Tugir lögreglumanna eru særðir eftir mikil átök í Svíþjóð undanfarna daga sem einkennst hafa af óeirðum, skemmdarverkum og árásum á lögreglu. Upptök óeirðanna má rekja til eins manns sem hefur gert það að vana sínum að brenna Kóraninn, helgasta rit íslamstrúar, og var hann raunar dæmdur til tveggja ára ferðabanns til Svíþjóðar árið 2020 fyrir áætlanir til slíks. Nú hefur hann hins vegar hlotið sænskan ríkisborgararétt og hyggst bjóða sig fram í þingkosningum í Svíþjóð. Kosningabarátta hans er rétt að hefjast og mun hún einkum samanstanda af heimsóknum til borga og bæja Svíþjóðar þar sem maðurinn hyggst brenna Kóraninn á hverjum viðkomustað.
Maðurinn sem um ræðir heitir Rasmus Paludan og er upprunalega frá norðanverðu Sjálandi í Danmörku, en faðir hans er sænskur og var það á þeim grundvelli sem hann fór fram á og fékk að endingu sænskan ríkisborgararétt. Paludan er lærður lögfræðingur og var meðal þeirra bestu í sínum árgangi við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla. Samkvæmt föður hans þurfti hann þó að taka sér hlé frá námi um tíma þegar hann lenti í reiðhjólaslysi og þurfti meðal annars að gangast undir heilaskurðaðgerð. Paludan starfaði svo sem lögmaður og seinna sem lektor við sömu lagadeild og hann nam við áður en hann stofnaði Harðlínuflokkinn (d. Stram Kurs) árið 2017.
Mikil athygli en takmarkaður pólitískur árangur
Þó kosningabarátta flokksins hefði verið með öllu árangurslaus þetta ár hélt Paludan ótrauður áfram og vakti einna helst athygli á Youtube þar sem voru birt einna helst myndskeið frá mótmælafundum Harðlínuflokksins. Paludan hélt alls 53 mótmælafundi árið 2018 og flestir fóru þeir fram í hverfum innflytjenda, svokölluðum gettóum, og voru sérstaklega gerðir til þess að ögra múslimum. Paludan náði þar tilætluðum árangri, en á mótmælafundi í Nørrebro í Kaupmannahöfn 14. apríl 2018, þar sem Paludan kastaði Kóraninum ítrekað í jörðina, varð hann loks fyrir árás skömmu eftir að fundurinn hófst, auk þess sem ráðist var á lögreglu af andmótmælendum. Í kjölfarið var Harðlínuflokknum meinað að halda fleiri mótmælafundi vegna ógnar við almannafrið og hótana gegn Paludan.
Árið 2019 bauð flokkurinn svo fram í þingkosningum en náði ekki þeim 2% atkvæða sem þarf að lágmarki til að ná þingsæti.
Þrátt fyrir alla ósigrana má engan bilbug sjá á Paludan sem hefur haldið áfram aðgerðum sínum til þess að mótmæla viðveru múslima í Danmörku og hefur fjöldi innflytjenda verið dæmdir fyrir árásir ýmist gegn Paludan eða lögreglu í tengslum við mótmælafundi Paludan. Paludan er undir nær stöðugu öryggiseftirliti lögreglu og nam kostnaður dönsku lögreglunnar vegna þessa 100 milljónum danskra króna árið 2019, eða nærri 2 milljörðum íslenskra króna.Svo virðist hins vegar vera að Paludan ætli nú að einbeita sér að Svíþjóð í ljósi afar takmarkaðs árangurs stjórnmálaflokks hans í Danmörku.
Glæpagengi notfæri sér hamaganginn
Svíar virðast hins vegar alls ekki á þeim buxunum og hafa átök brotist út víða um landið vegna áforma Paludan um að brenna Kóraninn vítt og breitt um Svíðþjóð. Lögreglan veitir leyfi fyrir fjöldasamkomum sem þessum, og hefur sænska lögreglan hlotið talsverða gagnrýni fyrir að leyfa fjöldasamkomur Rasmusar Paludan, sem séu til þess gerðar að ögra minnihlutahópum, og þá sérstaklega múslimum með því að kveikja í Kóraninum. Talið er að þetta sé helsta ástæða þess að ofbeldið beinist í miklum mæli gegn lögreglunni, en þá eru einnig uppi kenningar um að ótengdir glæpahópar nýti sér hamaganginn í kring um Paludan til þess að æsa til óeirða gagnvart lögreglunni.
Forsætisráðherra Svíþjóðar, Magdalena Andersson, hefur fordæmt atburðarásina og segir óeirðirnar nákvæmlega það sem Paludan vilji. Aðalmarkmið hans sé að snúa fólki gegn hverju öðru. Kosningaferð Paludan um Svíþjóð hefur verið frestað um minnst eina viku vegna óeirðanna.