Síðasta vika var róstursöm í sænskri utanríkispólitík. Heimsókn Stefan Löfvens forsætisráðherra til Úkraínu vakti hörð viðbrögð Rússa og gagnrýni Svía á stöðu mannréttinda í Sádi Arabíu dró einnig dilk á eftir sér. Svíar berjast nú um sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en sérfræðingar telja ólíklegt að framboðið beri árangur vegna atburða síðustu vikna. Í hörðum heimi alþjóðastjórnmála hefur það kostnað í för með sér að gagnrýna aðrar þjóðir fyrir stöðu lýðræðis og mannréttinda eða styðja rétt þeirra til að ráða sér sjálfar.
Samband Rússa og Svía versnar stöðugt
Á þriðjudag fór Löfven forsætisráðherra í opinbera heimsókn til Úkraínu þar sem hann lofaði auknum stuðningi við ríkisstjórn landsins. Fyrir utan pólitískan stuðning lofaði Löfven að Svíþjóð myndi veita Úkraínu lán upp á 850 milljónir sænskra króna til að styrkja innviði landsins. Um leið hvatti hann aðrar þjóðir til að gera það sama. Sama dag birti sendiráð Rússlands í Svíþjóð nokkuð undarlega stöðuuppfærslu á Facebook þar sem Svíum var kennt um stöðuna í Úkraínu. Þar var sagt að stefna vesturlanda, og þá ekki hvað síst Svíþjóðar, gagnvart Úkraínu hefði orsakað valdarán sem leitt hefði til blóðugrar styrjaldar.
Þessi harða afstaða landanna tveggja í garð hvors annars kemur í kjölfar stigvaxandi deilna vegna hernaðarumsvifa Rússa í Eystrasaltinu. Skemmst er að minnast kafbátaleitar sænska hersins þar sem talið var að rússneskur kafbátur hefði siglt inn í sænska skerjagarðinn án heimildar. Leitin bar ekki árangur en í kjölfarið hafa sænsk stjórnvöld heitið auknu fé til að efla kafbátaleit í Eystrasaltinu og til að koma fyrir varanlegri hersveit á Gotlandi. Fyrir nokkrum árum voru hryðjuverk og netárásir talin helsta ógn sem steðjaði að Svíþjóð. Aukinn umsvif Rússa hafa breytt þeirri mynd og svo virðist vera sem sænsk stjórnvöld telji nú að helsta öryggisógnin sé möguleg átök við Rússa.
Frá hetju til skúrks í Mið-Austurlöndum
Eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar síðasta haust var að viðurkenna sjálfstæði Palestínu. Íslendingar ættu hugsanlega að taka því sem móðgun að flestir virtust telja að Svíþjóð væri fyrsta vestræna landið til að taka slíka ákvörðun. Í kjölfarið versnuðu samskipti Svía og Ísraela, sendiherra Ísraels í Svíþjóð var kallaður heim og Margot Wallström utanríkisráðherra sagt að hún væri ekki velkomin í fyrirhugaða heimsókn. Í viðtali skömmu síðar sagði Wallström að Ísraelar færu yfir öll mörk í málflutningi sínum og að aðgerðir þeirra gagnvart Palestínumönnum væru ekkert nema ofbeldi. Svíum var ákaft fagnað í Arabalöndunum eftir stuðninginn við Palestínu og á tímabili leit út fyrir að þar hefði Svíþjóð náð sér í mikilvæga bandamenn. Wallström var til að mynda boðið að halda ræðu á fundi utanríkisráðherra Arababandalagsins síðasta mánudag en deginum áður var framlag hennar afþakkað.
Wallström hefur gagnrýnt Sádi Arabíu harðlega fyrir mannréttindabrot en nýleg ummæli hennar um sharia lög voru sem olía á eldinn. Hún lýsti þeim sem arfleið frá miðöldum þar sem jafnrétti og mannréttindi væru fótum troðin. Sendiherra Sádi Arabíu var kallaður heim á miðvikudag, daginn eftir að Svíar tilkynntu að samstarfi landanna um vopnaframleiðslu yrði ekki haldið áfram. Sérfræðingar telja að deilurnar geti ekki aðeins haft neikvæð áhrif á samskipti landanna tveggja heldur einnig á viðskipti þeirra á milli og stöðu Svíþjóðar á svæðinu öllu. Ein ástæðan er að nýr konungur Sádi Arabíu þykir mun íhaldsamari en forveri hans og virðist alls óhræddur við að slíta samstarfi við þá sem hann telur að séu of gagnrýnir á konungsríkið. Einn helsti sérfræðingur Svía um Mið-Austurlönd segir að verði ríkin á svæðinu neydd til að velja á milli Svíþjóðar og Sádi Arabíu sé engin spurning hver niðurstaðan verði.
Opinber gagnrýni Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, á Sádi Arabíu hefur vakið athygli og viðbrögð.
Sætið í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í hættu
Ríkisstjórn Fredrik Reinfeldts lagði höfuðáherslu á Evrópusambandið í utanríkisstefnu sinni og sá það vera bestu leiðina til að auka vægi Svíþjóðar á alþjóðavettvangi. Þegar ný stjórn tók við lýsti hún því yfir að færa ætti fókusinn til baka á Sameinuðu þjóðirnar, meðal annars með því að sækjast eftir kjöri í Öryggisráðinu 2017-2018. Sérfræðingar telja nú litlar líkur á að Svíar nái kjöri enda hafa þeir á stuttum tíma gagnrýnt Ísrael, Sádi Arabíu og Rússland harðlega á opinberum vettvangi. Einn leiðarahöfunda Dagens Nyheter benti á að í rauninni væri ákveðinn heiður fólginn í því fá gagnrýni á sig frá þessum löndum sem öll hefðu gerst sek um vafasama hegðun. Það væri hins vegar kostnaðarsamt að reka utanríkispólitík þar sem afgerandi staða væri tekin með mannréttindum og lýðræði.
Margot Wallström hefur hlotið mikla gagnrýni fyrir óvarkárt orðalag og í fjölmiðlum má oft sjá því haldið fram að með því skaði hún orðspor Svía. Ekki er þar þó um mikla stefnubreytingu að ræða því hún tók við af Carl Bildt sem hefur aldrei verið hræddur við opinberar deilur við önnur ríki. Í þeim hefur hann einkum nýtt sér Twitter og í gegnum tíðina hafa mörg ummæli hans þar vakið furðu. Í fyrra var Bildt til dæmis harðlega gagnrýndur fyrir að líkja fyrrverandi forseta Úkraínu við norska föðurlandssvikarann Vidkun Quisling.
Eiga þjóðir að fórna hagsmunum fyrir hugsjónir?
Á tyllidögum er auðvelt að tala um mannréttindi og lýðræði en gildum er gjarnan fórnað á altari hagsmuna. Staðan sem upp er komin í Svíþjóð er áhugaverð því forsvarsmenn viðskiptalífsins höfðu hvatt til þess að samningurinn við Sádi Arabíu yrði framlengdur, með þeim rökum að samræður og samstarf væru besta leiðin til að bæta stöðuna í landinu. Í raun má segja að málið snúist því um grundvallaratriði í alþjóðlegum stjórnmálum – nefnilega hvaða leiðir eru farnar að settu marki. Hvenær er ástæða til að gagnrýna opinberlega og eiga það á hættu að viðskipti og pólitískt samband skaðist? Þessi umræða hefur verið hávær á alþjóðavettvangi að undanförnu, ekki hvað síst í tengslum við íþróttamót í löndum á borð við Rússland og Katar.
Rithöfundurinn og blaðamaðurinn Ola Larsmo heldur því fram að hér sé ef til vill komin í ljós hugmyndafræðileg gjá í sænskri pólitík. Hann bendir á að hægri kantinum komi nú berlega í ljós að þar hugsi margir um mannréttindi eins og sósuna á ísnum. Hún sé auðvitað ljómandi góð en það sé líka allt í lagi að sleppa henni. Og hann spyr hvort nokkur haldi að Svíar muni minnast ummæla ráðherrans með hneykslan eftir fjörutíu ár þegar sagan verði gerð upp. Ef marka má arfleið Olof Palme er svarið líklega að rifrildið standi enn yfir árið 2055.