Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, mun í dag mæla fyrir frumvarpi um þingfarakaup og -kostnað alþingismanna. Frumvarpið, sem er lagt fram af öllum sem sitja í forsætisnefnd og áheyrnarfulltrúum hennar, að Þorsteini Sæmundssyni, fulltrúa Miðflokksins undanskildum, hefur þann tilgang að takmarka rétt þingmanna til endurgreiðslu ferðakostnaðar í aðdraganda kosninga til Alþingis.
Samkvæmt frumvarpinu mun réttur þingmanna til endurgreiðslu á aksturskostnaði falla niður sex vikum fyrir kjördag, með tilteknum undanþágum þó. Takmarkanir munu til að mynda ekki ná til þeirra þingmanna sem hyggjast ekki gefa kost á sér áfram til setu á þingi og ef þingmaður sem verður í framboði þar að sinna opinberum erindagjörðum á vegum Alþingis innan ofangreinds tímaramma þá má hann áfram fá aksturskostnaðinn endurgreiddan.
Frumvarpið er lagt fram af ástæðu. Þingmenn hafa fengið mun hærri endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar á þeim tímabilum þar sem kosningar fara fram en öðrum. Það bendir til þess að sitjandi þingmenn sem sækjast eftir endurkjöri séu að láta Alþingi greiða þann reikning. Aðrir sem eru að sækjast eftir sæti á listum í t.d. prófkjörum, eða eru að bjóða fram fyrir nýja flokka, geta ekki gert slíkt.
Steingrímur ræddi þessa stöðu í sjónvarpsþætti Kjarnans í febrúar 2018. Þar sagði hann að ef menn hafi rukkað þingið fyrir akstur vegna prófkjörsþátttöku þá væri eðlilegast að þeir endurgreiddu þær greiðslur. „Eigum við bara að hafa það skýrt að þátttaka í prófkjörum er ekki tilefni til að senda inn eigin reikning?“
Aksturskostnaður loks opinberaður
Aksturskostnaður þingmanna hefur verið mjög til umfjöllunar á síðustu árum, eða allt frá því að forseti Alþingis svaraði fyrirspurn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um aksturskostnað. Í svari forseta var greint frá því hversu háar greiðslur þeir tíu þingmenn sem fengu hæstu skattlausu endurgreiðslurnar þáðu á síðustu fimm árum. Ekki var hins vegar greint frá nafni þeirra.
Upplýsingarnar vöktu upp mikla reiði og ásakanir um mögulega sjálftöku þingmanna. Sérstaklega þegar fyrir lá að Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafði sagst keyra 47.644 kílómetra á árinu 2017 einu saman vegna vinnu sinnar sem þingmaður, og fékk kostnað vegna þeirrar keyrslu endurgreiddan, alls 4,6 milljónir króna.
Í kjölfarið varð það krafa þings, þjóðar og fjölmiðla að allar greiðslur vegna aksturs yrðu gerðar opinberar og að þær yrðu persónugreinanlegar. Þá varð það einnig krafa að allar aðrar greiðslur sem þingmenn fá vegna starfa sinna yrðu gerðar opinberar, sundurliðaðar og mörg ár aftur í tímann. Hvort sem um væri að ræða húsnæðisstyrk, greiðslur vegna flugs eða kostnaður vegna bílaleigubíla. Allt ætti að koma upp á borðið.
Forsætisnefnd ákvað að bregðast við og allar upplýsingar um kostnað sem fylgir störfum þingmanna er nú birtur mánaðarlega.
Kjarninn greindi frá því í janúar að samtals keyrðu þingmenn landsins fyrir 23,2 milljónir króna í fyrra. Það er umtalsvert minna en árið 2019 þegar akstur þeirra sem greiddur var úr sameiginlegum sjóðum kostaði 30,2 milljónir króna. Kostnaðurinn var mjög svipaður árið 2018, eða 30,7 milljónir króna, og árið 2017, þegar hann var 29,2 milljónir króna. Hann dróst því saman um rúmlega 20 prósent á árinu 2020 miðað við árið áður.
Sá þingmaður sem keyrði mest í fyrra var áfram sem áður Ásmundur Friðriksson. Frá því að Ásmundur settist á þing árið 2013 og fram að síðustu áramótum hefur samanlagður aksturskostnaður hans verið 31,4 milljónir króna.
Mun hærri endurgreiðslur í kringum kosningar
Í janúar 2019 greindi Kjarninn frá því í fréttaskýringu að kostnaður vegna aksturs þingmanna hafi aukist mikið í kringum kosningar. Í einu vorkosningunum sem farið hafa fram frá byrjun árs 2013 fengu þingmenn mun hærri endurgreiðslur en á öðrum sambærilegum tímabilum þegar slíkar áttu sér ekki stað. Það varð augljós aukning á kröfum um endurgreiðslur kostnaðar á þeim haustmánuðum þar sem prófkjör og kosningar hafa farið fram.
Kosið var til Alþingis í apríl 2013. Á fyrri hluta þess árs voru endurgreiðslur 5,8 milljónir króna að meðaltali á mánuði eða alls 35 milljónir króna yfir hálfs árs tímabil.
Til samanburðar var kostnaður vegna endurgreiðslu á sama tímabili fyrri hluta árs 2014 23,8 milljónir króna, árið 2015 22,8 milljónir króna, árið 2016 20,2 milljónir króna, árið 2017 17,3 milljónir króna og 12,1 milljón króna á fyrstu sex mánuðum ársins í fyrra. Því liggur fyrir að síðast þegar kosningar fóru fram að vori til á Íslandi fengu þingmenn 23 milljónum krónum meira í endurgreiðslu aksturskostnaðar á fyrri hluta árs en þeir fengu á sama tímabili í fyrra. Það þýðir að þingmennirnir keyrðu næstum þrisvar sinnum meira, og fengu næstum þrisvar sinnum hærri endurgreiðslu af skattfé fyrir akstur sinn, á fyrri hluta árs þegar kosningar voru en þegar slíkar voru ekki.
Sama sagan í haustkosningum
Síðustu tvær þingkosningar hafa farið fram að hausti til, þ.e. í október 2016 og 2017.
Árið 2013 fengu þingmenn 24 milljónir króna í endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar á síðari hluta árs og ári síðar var sú tala afar svipuð, eða 24,7 milljónir króna. Árið 2015 lækkaði hún í 21,1 milljón króna en 2016, þegar kosningar voru haldnar, hækkaði hún í 24,1 milljón króna, eða um þrjár milljónir króna. Það var aukning um 14,2 prósent milli árs þar sem kosningar áttu sér ekki stað og árs þar sem slíkar voru haldnar.
Athyglisvert er þó að bera saman endurgreiddan aksturskostnað á seinni hluta ársins 2018 og ársins á undan, en á síðustu fimm mánuðum síðasta árs nam endurgreiðslan 11,6 milljónum króna. Hlé var gert á þingfundum 14. desember, sem er mjög snemmt í öllum samanburði, og því má ætla að kostnaður vegna réttmætra endurgreiðslna ætti einungis að eiga við um hálfan þann mánuð. Ef miðað er við meðaltalsendurgreiðslur fyrstu fimm mánaða tímabilsins þá má því ætla að heildarendurgreiðslu fyrir síðari hluta árs 2018 væru um 14 milljónir króna. Það þýðir að kostnaður vegna endurgreiðslu dróst saman um 20 prósent frá síðari hluta kosningaársins 2017 og sama tímabils ári síðar.