Þegar turnklukka kirkjunnar í Frederikshavn á Norður- Jótlandi sló tólf á hádegi 24. október síðastliðinn leysti áhöfnin á freigátunni Esbern Snare landfestar. Skipið var að leggja í langferð, fimm mánaða úthald fjarri ættjörðinni. Áhöfnin, 175 manns, vissi að mánuðirnir framundan yrðu ekki nein skemmtiferð, ferðinni var heitið til Gíneuflóa.
Mikilvæg en hættuleg siglingaleið
Gíneuflóinn er gríðarmikill flói undan vesturströnd Afríku, um það bil 2.350.000 ferkílómetrar, jafngildir rétt tæplega 23 sinnum stærð Íslands.
Gíneuflói er mikilvæg siglingaleið en daglega fara þar um hundruð skipa. Flóinn er jafnframt talinn ein hættulegasta siglingaleið í heimi. Það er þó hvorki veðurfar né blindsker sem ógna sæfarendum, heldur sjóræningjar.
Á síðasta ári voru skráð 130 sjórán í Gíneuflóa, það eru um það bil 95% allra sjórána í heiminum það ár. Þar við bætast fjölmargar tilraunir sjóræningja til að ráðast á skip en ekki haft árangur sem erfiði. Tjón vegna sjórána er talið nema jafngildi hundruðum milljarða króna árlega.
Það var á þessar slóðir sem för Esbern Snare var heitið þegar haldið var úr höfn 24. október. Um borð voru, auk hinnar venjulegu áhafnar, sérþjálfaðir froskmenn, og ennfremur Seahawk þyrla.
Af hverju dönsk freigáta?
Danir eru í fimmta sæti þeirra þjóða sem gera út flest fragtskip, í dag sigla um það bil 800 undir dönskum fána.
Daglega fara 30 – 40 dönsk skip um Gíneuflóann. Á síðasta ári urðu nokkur dönsk skip fyrir barðinu á sjóræningjum, en áhafnirnar sluppu í öll skiptin heilar á húfi.
Danski flotinn hafði áður tekið þátt í gæslu á hafsvæðinu við austurströnd Afríku, á Adenflóa, og áhöfn Esbern Snare vissi vel við hverju mætti búast.
Ákvörðunin um að senda danska freigátu til Gíneuflóa var tilkynnt á fréttamannafundi 16. mars sl. Þá tilkynntu Trine Bramsen varnarmálaráðherra og Jeppe Kofod utanríkisráðherra að ríkisstjórnin hefði ákveðið að með haustinu yrði sent eitt herskip til eftirlits á þessu erfiða og hættulega hafsvæði, eins og ráðherrarnir komust að orði.
Í viðtali við danska öryggis- og varnarmálatímaritið OLFI lýsti Maria Skipper Schwenn, öryggismálastjóri Samtaka dönsku skipaútgerðanna, ánægju með ákvörðun dönsku ríkisstjórnarinnar. Hún sagði að sjóræningjar færi sig stöðugt upp á skaftið, þeir séu betur vopnum búnir, hafi betur búna báta til umráða og verði sífellt illskeyttari. Allt valdi þetta áhyggjum og ótta skipshafna, fyrir utan þann kostnað sem fylgi þegar skip komast ekki leiðar sinnar dögum og jafnvel vikum saman.
Flóknara verkefni
Á áðurnefndum fréttamannafundi kom fram að eftirlit á Gíneuflóa væri flóknara en á Adenflóa. Á síðarnefnda svæðinu væri fyrst og fremst gegnumstreymisumferð skipa sem hefðu ekki viðkomu í höfnum á svæðinu. Umferðin á Gíneuflóa væri meira þvers og kruss, eins og fulltrúi samtaka skipaútgerðanna komst að orði. Jeppe Kofod utanríkisráðherra minntist sömuleiðis á að landhelgi landa sem liggja að Gíneuflóa, 12 mílur, setji baráttunni við sjóræningja vissar skorður. Danskt herskip hafi ekki leyfi til að ráðast gegn, eða handtaka fólk, í þessu tilviki sjóræningja, innan 12 mílna landhelgi annarra landa.
Fréttamenn spurðu ráðherrana um kostnaðarhlið verkefnis sem þessa. Svörin voru þau að verkefni af þessu tagi kosti mikið og í varnar- og öryggismálum sé í mörg horn að líta. Varnarmálaráðherrann sagði að flotinn hefði ekki bolmagn til að halda úti mörgum skipum við eftirlit og öryggisgæslu misserum og jafnvel árum saman. Fjármagn til þessa tiltekna verkefnis, sem stæði í fimm mánuði væri tryggt.
24. nóvember
Sigling Esbern Snare suður til Gíneuflóa gekk vel og fátt bar til tíðinda. Það breyttist hins vegar 24. nóvember, réttum mánuði eftir að lagt var upp frá Danmörku. Þann dag fékk áhöfnin á Esbern Snare veður af því að ekki langt frá væri bátur á siglingu. Þyrlan var send á loft og áhöfnin kom strax auga á umræddan bát. Um borð sáust átta menn og ýmiss konar búnaður sem tilheyra „verkfærakassa“ sjóræningja, t.d. stigar. Hraðskreiður gúmmíbátur, með sérþjálfuðu froskmennina var sendur áleiðis. Þegar gúmmíbáturinn var kominn í kallfæri við ókunna bátinn kallaði yfirmaður froskmannanna gegnum gjallarhorn til áhafnar ókunna bátsins. Þegar ekkert svar barst skaut áhöfn gúmmíbátsins viðvörunarskotum upp í loftið. Því var svarað með skothríð frá ókunna bátnum. Eftir stuttan skotbardaga, þar sem fjórir úr áhöfn ókunna bátsins lágu í valnum og sá fimmti sár, gáfust mennirnir á ókunna bátnum upp, en bátur þeirra sökk í hafið. Lík hinna föllnu og þeir fjórir sem eftir lifðu voru fluttir um borð í Esbern Snare.
Allt eftir bókinni
Líkunum var komið fyrir í sérstökum kæli- eða frystigeymslum en föngunum fjórum í sérstökum „fangaklefum“ um borð. Um meðferð fanganna og hinna látnu er fylgt alþjóðalögum, sem Danmörk hefur skuldbundið sig til að hlíta. Ef fangarnir hafa sérstakar matarvenjur, eða vilja halda sérstakar bænastundir og fleira í þeim dúr ber Dönunum að virða allt slíkt.
Í viðtali við dagblaðið Politiken sagði Kristina Maria Siig háskólaprófessor að samkvæmt hafréttarlögum hefðu Danirnir verið í fullum rétti, ókunni báturinn hefði verið utan við 12 mílur og áhöfn hans hefði átt upptökin að átökunum. Þar að auki hefði danska þingið, Folketinget, veitt áhöfninni á Esbern Snare leyfi til að beita valdi, í sjálfsvörn, og ef ráðist yrði á dönsk skip.
25. nóvember, daginn eftir handtöku þeirra fjögurra sem lifðu af bardagann við Danina, voru þeir úrskurðaðir í 13 daga gæsluvarðhald, í Bæjarrétti Kaupmannahafnar.
Vilja ekki rétta yfir mönnunum í Danmörku
Ekki hefur verið upplýst um þjóðerni áttmenninganna sem voru um borð í ókunna bátnum. Einungis sagt að þeir væru afrískir. Dönsk stjórnvöld vilja gjarna losna við að rétta yfir föngunum. Enn sem komið er hefur ekkert ríki í Afríku lýst sig reiðubúið til að taka við föngunum. Dönsk stjórnvöld eiga hins vegar í viðræðum við „nokkur ríki“ eins það var orðað í svari við spurningum blaðamanns. Ekki fengust nákvæmari svör um hvaða ríki það væru.
Engir samningar
Danskir blaðamenn telja sig vita að dönsk stjórnvöld hafi verið í sambandi við stjórnvöld í Nígeríu varðandi fangana.
En málið er ekki svo einfalt að Danir geti, bara sisvona, afhent yfirvöldum í viðkomandi landi fangana. Fyrst verða dönsk stjórnvöld að fullvissa sig um að fangarnir fengju réttláta málsmeðferð, myndu ekki sæta pyntingum í heimalandinu, og ekki hljóta dauðadóm.
Lögfræðingurinn Rasmus Sølberg, sérfræðingur í sjó- og alþjóðarétti sagði að dönsk stjórnvöld séu í vanda stödd varðandi fangana. Engir samningar hafi verið gerðir við ríki sem liggi að Gíneuflóa varðandi hugsanlega fanga. Danir vilji komast hjá að rétta yfir föngunum í Danmörku. Hann benti á að Hollendingar hefðu fyrir nokkru handtekið sjóræningja á Gíneuflóa og réttað yfir þeim í Hollandi. Það mál endaði þannig að sjóræningjarnir sóttu um, og fengu, hæli í Hollandi. „Dönsk stjórnvöld kæra sig lítt um slíka jólagjöf,“ sagði Rasmus Sølberg.
Eins og nefnt var í upphafi þessa pistils lónar Esbern Snare nokkuð frá landi á Gíneuflóa, utan 12 mílna landhelgi. Svar upplýsingaþjónustu flotans við spurningu blaðamanns um hve lengi fangarnir og líkin verði um borð í Esbern Snare var stutt og laggott „þangað til lausn er fundin“.