Frá ársbyrjun 2011 hefur leiguverð íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 41 prósent á sama tíma og kaupverð íbúða hefur hækkað um 42 prósent. Frá sjónarhóli leigusala þá getur leiguverð ekki verið öllu lægra en það er í dag miðað við verð á húsnæði og kostnaði við að reka það, að mati hagfræðideildar Landsbankans. Fjallað er um íbúðaverð, leiguverð og húsaleigubætur í nýrri hagsjá deildarinnar sem birt var í dag.
„Umræða síðustu missera hefur yfirleitt gengið út á að hækkanir á húsaleigu væru verulegar og umfram aðrar hækkanir. Tölurnar sýna hins vegar að húsaleiga og kaupverð á fjölbýli hafa haldist vel í hendur á síðustu árum,“ segir hagfræðideildin.
„Umræðan gengur líka út á að húsaleiga sé allt of há, allavega séð frá sjónarhóli þess sem leigir. Um það virðast flestir sammála og undir það sjónarmið er tekið af mörgum stjórnmálamönnum. Séð frá sjónarhóli leigusala fæst hins vegar sú mynd að leiguverð geti ekki verið öllu lægra miðað við verð á húsnæði og kostnað við að reka það. Leigustarfsemi er nú orðin formlegri en áður var og hefur eiginlegum leigufélögum fjölgað og þá hafa fjárfestar leitað meira inn á fasteigna- og leigumarkað í leit að ávöxtun.“
Samkvæmt mælingum Þjóðskrár þá hækkaði húsaleiga um 1,4 prósent á höfuðborgarsvæðinu milli janúar og febrúar. Hækkun húsaleigu síðustu þrjá mánuði nemur 0,8 prósenutm og 9,1 prósenti síðustu tólf mánuði. Á sama tíma hefur kaupverð fjölbýlis hækkað um 4,1 prósent á síðustu þremur mánuðum og um 11,6 prósent á síðustu tólf mánuðum. Grafið hér að ofan sýnir vísitölur Þjóðskrár um leiguverð og kaupverð íbúðahúsnæðis frá ársbyrjun 2011. Þær hafa báðar verið stilltar í 100 við byrjun tímabilsins.