Fyrir nokkrum dögum kynnti danska ríkisstjórnin nýja áætlun um orkumál. Samkvæmt henni á raforkuframleiðsla frá vindmyllum og sólarrafhlöðum að fjórfaldast frá því sem nú er fyrir árið 2030. Þessi áætlun „den grønne omstilling“ eins og Danir kalla það hefur verið lengi í undirbúningi. Eins og margar aðrar Evrópuþjóðir kaupa Danir gas af Rússum og Mette Frederiksen forsætisráðherra hefur að undanförnu marglýst yfir vilja danskra stjórnvalda til að binda enda á þau viðskipti sem allra fyrst. Slíkt er þó hægara sagt en gert, mörg lönd í Evrópu, þar á meðal Danir, eru mjög háð rússagasinu, eins og það er kallað. Rússar eru sömuleiðis háðir tekjunum, nær helmingur útflutningstekna þeirra kemur frá gasviðskiptum. Megnið af rússagasinu hefur farið um um gasleiðsluna Nordstream 1 sem liggur frá Vyborg í Rússlandi, um Finnlandsflóa og Eystsrasalt, til Lubmin við Greifswald í Þýskalandi, 1200 kílómetra leið. Nordstream 1 leiðslan annaði vart gasþörf og undirbúningur að lagningu annarrar leiðslu, Nordstream 2, hófst árið 2011, sama ár og Nordstream 1 var tekin í notkun, leiðslurnar tvær liggja samsíða. Áður en Nordstream 1 var tekin í notkun fór megnið af rússagasinu um Úkraínu, og stjórnvöld þar gátu hótað að loka, eða jafnvel lokað, fyrir gasstreymið ef Rússar hefðu í hótunum. Rússar lögðu því mikla áherslu á Nordstream leiðslurnar en þær liggja hvergi um úkraínskt landsvæði. Rússneska gasfyrirtækið Gazprom er aðaleigandi Nordstream 1 og dótturfyrirtæki þess er eigandi Nordstream 2.
Hart deilt um Nordstream 2
Eins og áður sagði hófst undirbúningur að lagningu Nordstream 2 leiðslunnar árið 2011. Ekki voru allir á eitt sáttir um þá framkvæmd, ýmsir töldu það slæman kost að vera að stórum hluta háðir viðskiptum við Rússa varðandi kaup á gasi. Bandarísk stjórnvöld voru mjög andsnúin lagningu Nordstream 2 en fáir eða engir hafa þó líklega séð fyrir atburðarás síðustu vikna, sem ekki sér fyrir endann á. Nordstream 2 leiðslan var tilbúin til notkunar í september á síðasta ári en Þjóðverjar voru mjög tregir til að undirrita og staðfesta rekstrarleyfið. Atburðir síðustu vikna verða ekki til að flýta fyrir þeirri undirritun og óljóst hvort, og þá hvenær gasið fer að streyma um Nordstream 2 leiðsluna. Innrás Rússa í Úkrínu hefur orðið til þess að mörg Evrópulönd vilja binda enda á viðskipti við Rússa og leita nú allra leiða til að ná því markmiði.
Sólarorka og vindmyllur
Þegar danska ríkisstjórnin kynnti orkuframleiðsluáætlunina í síðustu viku var Dan Jørgensen orkumálaráðherra spurður hvernig stjórnin sæi fyrir sér að hægt yrði að fjórfalda orkuframleiðsluna á næstu átta árum. Ráðherrann nefndi að til dæmis væri hægt að tífalda sólarorkuframleiðslu frá því sem nú er. Orkuframleiðslu með vindmyllum, sem í dag er miklu meiri en með sólarorku, mætti tvöfalda fram til 2030 og enn meira á næstu áratugum. Gert er ráð fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda minnki um 70% fram til 2030.
Í orkuáætlun sem samþykkt var á danska þinginu árið 2018 var gert ráð fyrir þremur stórum vindmyllusvæðum á hafi úti. Þar er einkum horft til svæða úti fyrir vesturströnd Jótlands. Síðastliðinn miðvikudag (20. apríl) tilkynnti þýska fyrirtækið RWE að ákveðið hefði verið að fyrsta, og stærsta, vindmyllusvæðið yrði 22 kílómetrum frá landi úti fyrir smábænum Thorsminde. Myllurnar á þessu svæði eiga að geta framleitt orku sem samsvarar notkun milljón heimila. Thor, eins og svæðið er nefnt, á að vera komið í fulla notkun árið 2027.
Þegar fyrirhugað er að ráðast í stórframkvæmdir af þessu tagi er í mörg horn að líta og iðulega verða miklar deilur vegna fyrirhugaðrar staðsetningar. Þótt flestir vilji gjarna græna orku, eins og mylluorkan er kölluð, eiga myllurnar ekki „að vera hjá mér“.
Í augum margra eru vindmyllur ekki augnayndi og mörgum þykir hvinurinn sem frá þeim stafar hvimleiður og rannsóknir hafa sýnt að hann getur verið heilsuspillandi. Tilteknar reglur gilda því um staðsetningu vindmylla. Um myllur sem teljast stærri en til heimilisnota gildir almennt sú regla að fjarlægð myllu frá næsta byggða bóli verður að vera fjórföld mesta hæð myllunnar, ef mylluspaði nær hæst 50 metra upp í loftið verður myllan að vera í 200 metra fjarlægð frá því húsi sem næst stendur. En engin regla er án undantekninga og þannig er það líka með vindmyllur og fjarlægð frá húsum, nánar tiltekið guðshúsum.
Kirkjur og vindmyllur
Í Danmörku eru um það bil 2350 kirkjur. Margar þeirra komnar mjög til ára sinna, um 70% þeirra byggðar fyrir miðja 16. öld. Þegar ferðast er um sveitir Danmerkur blasa kirkjur víða við, standa hátt og iðulega talsvert frá öðrum húsum, margar keimlíkar í útliti, hvítkalkaðar með rauðbrúnum steini á bröttu þaki. Kirkjurnar eru eins konar kennileiti og um leið áttaviti, turninn vísar ætíð í vestur.
Skipulagslögin
Í dönskum skipulagslögum er sérákvæði um byggingar og mannvirki í nálægð kirkna. Þar segir að viðkomandi sókn geti komið í veg fyrir að mannvirki, til dæmis hús, brýr og vindmyllur rísi nálægt kirkju. Tilgangurinn er að tryggja sérstöðu kirknanna sem hluta dansks menningararfs, eins og segir í skýringum með lögunum.
Víða í Danmörku háttar þannig til að í nágrenni kirkna eru óbyggð svæði sem gætu hentað vel fyrir vindmyllur. En skipulagslögin, í núverandi mynd, setja slíkum fyrirætlunum skorður. Þar segir nefnilega að fjarlægð mannvirkis (til dæmis myllu) frá kirkju verði að vera 28 sinnum hæð þess. 100 metra há vindmylla yrði, samkvæmt þessu að vera í 2,8 kílómetra fjarlægð frá kirkjunni.
Gundersted og vindmyllurnar
Bæjarnafnið Gundersted hljómar ekki sérlega kunnuglega í flestra eyrum. Gundersted er lítið þorp norðarlega á Jótlandi, vestan við Álaborg. Íbúarnir eru rúmlega þrjú hundruð. Í Gundersted hefur verið kirkja frá 12. öld, hún hefur verið endurbyggð nokkrum sinnum, en ætíð á sama stað, og stendur hærra en aðrar byggingar í þessu litla þorpi. Það er rúmt um kirkjuna, engin hús eða önnur mannvirki skyggja á hana.
Nokkuð frá kirkjunni, nánar tiltekið 1,5 km, standa sex vindmyllur, þær hafa verið þarna um árabil og teljast lágar á myllumælikvarða. En nú eru blikur á lofti, sveitarfélagið vill fjarlægja gömlu myllurnar og setja á sama stað sex nýjar myllur, 150 metra háar. Þessum fyrirætlunum mótmælti sóknarnefndin í Gundersted og vísaði í sérákvæðið áðurnefnda um fjarlægð vindmylla frá guðshúsum. Nýju myllurnar sem sveitarfélagið vill setja upp eiga að skaga 150 metra í átt til himins og samkvæmt lögunum ættu myllurnar því að vera í að minnsta kosti 4,2 kílómetra fjarlægð frá kirkjunni. Gömlu myllurnar standa mun nær og sóknarnefndin vill alls ekki fallast á að nýju myllurnar rísi á sama stað. Þessi neitun sóknarnefndarinnar setti mylluáformin í uppnám. Borgarstjórinn í Vesthimmerland (sem Gundersted er hluti af) sagði fyrir nokkrum dögum í viðtali við danska útvarpið, DR, að lögin væru alveg skýr. „Þessar myllur verða ekki reistar, nema sóknarnefndin skipti um skoðun eða ráðherra víki frá lögunum og heimili myllurnar. En nú mætti kannski spyrja hvað sé því til fyrirstöðu að reisa myllurnar 4,2 kílómetra frá kirkjunni. Því er til að svara að skammt frá kirkjunni í Gundersted eru tvær aðrar kirkjur og fjarlægðin milli þeirra og myllustæðisins fyrirhugaða nær ekki 4,2 kílómetrum.
Ráðherra og þing vilja breyta lögum
Fjarlægðarmálið, eins og danskir þingmenn kalla það, hefur komið til kasta þingsins, Folketinget. Þessa dagana er þar til umfjöllunar frumvarp um breytingar á skipulagslögunum. Ráðherra málaflokksins, Kaare Dybvad Bek, er fylgjandi breytingunni sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Stærsta breytingin er sú að það verði ekki í höndum sóknarnefndar að stöðva eða koma í veg fyrir framkvæmdir eins og til dæmis myllurnar í Gundersted. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að úrskurðarétturinn í slíkum málum verði framvegis hjá kirkjumálaráðuneytinu. „Með því móti verði tryggt að allir sitji við sama borð, hvort sem er á Norður-Jótlandi eða Lálandi“ sagði ráðherrann í viðtali.
Þess má að lokum geta að ráðherrann hefur ákveðið að ógilda myllubann sóknarnefndarinnar í Gundersted og því geta framkvæmdirnar við nýju myllurnar sex haldið áfram, eftir átta mánaða hlé.