Rúmlega 60 prósent kjósenda Vinstri grænna hafa fremur eða mjög miklar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík. Á sama tíma hafa kjósendur hinna stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, mun minni áhyggjur af því.
Alls segjast 31,2 prósent þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn hafa áhyggjur af þróuninni á meðan að 43 prósent þeirra hafa fremur eða mjög litlar áhyggjur af henni.
Á meðal kjósenda Framsóknarflokksins mælast þær áhyggjur 33,1 prósent á meðan að 36,1 prósent þeirra hafa fremur eða mjög litlar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi.
Þetta kemur fram í könnun sem Maskína gerði dagana 20. til 25. júlí. Svarendur voru 1.069 talsins.
Heilt yfir sögðust 46,2 prósent kjósenda hafa miklar áhyggjur á meðan að 27,9 prósent sögðust hafa litlar áhyggjur. Alls sögðu 26 prósent allra svarenda að áhyggjur þeirra af samþjöppun væru í meðallagi.
Í nýjustu könnun Gallup á fylgi stjórnmálaflokka kom fram að samanlagt fylgi stjórnarflokkanna þriggja sé nú 46,1 prósent, en þeir hafa allir tapað fylgi á fyrstu mánuðum kjörtímabilsins. Þeir fengu samtals 54,3 prósent þegar talið var upp úr kjörkössunum í september í fyrra.
Eldri áhyggjufyllri en yngri
Kjósendur allra stjórnarandstöðuflokka hafa mun meiri áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi í kjölfar kaupanna. Í öllum tilfellum eru þeir fleiri sem svara því til en þeir sem hafa litlar áhyggjur.
Athyglisvert er að áhyggjurnar vaxa eftir því sem svarendur eru eldri. Mestar eru þær hjá 60 ára og eldri, þar sem 60,7 prósent kjósenda segjast hafa miklar áhyggjur af þróuninni, en minnstar hjá 18 til 29 ára, þar sem 28,9 prósent eru áhyggjufullir.
Eini búsetuhópurinn sem var með fleiri sem höfðu litlar áhyggjur af samþjöppun en meiri var Austurland.
Mögulega tengdir aðilar með næstum fjórðung kvótans
Tilkynnt var um það í síðasta mánuði að Síldarvinnslan hefði keypt útgerðarfélagið Vísi í Grindavík á 31 milljarð króna.
Hluti af kaupverðinu verður greiddur með nýju hlutafé í Síldarvinnslunni og í ljósi þess að gengi bréfa í félaginu hefur hækkað síðan að tilkynnt var um viðskiptin hefur kaupverðið þegar hækkað.
Verði þessi viðskipti staðfest af hluthafafundi Síldarvinnslunnar, sem fer fram 18. ágúst, og Samkeppniseftirlitinu munu núverandi fiskveiðiheimildir Síldarvinnslunnar fara yfir það tólf prósent hámark sem hver útgerð má samkvæmt lögum halda á af úthlutuðum kvóta. Vísir hélt á 2,16 prósent af úthlutuðum kvóta þegar greint var frá því hvernig hann skiptist á milli útgerða í nóvember í fyrra. Síldarvinnslan var þá skráð með 9,41 prósent af úthlutuðum kvóta.
Þegar við bætist 1,03 prósent kvóti sem Bergur Huginn, sem Síldarvinnslan lauk kaupum á í fyrra, heldur á fer samstæðan yfir tólf prósent hámarkið.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólks sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur.
Samkeppniseftirlitið telur vísbendingar um að þessir aðilar, Síldarvinnslan, Samherji og Gjögur, eigi mögulega að teljast tengdir í skilningi laga. Þetta kom fram í ákvörðun sem eftirlitið birti í byrjun árs 2021. Þeir héldu samtals á 22,14 prósent af öllum úthlutuðum kvóta í nóvember í fyrra. Nú bætist 2,16 prósent kvóti Vísis við og samanlagður úthlutaður kvóti til Samherja og mögulegra tengdra aðila fer upp í 24,3 prósent, eða næstum fjórðung allra úthlutaðra aflaheimilda á Íslandi.
Forsætisráðherra hefur áhyggjur, líkt og kjósendur hennar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði við fjölmiðla eftir að kaupin voru kunngerð að hún hefði áhyggjur af þessari miklu samþjöppun í sjávarútvegi. „Það er mín skoðun að það þurfi að endurskoða það regluverk, bæði hvað varðar kvótaþakið og tengda eigendur […] Það þarf að ræða gjaldtökuna, ekki síst þegar við sjáum þennan tilflutning á auðmagni milli aðila.“
Katrín sagði þetta vera grundvallarástæðan fyrir því að svo margir séu ósáttir við kvótakerfið, en í könnun sem Gallup gerði í fyrrahaust kom fram að 77 prósent aðspurðra styddi að markaðsgjald væri greitt fyrir afnot af fiskimiðum þjóðarinnar. Einungis 7,1 prósent sögðust andvígt slíkri kerfisbreytingu. Aukin samþjöppun muni ekki auka sátt um greinina að mati forsætisráðherra.
Katrín sagði að á sama tíma og auðlindir hafsins væru skilgreindar sem þjóðareign þá væri að eiga sér stað samþjöppun í sjávarútvegi og að gríðarlegur auður væri safnast á fárra manna hendur. „Þetta er líka til skoðunar hjá matvælaráðherra og varðar gjaldtökuna og líka þegar um er að ræða svona tilfærslu á auðmagni eins og sést í þessu dæmi.“
Annað hljóð í hinum stjórnarflokkunum
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, hafði aðra sýn á málið. Í samtali við Fréttablaðið sagði hann marga ala á sundrungu vegna kerfisins. „Varðandi samþjöppunina þá eru lög og reglur sem gilda og samkeppnissjónarmið sem verður horft til. Nú fer þetta í þann farveg og ég vænti þess að það taki tíma og ég fylgist með eins og aðrir hvað kemur út úr þeirri athugun.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, sagði við RÚV að sjávarútvegsfyrirtækin væru að keppa á stórum markaði úti í heimi og að hann skildi „að þessi fjölskyldufyrirtæki sem hafa kannski verið í rekstri í fjörutíu, fimmtíu ár séu farin að velta því fyrir sér hvað gerist næst.“
Hann héldi að „þetta breyti svolítið þessum hugsunarhætti um að við séum með fjölbreytta útgerð ef við verðum fyrst og fremst með mjög fáa mjög stóra aðila sem allir banka í kvótaþakið að þá hlýtur það að kalla á annars konar gjaldtöku.“