Þótt staða íslensku viðskiptabankanna sé, að því er virðist, góð í öllum samanburði er staðan ekki jafn björt þegar dýpra er kafað. Annars vegar er fjármögnun þeirra að hluta til varin af fjármagnshöftum og hins vegar má rekja stóran hluta af hagnaði þeirra á árinu 2014 til endurmats eigna og annarra einskiptisliða á borð við sölu eigna. Afkoma af grunnrekstri þeirra er mun veikari.
Þetta kemur fram í formála Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í nýjasta eintaki af ritinu Fjármálastöðugleika, sem var birt í dag. „Við núverandi aðstæður er því varhugavert að veikja viðnámsþrótt bankanna um of með verulegum arðgreiðslum,“ segir Már.
Íslensku viðskiptabankarnir þrír sem reistir voru á grunni föllnu bankanna, Landsbankinn, Arion banki og Íslandsbanki, hafa hagnast mjög frá hruni. Alls nemur samanlagður hagnaður þeirra frá því að þeir voru settir á fót um 370 milljörðum króna. Landsbankinn er í raun eini bankinn sem má og getur greitt eigendum sínum arð sem þeir geta ráðstafað. Hann er að langstærstu leyti í eigu íslenska ríkisins en starfsmenn Landsbankans eiga auk þess lítinn hlut. Vegna ársins 2013 greiddi bankinn ríkinu 20 milljarða króna í arð og mun greiða því 24 milljarða króna á þessu ári.
Arion banki og Íslandsbanki eru að stærstu leyti í eigu þrotabú Kaupþings og Glitnis. Ríkið á síðan lítinn hlut í hvorum þeirra, þrettán prósent í Arion banka og fimm prósent í Glitni. Arðgreiðslur þeirra fara að stærstum hluta til í þrotabú sem enn á eftir að slíta.
Eign kröfuhafa í nýju bönkunum metin á 316 milljarða
Formálinn fjallar að mestu um hvernig megi varðveita viðnámsþrótt þjóðarbús og fjármálakerfis í aðdraganda losunar fjármagnshafta, en tilkynnt hefur verið að skref í þá átt verði stigin í nánustu framtíð. Már fer yfir þau vandamál sem þarf að takast á við áður en að hægt sé að losa höft og þær stærðir sem við er að etja. Mest munar þar um eignir erlendra kröfuhafa fallina banka sem tejast sem íslenskar eignir. Þær nema nú um 910 milljörðum króna. Þar af nemur eign slitabúa í Arion banka og Íslandsbanka 316 milljörðum króna. Til viðbótar nema skammtímakrónueignir erlendra aðila 291 milljarði króna.
Már segir stöðu stóru viðskiptabankanna þriggja, Landsbankans, Arion banka og Íslandsbanka, að mörgu leyti vera sterka og að hún hafi batnað enn frekar á síðasta ári. Arðsemi heildareigna þeirra hafi numið 2,7 prósentum, sem teljist gott í alþjóðlegum samanburði, eigið fé sé með því hæsta sem gerist í nágrannalöndunum og lausafjárstaðan sé einnig mjög sterk. Þá sé fjármögnunarþörf þeirra í erlendum gjaldmiðlum á næstu árum mjög hófleg.
Þeir þurfi aðeins að taka erlend lán sem nemi um 30 milljörðum króna á ári næstu ár til að endurfjármagna afborganir og að halda sér fyrir ofan lágmarkskröfur Seðlabankans um lausafjárstöðu í gjaldeyri. Bankarnir hafa allir getað sótt slíka fjármögnun á markaði. Til dæmis tók Arion banki erlent lán í evrum upp á 45 milljarða króna í mars síðastliðnum.
Varhugavert að veikja viðnámsþrótt með arðgreiðslum
Már segir hins vegar að þegar dýpra sé kafað sé myndin ekki að öllu leyti eins björt og virðist við fyrstu sýn. „Þar kemur tvennt til. Annars vegar er fjármögnun bankanna að hluta til varin af fjármagnshöftum. Hins vegar mátti rekja stóran hluta hagnaðar bankanna á síðasta ári til endurmats eigna og annarra einskiptisliða en undirliggjandi afkoma af grunnrekstri er eins og áður er nefnt mun veikari. Við núverandi aðstæður er því varhugavert að veikja viðnámsþrótt bankanna um of með verulegum arðgreiðslum.“