Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fékk að sjá drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluferlið á Íslandsbanka á sama tíma og Ríkisendurskoðun sendi fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Bankasýslu ríkisins og stjórn hennar drögin til umsagnar þann 12. október síðastliðinn. „Það var til þess að leita eftir athugasemdum okkar við meðferð málsins í ráðherranefnd um efnahagsmál, þar sem forsætisráðuneytið á aðkomu,“ segir Katrín í samtali við Kjarnann. Auk Katrínar eiga Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fast sæti í umræddri ráðherranefnd.
Katrín segir að sér finnist mjög erfitt að tjá sig um málið sem stendur, þar sem að hún hafi fengið að sjá drögin í trúnaði á einhvers konar frumstigi. „Ég veit í raun og veru ekki hvernig þessi skýrsla mun koma til með að líta endanlega út.“
Hún hafi ekki séð þær umsagnir sem fjármála- og efnahagsráðuneytið og Bankasýslan skiluðu inn um skýrsluna, en frestur til að skila þeim inn rann út 25. október síðastliðinn.
Fyrir liggur að skýrslan verður ekki afhent forseta Alþingis í þessari viku og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sagði í fréttum RÚV á mánudag að hún gerði ráð fyrir því að skýrslan verði komin til Alþingis í nóvembermánuði.
Aðspurð hvort lokaútgáfa skýrslunnar verði kynnt eftir helgi eða hvort von sé á enn einni frestuninni segir Katrín: „Ég held að það sé bara þannig að við fáum að sjá hana þegar hún kemur.“
Háværar kröfur um skipun rannsóknarnefndar
Skýrslan er gerð að beiðni Bjarna Benediktssonar, en hann bað formlega um gerð hennar 7. apríl síðastliðinn og Ríkisendurskoðun samþykkti að taka að sér verkið. Það gerðist í kjölfar þess að söluferlið var harðlega gagnrýnt víða í samfélaginu. Í bréfi ráðuneytisins kom fram að umræða hafi skapast um hvort framkvæmd sölunnar hafi verið í samræmi við áskilnað laga og upplegg stjórnvalda sem borið var undir fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis til umsagnar.
Það var gert þrátt fyrir háværar kröfur um að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis, sem hefur mun víðtækari rannsóknarheimildir, til að fara yfir söluna. Í könnun Gallup frá því í apríl kom fram að næstum þrír af hverjum fjórum aðspurðum vildi að rannsóknarnefnd yrði skipuð og taldi að ekki væri nægjanlegt að Ríkisendurskoðun skoðaði málið. Meirihluti kjósenda allra flokka utan eins, Sjálfstæðisflokks, voru á þeirri skoðun.
Ýmsir stjórnarþingmenn tóku til máls í umræðum á Alþingi á þessum tíma og sögðu að ef niðurstaða þingsins yrði að úttekt Ríkisendurskoðunar dugði ekki til að lægja öldurnar myndu þeir styðja að komið yrði á fót sjálfstæðri rannsóknarnefnd.
Aðspurð hvort hún telji tilefni til þess að skipa rannsóknarnefnd um söluferlið á Íslandsbanka segist Katrín ekki geta tjáð sig um það fyrr en hún sér endanlegu skýrsluna.
Ríkisendurskoðun og FME rannsaka sölu
Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar snýst í meginatriðum um hvort fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem stýrt er af Bjarna Benediktssyni, og Bankasýsla ríkisins, undirstofnun þess, hafi staðið tilhlýðilega að framkvæmd sölunnar á áðurnefndum 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka til 207 fjárfesta í lokuðu útboði fyrir 52,65 milljarða króna í mars síðastliðnum.
Þá rannsakar Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands (FME) ýmsa þætti sölunnar, sérstaklega viðskipti sem áttu sér stað í aðdraganda sölunnar og atferli hluta þeirra söluráðgjafa sem ráðnir voru til að selja hluti í bankanum. Ekkert hefur verið gert opinbert um stöðu þeirrar rannsóknar en allir fimm innlendu söluráðgjafarnir hafa fengið fyrirspurnir frá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands vegna rannsóknar þess.
Engin áform um að selja hlut í Landsbankanum
Í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í byrjun september var gert ráð fyrir að eftirstandandi 42,5 prósent hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur fyrir 75,8 milljarða króna á næsta ári. Það var gert þrátt fyrir yfirlýsingu formanna stjórnarflokkanna þriggja frá 19. apríl, þar sem segir að ekki verði ráðist í sölu á frekari hlutum í Íslandsbanka að sinni og að sú ákvörðun verði ekki endurskoðuð á meðan að Ríkisendurskoðun og FME rannsökuðu það sem átti sér stað í mars.
Kjarninn greindi frá því fyrr í október að ekki hafi verið tekin ákvörðun um áframhaldandi sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og að yfirlýsingin stæði þar af leiðandi áfram. Katrín staðfestir að ekkert hafi breyst í þeim efnum í samtali við Kjarnann í gær. Þar sagði hún einnig að engin áform væru uppi um að selja hlut í Landsbankanum en heimild er til þess að selja allt að 30 prósent hlut í honum í fjárlagafrumvarpinu. Bjarni sagði í viðtali við Dagmál á mbl.is í ágúst að hann vildi ekki bara vilja losa ríkið úr eignarhluta í Íslandsbanka heldur líka selja hlut í Landsbankanum þegar fram í sækir, þótt hann væri þeirrar skoðunar að ríkið geti vel farið þar með ráðandi hlut.
Þriðji ráðherrann sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins er Lilja D. Alfreðsdóttir. Í svari hennar við fyrirspurn á Alþingi í síðasta mánuði sagði að stefna Framsóknarflokksins væri að Landsbankinn verði áfram í eigu ríkisins og að flokkurinn sé til í að skoða hugmyndir þess efnis að bankinn verði samfélagsbanki.