Kjarninn, í samstarfi við WikiLeaks, birtir í dag kjarnatexta TISA-viðræðnanna og fjóra viðauka úr þeim tengdum ákveðnum þjónustusviðum. Öll gögnin eru úr viðræðulotum sem fóru fram í apríl 2015. Tólf aðrir fjölmiðlar víða um heima birta gögnin einnig. Á meðal þeirra eru Dagens Næringsliv í Noregi, Süddeutsche Zeitung frá Þýskalandi og Libération frá Frakklandi. Þetta er í fjórða sinn sem Kjarninn birtir leynigögn úr TISA-viðræðunum.
TISA-viðræðunum er ætlað að auka frelsi í þjónustuviðskiptum. Þær hafa staðið yfir frá vormánuðum ársins 2013 og vonast þau ríki sem taka þátt í þeim að viðræðunum ljúki á næsta ári, árið 2016. Alls taka 23 aðilar þátt í þeim (Evrópusambandið, sem kemur fram fyrir sín 28 aðildarlönd, er talið sem einn aðili í viðræðunum), þeirra á meðal er Ísland.
Því eru alls 50 lönd þátttakendur í viðræðunum. Þau lönd sem taka þátt í viðræðunum eru samtals ábyrg fyrir um tveimur þriðju hluta heimsframleiðslunnar. Þjónustuviðskipti eru ábyrg fyrir um 80 prósent af þjóðarframleiðslu í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Því er ljóst að mikið er undir.
TISA stendur fyrir Trade in Services Agreement. Viðræðurnar eru marghliða og snúast um að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa. Yfirlýst markmið þeirra er að fækka hindrunum í vegi fyrirtækja sem starfa á vettvangi þjónustuviðskipta og auka gegnsæi í milliríkjaviðskiptum með þjónustu. Samningsviðræðurnar skipta Ísland miklu máli enda spanna þátttökuríkin helstu markaðssvæði íslenskra fyrirtækja.
Gögnin sem birt eru í dag eru frá WikiLeaks komin. Alls birtast þau í þrettán mismunandi fjölmiðlum víða um heim.
Einungis einn almennur alþjóðlegur samningur um þjónustuviðskipti hefur verið gerður í sögunni. Hann gengur undir nafninu GATS og gekk í gildi árið 1996. Síðan hefur ekki náðst að semja um nýja lausn sem tekur tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á heiminum undanfarna tæpa tvo áratugi.
Alþjóðasamtök starfsfólks í almannaþjónustu (PSI) hafa gagnrýnt TISA-viðræðurnar harðlega. Í skýrslu sem þau gáfu út vegna þeirra í lok apríl 2014 segir meðal annars að viðræðurnar séu vísvitandi tilraun til að auka hagnað stærstu og ríkustu fyrirtækja og þjóðríkja heims á kostnað þeirra sem verst hafa það. Verði samkomulagið að veruleika muni það auka ójöfnuð gríðarlega.
Með TISA-samkomulaginu, og öðrum slíkum yfirþjóðlegum viðskiptasáttmálum, sé verið að festa í sessi rétt fjárfesta og koma í veg fyrir að ríkisstjórnir geti gripið til aðgerða á fjölmörgum sviðum sem tengist viðskiptum. Á meðal þess sem PSI segir að TISA-samkomulagið muni hafa í för með sér er að ríkisstjórnir muni ekki geta tekið aftur yfir opinbera þjónustu ef einkavæðing hennar hafi mistekist, reglugerðir þjóða sem snúa að öryggi verkamanna verði takmarkaðar, sömuleiðis umhverfisverndarregluverk, neytendavernd og eftirlitsstarfsemi með heilbrigðisþjónustu, orkuverum, úrgangslosun og faggildingu í menntakerfinu. „Þetta samkomulag mun koma fram við farandverkamenn (e. migrant workers) sem vörur og takmarka getu ríkisstjórna til að tryggja réttindi þeirra,“ segir enn fremur í skýrslu PSI.
Úr viðræðulotu sem fór fram í apríl
WikiLeaks birtir í dag, í samstarfi við Kjarnann og tólf aðra fjölmiðla víða um heim, kjarnatextann úr TISA-viðræðunum auk þess sem fjórir viðaukar um ákveðin svið viðræðnanna eru birtir. Þetta er í fyrsta sinn sem kjarnatextinn úr viðræðunum er birtur en WikiLeaks hefur áður birt ýmsa viðauka. Í kjarnatextanum er greint frá þeim lagalegu meginatriðum sem eru undir í viðræðunum auk þess sem hann setur þá viðauka úr viðræðunum sem þegar hafa verið birtir opinberlega í samhengi.
Hægt er að lesa kjarnatextann hér.
Hver viðauki fjallar um ákveðið þjónustusvið sem er til umræðu í TISA-viðræðunum, eða hindrun sem þarf að ryðja úr vegi til að hægt sé að semja.
Einn viðaukanna sem nú er birtur fjallar um innlendar reglugerðir hvers lands fyrir sig sem tekur þátt í viðræðunum, og hvernig straumlínulaga þarf þær til að markmið viðræðanna um aukin frjáls þjónustuviðskipti nái fram að ganga. Hann er hægt að lesa hér.
Annar viðauki fjallar um það hvernig ríki aflar sér þjónustuviðskipta, hvernig útboð vegna þeirra eru birt og að það sé gert á þann hátt að allir áhugasamir aðilar sem aðild eiga að samningnum geti haft aðgengi að þeim upplýsingum. Hann er hægt að lesa hér.
Rætt um takmörkun á réttindum vinnuafls
Áhugaverðasti viðaukin sem birtur er í dag fjallar um hreyfingar einstaklinga (e. movement of natural persons) milli þeirra landa sem aðild eiga að viðræðunum, verði samningurinn að veruleika. Um er að ræða starfsfólk á vegum þeirra fyrirtækja TISA-samningarnir ganga meðal annars út á að veita meira frelsi til að vinna í öllum aðildarlöndum viðræðanna. Það er hins vegar sérstaklega tekið fram í viðaukanum að TISA-samkomulag eigi ekki að veita þessu vinnuafli greiðari aðgang að vinnumarkaði þess ríkis sem það mun starfa í við að veita þjónustu umfram það starf. Auk þess mun starfið og veran í umræddu ríki ekki veita aukin rétt til ríkisborgararéttar, búseturéttar eða annarar langtímatvinnu á vinnumarkaði ríkisins.
Í viðræðunum er meðal annars verið að semja um mörk á þann tíma sem ríki hefur til að afgreiða leyfi fyrir hið hreyfanlega vinnuafl þjónustuveitandans.
Í skjölunum sem nú eru birt sést afstaða Íslands í mörgum þáttum sem snúa að þessu umdeilda máli vel. Gullna reglan þar virðist vera sú að elta afstöðu Evrópusambandsins og Noregs, enda öll ríkin aðili að innri markaði Evrópu og bundin þeim reglum sem um hann gilda. Þar kristallast einnig afstaða ýmissa annarra ríkja sem reka aðra stefnu en flest Evrópuríki varðandi frjálst flæði vinnuafls. Ástralía, sem rekur mjög harða innflytjendastefnu, er til að mynda mjög varkár gagnvart mörgu sem um er rætt.
Hægt er að lesa viðaukann hér.
Fjórði viðaukin sem birtur er í dag snýst um gagnsæi. Tilgangur hans er sá að skylda öll ríkin sem aðild munu eiga að samningnum til að birta lög, reglur, ferla og aðra stjórnsýslulega farvegi á hátt sem er aðgengilegur fyrir önnur aðildarríki.
Í fjórða sinn sem Kjarninn birtir gögn
Þetta er í fjórða sinn sem Kjarninn birtir gögn úr TISA-viðræðunum. Í júní 2014 birti Kjarninn og ýmsir fjölmiðlar víða um heim, í samstarfi við Wikileaks, fyrstu leyniskjölin sem láku úr TISA-viðræðunum.
Í þeim kom fram að vilji væri til þess að vinda ofan af því regluverki sem sett hefur verið á fjármálaþjónustu eftir hrun, liðka fyrir veru lykilstjórnenda og sérfræðinga í fjármálageiranum í öðrum löndum en þeirra eigin umfram aðra og setja upp einhvers konar yfirþjóðlegan dómstól til að taka ákvarðanir um deilumál sem munu spretta upp á milli fjármálafyrirtækja og þjóða í framtíðinni.
Á forsíðu skjalanna sem Wikileaks lét Kjarnann hafa sagði meðal annars að ekki mætti aflétta trúnaði á þeim fyrr en fimm árum eftir að TISA-samkomulagið taki gildi eða fimm árum eftir að viðræðunum ljúki, fari svo að samningar náist ekki. Á skjölunum stendur að þau verði að „vera vistuð í lokaðri eða öruggri byggingu, herbergi eða hirslu“.
Viðræðurnar fara líka fram utan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og lúta því ekki þeim reglum sem gilda um þá stofnun. Ljóst er á skjölunum frá bæði Wikileaks og nú AWP að vilji er til þess að auka frelsi í að selja þjónustu milli landa allverulega.
Það er þó ekki vilji til þess á meðal þeirra sem fara með viðræðurnar fyrir hönd Íslands að það hvíli nein sérstök leynd yfir þeim.
Tillaga um aukna samkeppni í heilbrigðisgeira
Í byrjun febrúar greindi Kjarninn síðan frá því að tillaga hafi verið lögð fram um viðauka um að auka samkeppni um heilbrigðisþjónustu á milli landa með því að markaðsvæða þjónustuna. Samkvæmt tillögunni eru miklir ónýttir möguleikar til að alþjóðavæða heilbrigðisþjónustu, aðallega vegna þess að heilbrigðisþjónusta er að mestu fjármögnuð og veitt af ríkjum eða velferðarstofnunum. Það er því nánast ekkert aðdráttarafl fyrir erlenda samkeppnisaðila til að keppa um að veita hana vegna þess hversu lítið markaðsvætt umhverfi hennar er.
Það var samningsnefnd Tyrklands sem lagði fram tillöguna en hún var rædd í áttundu viðræðulotu TISA-viðræðnanna sem fór fram í Genf í september síðastliðnum. Vert er að taka fram að öllum löndum er frjálst að leggja fram tillögur um viðauka. Ísland og Noregur hafa til að mynda í hyggju að leggja fram tillögu um viðauka um orkuþjónustu, sem löndin tvö standa mjög framarlega í að veita.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var tekið afar dræmt í tillögu Tyrkja þegar hún var lögð fram í viðræðulotunum í september og desember á síðasta ári.
Þann 3. júní síðastliðinn birti Kjarninn síðan ný skjöl úr viðræðunum sem fjölluðu meðal annars um flutningsþjónustu í lofti, rafræn viðskipti, flæði vinnuafls, fjarskiptaþjónustu, fjármálaþjónustu og aukið gagnsæi varðandi ákvarðanir og ráðstafanir ríkisstjórna.
Mikill titringur
Fréttir af tillögunni vöktu samt sem áður heimsathygli.Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi meðal annars frá sér fréttatilkynningu þar sem hún sagði mjög skýrt að heilbrigðiskerfi aðildarríkja verði ekki einkavædd af Evrópusambandinu né í viðskiptasamningum á borð við TISA, sem sambandið gerir fyrir hönd aðildarríkja sinna.
Málið olli líka pólitísku fjaðrafoki á Íslandi. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var spurður um það í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þann 5. febrúar síðastliðinn. Hann sagði að enginn starfsmaður heilbrigðisráðuneytisins hafi aðkomu að TISA-viðræðunum, hann hafi ekkert heyrt um tillögu um viðauka við samninginn sem í fólst að fella markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu undir hann og að afstaða Íslands til þessa, sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér, hafi ekki verið borin undir hann.
Utanríkisráðuneytið brást við orðum Kristjáns með því að senda frá sér tilkynningu um að það hafi upplýst velferðarráðuneyti hans um framlagningu tillögu um viðauka við TISA-samninginn. Það hafi ráðuneytið gert 6. janúar síðastliðinn. Síðan hafi verið haldin fundur með tengiliðum úr öllum fagráðuneytum þann 14. janúar. Tengiliður úr ráðuneyti Kristjáns hefði tekið þátt í þeim fundi.
Sérstakar umræður á Alþingi
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, óskaði eftir sérstökum viðræðum um TISA-viðræðurnar á Alþingi í byrjun mars 2015. Ögmundur spurði Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra hvort samningurinn yrði borin undir Alþingi áður en að skrifað verði undir hann og hvort til greina kæmi að markaðsvæða almannaþjónustu með samningsgerðinni.
Gunnar Bragi var afdráttarlaus í tilsvörum sínum. Hann sagði að upplýsingar um markmið Íslendinga og áherslur í viðræðunum væru án nokkurs leyndar. Nú sé hægt að nálgast allar upplýsingar um framvindu þeirra á heimasíðu ráðuneytisins. Mikið samráð hefði auk þess verið við ýmsa hagsmunaaðila og utanríkismálanefnd verið upplýst reglulega.
Gunnar Bragi sagði síðan að Ísland myndi ekki gangast undir neinar skuldbindingar sem feli í sér að veita erlendum aðilum markaðsaðgang að þjónustu sem nú er í almannaþjónustu. Þar á meðal er heilbrigðisþjónusta.
Hann sjái þó ekki ástæðu til að leggja samninginn fyrir Alþingi fyrr en kemur að fullgildingu hans þar sem að TISA-samningurinn krefst ekki lagabreytinga á Íslandi. Hins vegar verði lögð fram þingsályktunartillaga um fullgildinguna.