„Kerfið virkaði, þetta mál sýnir það,“ sagði Tryggvi Gunnarsson, Umboðsmaður Alþingis, alvarlegur í bragði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem lauk nú rétt í þessu. Á fundinum fór Tryggvi yfir málið og svaraði spurningum nefndarmanna. Í máli Tryggva kom skýrlega fram, að málið hefði tekið breytta stefnu eftir að Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, játaði það að hafa átt samskipti við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra, um rannsókn á lekamálinu með bréfi 8. janúar síðastliðinn. Með því breytti hún fyrri framburði sínum og bað Tryggva beint afsökunar á því, og játaði það skilmerkilega fyrir honum að það hafi verið mistök að sinni hálfu að hafa afskipti af rannsókn sakamáls, en því lauk með því að pólitískur aðstoðarmaður hennar, Gísli Freyr Valdórsson, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að leka trúnaðarupplýsingum um hælisleitandann Tony Omos. Með játningu Hönnu Birnu tók málið því aðra stefnu en áður; óumdeilt var eftir þetta að afskipti Hönnu Birnu voru andstæð lögum og að hún hefði haft óeðlileg afskipti af rannsókn málsins.
Almenningur á rétt á upplýsingunum
Einn þeirra sem spurði Tryggva spurninga á fundinum var nefndarmaðurinn Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Hann spurði að því, hvers vegna Tryggvi hefði birt opinberlega bréf sitt til Hönnu Birnu, þar sem samskiptin við Stefán Eiríksson voru rakin, og spurninga beint til ráðherra. „Þarna varstu farinn að reka málið í fjölmiðlum“ sagði Karl, og spurði hvers vegna þetta hefði verið verið gert. Tryggvi svaraði því til, að það væru upplýsingalög í gildi í landinu sem segðu til um að almenningur hefði rétt á því að vita af þessum samskiptum og sjá hvernig þeim væri háttað. „Það eru í gildi upplýsingalög í þessu landi sem gera ráð fyrir því að þessi samskipti fari fram fyrir opnum tjöldum“ sagði Tryggvi.
Karl Garðarsson beindi spurningum til Tryggva Gunnarssonar, sem hann svaraði skilmerkilega.
Hver á að rannsaka ráðherra?
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, velti því upp á fundinum í morgun hvort það væri ekki einn af „lærdómum þessa málsins“ að það væri óheppilegt að lögreglan væri rannsakandi í máli þar sem ráðherra lögreglumála, eða ráðuneyti lögreglumála, væri andlag rannsóknarinnar. „Er þetta ekki vonlaus staða fyrir lögregluna að vera í?,“ spurði Brynjar. Tryggvi sagði núgildandi lög gera ráð fyrir því að lögreglan rannsakaði mál sem þessi, en sagðist ekki vilja segja Alþingi „fyrir verkum“ við lagasetningu. Hann nefndi að ríkissaksóknari hefði rannsóknarhlutverk í málum þar sem lögreglumenn væru til rannsóknar, en að lögin gerðu ráð fyrir að lögreglan rannsakaði mál sem þessi.
Óhugsandi staða á Norðurlöndunum
Vigdís Hauksdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, beindi spurningum til Tryggva um hvernig málið hefði verið til lykta leitt á Norðurlöndunum, miðað við gildi lög og reglur þar í landi. Tryggvi sagði það reglur og lög á Norðurlöndunum, og tók Danmörku og Noreg sem dæmi, koma alfarið í veg fyrir að mál eins og lekamálið, og afskipti ráðherra af rannsókn þess, gæti komið upp. Sagði hann stjórnskrá taka fyrir samskipti sem þessi auk þess að lagaramminn væri skýr; ráðherra dóms- og lögreglumála mætti ekki hafa afskipti af rannsókn mála, og ekki af rannsókn á honum sjálfum eða ráðuneyti hans. „Málið er fordæmalaust“ sagði Tryggvi meðal annars, þegar hann fór yfir þessi efnisatriði.
Nefndarmenn fengu skamman tíma til þess að kynna sér álit Umboðsmanns Alþingis, og spurði fyrir vikið oftast nær almennra spurninga um málin.
Þarna reynir á siðareglur og faglega stjórnsýslu
Tryggvi sagði málið sýna nauðsyn þess að vera með faglega stjórnsýslu sem stæðist pólitískan þrýsting og gæti leitt mál til lykta á faglegum forsendum. Það hefði sýnt sig í þessu máli, að þessi grundvallaratriði í samfélagsgerðinni hér á landi hefðu haldið. Þá væri það einnig mikilvægt að halda í heiðri meginreglunni um gagnsæja stjórnsýslu, frekar en „launung og leynd“. Stjórnsýslan væri í þeirri stöðu gagnvart almenningi í landinu, að hennar faglegi grunnur þyrfti að vera opinn og þola dagsljósið. Efnisatriði sem Tryggvi hefði nefnt í bréfi til forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, um mikilvægi þess að innleiða siðareglur fyrir stjórnsýsluna og ráðherra, og fara eftir þeim, skiptu miklu máli í þessu samhengi.
„Ef þetta heldur ekki, þá er bara voðinnn vís,“ sagði Tryggvi.