Lúxuslosun hinna ríku ógnar loftslagsmarkmiðum
Hærri tekjur leiða til aukinnar neyslu og þar af leiðandi stærra kolefnisfótspors einstaklinga. Losun ríkustu 10 prósent jarðarbúa nægir ein og sér til að markmiði Parísarsáttmálans verði ekki náð. Þetta kemur fram í nýlegri skýrslu Oxfam. Höfundar skýrslunnar segja ljóst að draga þurfi úr ójöfnuði í heiminum ef leysa eigi loftslagsvandann.
Á loftslagsráðstefnunni í Glasgow á síðasta ári sammældust þjóðarleiðtogar um mikilvægi þess að halda hlýnun andrúmsloftsins undir 1,5°C í samræmi við markmið Parísarsáttmálans. Ljóst er að ef hlýnun jarðar fer yfir 1,5°C mun það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir jarðarbúa, lífríki og vistkerfi á jörðinni.
Skýrsla Oxfam, sem byggir á greiningum frá Institute for European Environmental Policy og Stockholm Environment Institute, leiðir hins vegar í ljós að árið 2030 mun ríkasta 1% jarðarbúa vera með 30 sinnum stærra kolefnisfótspor en samræmist hlýnunarmarkmiði Parísarsáttmálans.
Loftslagsnýlendustefna
Stór gjá er á milli þeirra sem bera ábyrgð á loftslagsbreytingum og þeirra sem mest munu finna fyrir afleiðingunum. Hnattræna „norðrið“ (e. Global north) – sem samanstendur af vestrænum, iðnvæddum ríkjum – ber ábyrgð á lunganum af sögulegri losun gróðurhúsalofttegunda, sem og 92% af umframlosun gróðurhúsloftegunda. Umframlosun vísar til losunar sem er umfram það sem talin eru örugg mörk (e. safe boundaries) og hefur verið verið vísað til þessarar umframlosunar sem kolefnis- eða loftslagsnýlendustefnu.
Afleiðingar loftslagsbreytinga munu hins vegar bitna mest á fátækum þjóðum á suðurhveli jarðar (e. Global south) sem bera minnsta ábyrgð, ef nokkra, á loftslagsbreytingum. Þá eru minnihlutahópar eins og konur, frumbyggjar og svart fólk sérstaklega berskjaldaðir fyrir afleiðingum loftslagsbreytinga.
Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gerir ráð fyrir því að fyrir árið 2030 látist um 240 þúsund einstaklingar ár hvert sökum loftslagsbreytinga. Það gera um 600 dauðsföll á hverjum degi. Gert er ráð fyrir því að dauðsföll sökum loftslagsbreytinga muni aukast enn frekar á komandi áratugum og mögulega valda allt að milljónum dauðsfalla ár hvert á seinni hluta þessarar aldar.
Ríkasta 1% hefur náð yfirráðum á kolefniskvótanum
Í fyrrnefndri skýrslu Oxfam er neysludrifin losun mismunandi tekjuhópa áætluð fyrir árið 2030. Niðurstöðurnar sýna að hærri tekjur leiða til aukinnar neyslu og þar af leiðandi stærra kolefnisfótspors einstaklinga. Þannig er tekjuójöfnuður beintengdur kolefnisójöfnuði en samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar er kolefnisójöfnuður í heiminum gríðarlega mikill. Ríkasti hluti mannkyns gengur á kolefniskvóta heimsins – þ.e. magn kolefnis sem mannkynið má losa áður en hlýnun jarðar fer yfir 1,5 gráðu – og skilur lítið eftir fyrir fátækari samfélög. Það eru lönd sem hafa litla sem enga sögulega losun en þurfa hluta af kvótanum til að komast úr fjötrum fátæktar.
Þá er því spáð að árið 2030 muni ríkasta 1% mannkyns, um 80 milljónir manns, vera með 25% stærra kolefnisfótspor en árið 1990. Ennfremur mun þessi agnarsmái hluti mannkyns vera með 16 sinnum stærra kolefnisfótspor en meðal-kolefnisfótsporið og 30 sinnum stærra en samræmist 1,5°C markmiðinu. Á sama tíma mun losun fátækasta 50% mannkyns vera vel undir markmiðum Parísarsáttmálans.
Það er þó ekki bara hið ofurríka 1% sem gengur á kolefniskvótann. Milli áranna 1990 og 2015 notaði ríkasta 10% mannkyns fjórðung af kolefniskvótanum á meðan fátækustu 50% jarðarbúar notuðu minna en 5% af kvótanum. Árið 2030 er áætlað að losun ríkasta 10% mannkyns verði 10 sinnum meiri en markmið Parísarsáttmálans segja til um og mun þessi tekjuhópur því ganga svo á kolefniskvótann að það skilur varla eftir neitt svigrúm fyrir hin 90% jarðarbúa. Þetta þýðir að losun 10% ríkustu nægir ein og sér til að markmiði Parísarsáttmálans verði ekki náð, sama hvað hin 90% mannkyns gera.
Lífstílstengd losun
Skýrsla Oxfam byggir á greiningu um neysludrifna kolefnislosun einstaklinga. Stór hluti losunar þeirra ríkustu stafar af kolefnisfrekum samgöngumátum: stórum bílum, snekkjum og einkaflugvélum. Rannsóknir hafa meðal annars sýnt að einungis 1% mannkyns ber ábyrgð á helmingi losunar frá flugi.
Þá ber einnig að nefna þá miklu orku og auðlindanotkun sem felst í að eiga stærra heimili og í mörgum tilfellum, fleira en eitt heimili. Lífstílstengd losun þeirra ríku er gríðarleg en höfundar skýrslunnar benda einnig á að þessi hópur fjárfesti síður í grænum lausnum og í krafti auðs hefur þessi hópur mikil pólitísk áhrif. Þau sem hafa meiri peninga og völd verða minna fyrir áhrifum loftslagsbreytinga og leggja því minni áherslu á aðgerðir gegn þeim.
Taka þarf á ójöfnuði ef leysa á loftslagsmálin
Emily Gosh, einn af höfundum skýrslunar, segir niðurstöðurnar fyrst og fremst sýna skýr tengsl milli tekna fólks og kolefnisfótspors þeirra. „Það er kerfisbundið óréttlæti til staðar sem leiðir til ósjálfbærs lífstíls þeirra ríkustu og þar af leiðandi mikillar losunar,“ segir hún.
Í umfjöllun BBC um loftslagsóréttlæti bendir Dr. Lewis Akenji á að einstaklingsbundnar neysluvenjur sem lausn á loftslagsbreytingum sé viðkvæmt umræðuefni. Það er, hvort að einstaklingar beri ábyrgð á því að leysa loftslagsvandann með breyttri neysluhegðun eða hvort að það sé undir stjórnvöldum og stórfyrirtækjum komið. Akenji segir þetta ekki vera spurningu um annað hvort eða - lífsstíll og neysluvenjur eigi sér ekki stað í tómarúmi. Lífsstíll og neysla mótast af samhengi og fólk lifir lífi sínu innan þess ramma sem stjórnmála- og efnahagskerfið mótar.
Aimee Ambrose, höfundur nýlegrar rannsóknar um loftslagsáhrif þeirra ríku, segir í samtali við The Guardian að ósjálfbær neysla sé einfaldlega ekki á stefnuskrá ríkisstjórna og stefnumótenda. Með því að taka ekki á ofneyslu þeirra ríkustu eru stefnumótendur að fara á mis við tækifæri til að draga úr ójöfnuði og þar með losun gróðurhúsalofttegunda.
Löngum hefur verið vitað að tekjuójöfnuður, neysla og losun gróðurhúsalofttegunda eru nátengd. Skýrsla Oxfam sýnir að tekjuójöfnuður leiði til kolefnisójöfnuðs að það miklu marki að það grefur undan getu alþjóðasamfélagsins til að ná markmiðum Parísarsáttmálans. Samkvæmt höfundum rannsóknarinnar er sá mikli ójöfnuður sem ríkir í dag einfaldlega ósjálfbær. Því sé óhjákvæmilegt að vinna gegn ójöfnuði ef leysa á loftslagsvandann.
Lesa meira
-
10. janúar 2023Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
5. janúar 2023Öfgafullar hitabylgjur 160 sinnum líklegri vegna loftslagsbreytinga
-
4. janúar 20232022: Ár raunsæis
-
23. desember 2022Trú og náttúra
-
22. desember 2022Tíu jákvæðar fréttir af dýrum
-
18. desember 2022Kemur að skuldadögum
-
17. desember 2022Vilja flytja út íslenska orku í formi fljótandi metangass
-
13. desember 2022Vindurinn er samfélagsauðlind