„Af samkeppnisástæðum afhendum við ekki arðsemisútreikninga einstakra verkefna,“ segir í svari Ragnhildar Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, við beiðni Kjarnans um að fá afhent arðsemismat það sem liggur fyrir vegna áformaðra stækkana þriggja virkjana á Þjórsársvæðinu. Landsvirkjun hefur sagt að framkvæmdirnar verði arðbærar þrátt fyrir að stækkun Vatnsfells-, Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjana leiði ekki til aukinnar raforkuframleiðslu. Til að svo megi verða þurfi að renna meira vatn í gegnum þær. Þrennt getur uppfyllt þá þörf: Bráðnun jökla, sem er fyrirséð vegna loftslagsbreytinga, meiri úrkoma og ný veita.
Þetta er ekki endilega það sem allir áttu von á er Landsvirkjun kynnti hugmyndir sínar um að stækka virkjanirnar þrjár. Því var fagnað að bæta ætti vinnslugetu virkjana sem fyrir væru í viðkvæmri náttúru Íslands í stað þess að byggja nýjar. Að með stækkun virkjana væri hægt að svara aukinni orkuþörf án þess að brjóta nýtt land, eins og stundum er sagt. Án þess að stífla fleiri ár. Minnka rennsli fleiri fossa. En sú er ekki raunin – að óbreyttu.
Lögum breytt til að stækka án rammaáætlunar
Til að liðka fyrir stækkunum virkjana var lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun breytt á lokametrum þingsins og þurfa slíkar framkvæmdir ekki lengur að fara í gegnum ferli rammaáætlunar, svo framarlega sem þær feli ekki í sér rask á óröskuðu landi. „Með því að undanskilja stækkanir á virkjunum sem eingöngu hafa áhrif á það landsvæði sem þegar er búið að taka ákvörðun um að heimila nýtingu á verður hægt að hraða framkvæmdum til að auka afkastagetu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri,“ sagði í greinargerð frumvarpsins.
Samtals hyggst Landsvirkjun auka uppsett afl virkjananna þriggja um 210 MW en áætlað er að samanlögð orkuvinnslugeta myndi með þessu aðeins aukast um 25–42 gígavattstundir (GWst) á ári. „Athygli vekur að aukning í orkuvinnslugetu vatnsaflsvirkjananna þriggja er lítil miðað við hve uppsett afl eykst mikið,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu. Í venjulegu árferði hefði vatnsaflsvirkjun með uppsett afl 210 MW orkuvinnslugetu upp á um 1300 GWst á ári. „En því er ekki að heilsa hvað þessar áformuðu stækkanir Landsvirkjunar áhrærir.“
Og þessi staðreynd vakti athygli annarra en höfunda frumvarpsins. Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið lögðust yfir fyrirætlanir Landsvirkjunar og telja að stækkanirnar séu hluti af stærri áformum – áformum um nýja virkjun á vatnasviði Þjórsár, skammt frá mörkum friðlandsins í Þjórsárverum. Landsvirkjun ætli með stækkununum að fara „bakdyramegin í Kjalölduveitu“. Stækkanirnar séu „óarðbærar og gagnslausar“ nema að fyrirtækið fari einnig í þá framkvæmd. „Án þess að fá viðbótarvatn úr Þjórsá yrði viðbótarraforkuframleiðsla alltof lítil til að bera sig fjárhagslega,“ sögðu samtökin Náttúrugrið í fréttatilkynningu nýverið.
Kostnaður 6-8 sinnum meiri en mögulegar tekjur
Máli sínu til stuðnings vísuðu þau í arðsemismat sem Sigurður Jóhannesson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Íslands, vann að beiðni þeirra. Hann mat núvirtar framtíðartekjur af þeim á bilinu 600–2.500 milljónir króna miðað við hagrænan afskriftartíma upp á 25 ár. Til samanburðar yrði kostnaður við framkvæmdirnar samanlagt vart undir 15–20 milljörðum, eða um 5–7 milljarðar króna á hverja stækkun. Kostnaður yrði því um 6–8 sinnum meiri en mögulegar tekjur og væri þar þá ekki tekið tillit til vaxtakostnaðar eða orkusölutaps meðan á framkvæmdum stæði.
Landsvirkjun hefur ítrekað hafnað því að Kjalölduveitu þurfi til svo að stækkanirnar verði arðsamar. Stjórnendur fyrirtækisins neita því hins vegar ekki að sú virkjun myndi bæta nýtingu vatns á svæðinu, „og þar með arðsemi bæði núverandi virkjana og stækkana á þeim,“ líkt og fram kom í minnisblaði Landsvirkjunar sem sent var umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í byrjun mánaðarins er frumvarp um lagabreytinguna var þar til umfjöllunar. Engu að síður væri Kjalölduveita „ekki forsenda slíkra stækkana“.
Orkuskipti, vindorkan og bráðnun jökla
Ástæða þess að Landsvirkjun er að skoða að stækka vatnsaflsvirkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu er „að þörf er á því að auka afl í kerfi fyrirtækisins og þar með sveigjanleika til að mæta breytilegri eftirspurn,“ skrifaði Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, í minnisblaðinu. Nú væri staðan sú að aflþörf á Suðvesturlandi væri hærri en vinnslugeta sem valdi aukinni áhættu í raforkuafhendingu. „Orkuskipti, fjölbreyttari raforkunotendur en stóriðja, og framtíðaruppbygging vinds kalla á meiri sveigjanleika í raforkuvinnslu. Jafnframt til að nýta jökulbráðnun af völdum hnattrænnar hlýnunar í núverandi virkjunum þá þarf að auka afl þeirra.“
Afl í raun uppurið í kerfinu
Á nýliðnum vetri voru vinnslumet ítrekað slegin í kerfi Landsvirkjunar þegar vinnslan fór í fyrsta sinn yfir 1900 MW „og við þær aðstæður var afl í raun uppurið í kerfinu,“ skrifaði Gunnar Guðni Tómasson, framkvæmdastjóri vatnsafls hjá Landsvirkjun, í aðsendri grein í Kjarnanum nýverið. „Hætt er við að á komandi vetri geti orðið aflskortur í kerfinu sem leitt getur til þess að grípa þurfi til skerðinga hjá viðskiptavinum Landsvirkjunar jafnvel þótt nægilegt vatn verði í miðlunarlónum.“
Það er m.a. til að bregðast við þessum aðstæðum sem Landsvirkjun er að skoða möguleika á stækkun virkjana á Þjórsársvæði, skrifar Gunnar Guðni. Ljóst er hins vegar að virkjanirnar verða ekki stækkaðar, ef til framkvæmda kemur yfir höfuð, fyrr en að umhverfismati þeirra lýkur. Það ferli getur tekið fleiri mánuði.
Umframorka „getur verið til staðar“
Kostnaðarverð aflsetningar tekur mið af kostnaði og ábata Landsvirkjunar af framkvæmdinni, útskýrir Kristín Linda í fyrrgreindu minnisblaði sem hún ritaði eftir að umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir skýrari svörum um forsendur þess að ráðast þyrfti í stækkanirnar. Meginkostnaðarliðir eru fjárfesting í upphafi, skrifar hún, fjármagnskostnaður, skattar og rekstrarkostnaður á líftíma eignarinnar. „Til ábata telst sala á afli til að mæta álagstoppum og til að jafna vindorkuvinnslu, en einnig getur verið til staðar umframorka sem sameiginlega mynda tekjur í verkefninu.“
Kostnaður og ábati séu svo færð á núvirði með ávöxtunarkröfu Landsvirkjunar til að reikna út kostnaðarverðið. „Þau stækkunar og aflaukningarverkefni sem Landsvirkjun ræðst í þurfa hverju sinni að skila arðsemi í samræmi við kröfur eiganda Landsvirkjunar,“ heldur hún áfram, og ítrekar að endingu að kostnaðarverð fyrir allar stækkanir og aflaukningar í virkjunum á Þjórsársvæði séu skoðaðar „óháð Kjalölduveitu“.
Einn nefndarmanna, Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, taldi minnisblaðið ekki staðfesta arðbærni stækkananna sem sjálfstæðra framkvæmda. Álit meirihluta nefndarinnar var annað. Með hliðsjón af skýringum Landsvirkjunar yrðu þær arðbærar „einar og sér“ og án Kjalölduveitu.
Lítil viðbótar orka „skiptir litlu máli“
Arðsemi stækkunarverkefna byggir eingöngu á því afli eða sveigjanleika sem þau bæta við kerfið og verðlagning á markaði verður að taka mið af því, skrifaði Gunnar Guðni í sinni grein. „Sú litla orkuvinnsla sem bætist við í kerfinu samfara þessum stækkunum skiptir litlu máli í þessu sambandi og hún er ekki forsenda fyrir því að ráðast í slík verkefni. Það er því misskilningur að þessi verkefni séu ekki arðbær án aukins rennslis til virkjananna. Þvert á móti þurfa þau að vera arðsöm án aukins rennslis til virkjananna og í þau verður ekki ráðist án þess að sú arðsemi sé tryggð.“
Ef Landsvirkjun á að hafa verulegar tekjur af stækkununum verður verðlagning á rafmagni að breytast, skrifar Sigurður, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, í áliti því sem hann gaf Náttúrugriðum á arðsemi stækkananna. Erlendis sé rafmagnsverð síbreytilegt – hæst þegar eftirspurnin er mest. En slíku er ekki að heilsa hér á landi. Verðlagningin er, að sögn Sigurðar, „frumstæðari“ en í grannlöndunum. „Heildsöluverð er tregbreytilegt og varla hægt að segja að það taki mið af framboði og eftirspurn. Meginástæðan er yfirburðastaða Landsvirkjunar, sem í raun er einráð á heildsölumarkaði.“
Lög gera ráð fyrir að Landsnet reki markað með rafmagn. Slíkur markaður hefur að sögn Sigurðar nokkrum sinnum verið boðaður, enn ekkert hefur enn orðið úr þeim ráðagerðum.
Umhverfismat hafið
„Með þessari aflaukningu eykst orkuvinnslugeta stöðvarinnar aðeins lítillega nema að til komi meira rennsli, til dæmis með aukinni bráðnun jökla eða aukinni úrkomu,“ segir Landsvirkjun í nýframlagaðri matsáætlun vegna stækkunar Sigölduvirkjunar um allt að 65 MW. Þar með er hafið umhverfismat á stækkun fyrstu virkjunarinnar af þremur.
„Ákvörðun um hvort ráðist verði í þessar framkvæmdir verður ekki tekin fyrr en mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir og fer að sjá fyrir endann á leyfisferlum, sem getur tekið drjúgan tíma eins og dæmin sanna,“ segir í svari Ragnhildar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar, við beiðni Kjarnans um að fá arðsemisútreikninga stækkunaráformanna afhenta. „Verði ákveðið að ráðast í framkvæmdir þá á enn eftir að leita tilboða í verkþætti og svo framvegis.“
Og af samkeppnisástæðum afhenti Landsvirkjun ekki arðsemisútreikninga einstakra verkefna.