26. september næstkomandi verða 51 ár síðan hópur fólks lagði undir sig 34 hektara svæði í Kaupmannahöfn og gaf því nafnið Kristjanía. Umrætt svæði var á Kristjánshöfn og hafði verið umráðasvæði hersins sem ekki nýtti það lengur. Á svæðinu, sem var í eigu ríkisins, voru fjölmargar byggingar sem höfðu tilheyrt hernum. Á þessum tíma var mikil húsnæðisekla í Kaupmannahöfn og margir sáu sér leik á borði að setjast að í „fríríkinu“. Þar var ódýrt húsnæði í boði en jafnframt mögulegt að byggja (oft með aðstoð vina og kunningja) íbúðarhús, sem kannski uppfyllti ekki strangar kröfur byggingareglugerðar, en var þó það sem mestu skipti: þak yfir höfuðið. Húsagerðin ber þess skýr merki að þar hefur hugmyndaflug og efnahagur húsbyggjenda ráðið ferðinni en ekki strangar reglur um samræmdar götulínur og útlit. Útkoman er enda eftir því: sundurgerðarstíll sem er í algjörri mótsögn við það sem sjá má víðast hvar annars staðar.
Auglýsing
Auðvelt að ná í „grasið“
„Yfirtakan“ á Kristjaníusvæðinu kom stjórnvöldum í opna skjöldu og þetta nýja ,,fríríki“ vakti strax mikla athygli, langt út fyrir danska landsteina. Á árunum kringum 1970 var hassneysla orðin all útbreidd, þótt viðskipti með „grasið“ bryti í bága við lög. Kristjanía varð fljótlega einskonar miðstöð viðskipta með „grasið“ og þangað streymdu viðskiptavinir víða að. Ferðamannastraumurinn á áttunda áratug síðustu aldar var ekki í líkingu við það sem síðar varð en Kristjanía varð fljótlega, og er enn, meðal vinsælustu viðkomustaða ferðamanna í Danmörku, sem vildu sjá með eigin augum mannlífið í „fríríkinu“. „Grasneytendur“ í Kaupmannahöfn hafa líka gjarna lagt leið sína í Kristjaníu, straumurinn löngum stríðastur á föstudögum. Viðskiptin hafa frá upphafi að mestu verið takmörkuð við eina götu „Pusher Street“.
Frumbyggjarnir orðnir ,,hálfgerðir gamlingjar“
Upphaflega voru íbúar Kristjaníu í kringum eitt þúsund en hafa lengi verið í kringum átta hundruð. Margir þeirra sem settust að í Kristjaníu í upphafi búa þar enn, og meðalaldur íbúanna hefur, öfugt við öll önnur hverfi Kaupmannahafnar, hækkað. Skrifari þessa pistils ræddi fyrir nokkrum árum við talsmann íbúasamtaka Kristjaníu. Sá hafði búið þar frá árinu 1976, var þá liðlega tvítugur og sagðist vera dæmigerður kristjanitti, eins og íbúarnir kalla sig. Aðspurður um ástæður þess að hann, ásamt kærustunni, settist þar að sagði maðurinn að þau hefðu verið svo heppin að komast þar yfir lítið hús. Þau eignuðust tvö börn og endurbættu og stækkuðu húsið þar sem þau bjuggu enn þegar pistilskrifari ræddi við hann, „nú að verða hálfgerðir gamlingjar“ eins og maðurinn orðaði það. Hann var útlærður rafvirki og hafði alla tíð unnið sem slíkur í Kaupmannahöfn. Að sögn hafði aldrei komið til tals að flytja úr Kristjaníu og maðurinn bætti því við að hann hefði aldrei reykt neitt sterkara en Prince sígarettur, en væri fyrir löngu hættur því. Annað barna hans, sonur sem er verkfræðingur, býr í Kristjaníu en dóttirin býr skammt frá, á Kristjánshöfn. Saga þessa manns er líklega dæmigerð, flestir sem setjast að í Kristjaníu vilja hvergi annars staðar vera.
Alla tíð umdeild
Kristjanía hefur alla tíð verið umdeild. Lögregla og stjórnvöld iðulega gagnrýnd fyrir linkind og umburðarlyndi. Í Kristjaníu liðist margt sem ekki væri umborið annars staðar og nauðsynlegt væri að „hreinsa til og losna við þennan skríl“. Ummæli af þessu tagi mátti iðulega sjá og heyra í fjölmiðlum en mjög hefur dregið úr slíku í seinni tíð. Íbúarnir bjuggu lengi við mikla óvissu um framtíð svæðisins „maður veit aldrei með þessa pólitíkusa“ sagði einn kristjanitti í viðtali við danska útvarpið árið 2010, og mælti þar líklega fyrir munn margra íbúa. Málefni og framtíð Kristjaníu hafa margoft komið til umræðu í danska þinginu, en það hefur litlu breytt.
Fast land undir fótum eftir 41 ár
Árið 2011, réttum 40 árum eftir að „fríríkið“ varð til náðist samkomulag um kaupsamning milli ríkisins og íbúa Kristjaníu. Samkomulagið var formlega undirritað og staðfest í byrjun júlí 2012. Seljandinn var danska ríkið og kaupandinn Fristaden Christiania. Kaupverðið var 76.3 milljónir danskra króna (1,4 milljarðar íslenskir á núvirði), sem greiða skyldi á 30 árum. Mikla athygli vakti að í samningnum var ákvæði sem kvað á um ríkisábyrgð á láninu, sem sé að svæðið skyldi ekki tekið af kristjanittunum ef svo færi að þeir gætu ekki staðið í skilum með afborganir. Fyrir íbúa Kristjaníu var samningurinn mikilvægur, því með honum var framtíð svæðisins tryggð og jafnframt að yfirbragð þess yrði með svipuðum hætti og verið hafði frá upphafi. Fyrir ríkið var líka mikilvægt að ljúka áralöngum deilum. Árið 2017 reyndi á samkomulagið þegar nýr reiðhjólastígur var lagður þvert yfir hluta Kristjaníusvæðisins, stígur þessi tengist hjóla- og göngubrú frá Nýhöfninni og út á Amager. Kristjanittarnir voru mótfallnir lagningu stígsins en með samningnum höfðu þeir skuldbundið sig til að hlíta almennum skipulagsreglum og stígurinn er vinsæll og mikið notaður af hjólreiðafólki. Rétt er að taka fram að samningurinn náði einungis til hluta svæðisins sem áður tilheyrði hernum, stór hluti þess var áfram í eigu ríkisins.
Tíu ára ákvæðið
Þegar samkomulagið um Kristjaníu var gert árið 2012 var í því ákvæði um að 10 árum síðar skyldi samkomulagið endurskoðað. Þessa dagana eru kristjanittarnir að skoða tilboð ríkisins. Tilboðið gengur í stuttu máli út á að íbúar Kristjaníu samþykki að byggðar verði leiguíbúðir, samtals um 15 þúsund fermetrar á svæðinu sem nú tilheyrir áðurnefndum Fristaden Christiania. Þær verði leigðar út samkvæmt gildandi úthlutunarreglum sveitarfélagsins Kaupmannahafnar. Í staðinn býðst Fristaden Christiania að kaupa aukið landsvæði og byggingar sem þar eru fyrir 67 milljónir danskra króna (1,2 milljarða íslenska) á langtímaláni með ríkisábyrgð. Ennfremur myndi ríkið standa straum af útgjöldum vegna viðgerða og endurbóta á tveimur friðuðum byggingum á svæðinu. Ennfremur eru í tilboði ríkisins möguleiki á láni, (upphæðin ekki tilgreind) til endurbóta og nýbygginga.
Þegar málið var til meðferðar í danska þinginu, Folketinget, urðu um það miklar umræður en samkomulagsdrögin að lokum samþykkt. Fyrir nokkrum dögum greindi dagblaðið Berlingske frá óánægju nokkurra þingmanna sem töldu þann samning sem lagður hefði verið fram ekki í samræmi við samkomulagið sem gert var í þinginu. Þegar þessar línur eru settar á blað liggur ekki fyrir hvort kristjanittarnir samþykkja tilboð ríkisins. Því þurfa þeir að svara fyrir 29. ágúst næstkomandi. Ef íbúar Kristjaníu samþykkja tilboðið kemur það væntanlega aftur til kasta þingsins.