingu á meðal sala á vændi fór fram. Hún leitaði til lögreglu en var ráðlagt að kæra ekki, þrátt fyrir að vændiskaupendur eigi að sæta refsingu og að auki eiga þeir aðilar sem nauðga og frelsissvipta einnig að sæta refsingu.
Lögreglan sagði hættuna of mikla fyrir hana þar sem hún verði opinberuð sem vændiskona. Það er mat rannsakenda að þarna birtast gamalgrónar hugmyndir tengdar nauðgunarmenningu þegar það er útskýrt fyrir henni að líklegast yrði aldrei sakfellt í þessu máli ef hún myndi kæra.
Konan lýsir skýringum lögreglu á þessa leið: „Það væri rosalega erfitt að hérna koma með rökfærsluna fyrir dóm ... hann ætti rétt á því að nauðga mér af því hann var að borga mér.“
„Þar með birtist sú nauðgunarmýta að þolendum vændis geti ekki verið nauðgað því þær hafi með sölu á aðgangi að líkama sínum gefið samþykki sitt,“ segir í grein Gyðu og Sveinu. Konan fékk enga aðstoð í kjölfar þess að hafa leitað til lögreglu og ekkert varð úr málinu. Stuttu síðar hafði lögreglan afskipti af konunni og var hún kærð fyrir að auglýsa vændi. Í kjölfarið upplifði hún algjört vantraust í garð lögreglu.
Núverandi löggjöf veitir þolendum vændis litla vernd
Fram kemur í rannsókninni að framkvæmd núverandi löggjafar veitir þolendum vændis litla vernd. Viðmælendur vilja að tekið sé á vændismálum, þær hljóti lagalega vernd og að vændiskaupendum sé refsað. Annað úrræði sem var nefnt er fjárhagsaðstoð til lengri tíma.
Flestar viðmælenda höfðu nýtt sér bæði einstaklings- og hópaviðtöl Stígamóta en ekkert sérhæft úrræði fyrir konur sem eru eða hafa verið í vændi virðist vera starfrækt í dag að undanskildum sjálfshjálparhópi Stígamóta, Svanahópnum. Hópurinn samanstendur alla jafna af fjórum til sjö konum sem eiga það sameiginlegt að hafa verið í vændi eða eru í vændi og vilja komast út úr því. Helsta markmið hópsins er að styrkja sjálfstraust þolenda vændis, bæta líðan þeirra og rjúfa þá félagslegu einangrun sem tilkomin er vegna vændis.
Þörf á úrræði til að vinna með þolendaskömmina
Í rannsókninni kemur fram að mikilvægt er að þolendur vændis hafi aðgang að úrræðum til að vinna með þolendaskömmina og aðrar alvarlegar afleiðingar þess að hafa verið í vændi. Einnig birtist þarna þörfin fyrir að þolendur fái aðstoð við að vinna úr afleiðingum annarra kynferðisbrota.
Samþætta þarf þessi úrræði svo þolendur þurfi ekki að leita á marga staði eftir aðstoð, heldur geti leitað á einn stað sem veitir fjölbreytt úrræði. Tvær kvennanna sem rætt er við í rannsókninni nefna „draumastað“.
„Draumastaður þar sem er bara svona meðferðarheimili ... þar sem maður getur bara þú veist, bara verið í prógrömmum og verið í öruggu umhverfi,“ segir ein kvennanna sem rætt er við í rannsókninni.
Þau úrræði sem viðmælendur kalla eftir eru eftirfarandi:
- Fræðsla til handa fagfólki og lögreglu svo þolendum sé mætt af virðingu og skilningi.
- Aukið aðgengi að og niðurgreiðsla sálfræðiþjónustu.
- Sérhæfð einstaklings- og hópaviðtöl fyrir þolendur vændis.
- Fjárhagsaðstoð án skilyrða og aðstoð við að komast aftur á almenna vinnumarkaðinn.
- Harðari refsingar vegna vændiskaupa.
- Meðferðarheimili með dagdeild sem býður upp á fræðslu og úrræði til að bregðast við fjölþættum vanda og margháttuðum áföllum.
- Skaðaminnkandi nálganir, s.s. öruggt rými og tengslanet.
„Þrátt fyrir mótlætið sem þær hafa upplifað áður en þær hófu vændi, á meðan á vændinu stóð, og eftir að því lauk þá halda þær áfram að leita leiða til að bæta aðstæður sínar og þeirra sem eru í svipuðum sporum,“ segja Gyða og Sveina í grein sinni.
Næsta skref, að þeirra mati, er hjá stjórnvöldum sem þurfa að „svara ákalli þeirra og koma á fót þeim úrræðum sem kallað er eftir í anda laganna sem samþykkt voru á Alþingi árið 2009“.