„Ég hef oft séð fólk í mikilli maníu en þetta jafnast á við það skrautlegasta sem maður hefur séð.“
Þetta sagði Magnús Harðarson geðlæknir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag um ástand Mareks Moszczynski um það leyti sem bruninn á Bræðraborgastíg varð. Magnús var einn þriggja geðlækna sem lagði mat á geðheilsu Mareks en allir komust þeir að þeirri niðurstöðu að hann hafi verið í geðrofi á þessum tíma og í maníu. „Það er okkar mat að hann hafi verið ófær um að bera ábyrgð á gjörðum sínum,“ sagði Guðrún Dóra Bjarnadóttir geðlæknir. Kollegi hennar, Tómas Zoëga, sagði að það væri „engin spurning um það að ef sök sannast á hann að hann var algjörlega ófær um að stjórna gerðum sínum“.
Þau eru ekki á einu máli um hvort vista beri Marek á réttargeðdeild, verði hann sakfelldur. Yrði sekt niðurstaða dómara þætti Guðrúnu Dóru eðlilegt og „mjög mikilvægt“ að maður sem hefði framkvæmt slíkan verknað yrði undir sérstöku eftirliti. Tómas sagðist hvorki hafa metið hann hættulegan sjálfum sér né öðrum þannig að ef hann yrði fundinn sekur „þá er þetta klemma sem dómurinn er í“ því fólk væri ekki sett í fangelsi eða á geðdeild til að fyrirbyggja eitthvað.
Geðlæknarnir telja „mjög ólíklegt“ að Marek hafi getað gert sér upp einkennin. Það segist hann þó sjálfur hafa gert áður, fyrir mörgum áratugum, til að komast hjá herþjónustu.
Á þriðja degi réttarhaldanna yfir Marek, sem sakaður er um brennu, manndráp og tilraun til manndráps, voru flest vitnin læknar. Ýmist þeir sem hlúðu að slösuðum á Landspítalanum eftir brunann eða geðlæknar sem fengnir voru til að meta geðheilsu Mareks.
Fyrsta vitni dagsins var hins vegar verkfræðingurinn Guðmundur Gunnarsson, sem komið hefur að rannsókn eldsupptaka í fjörutíu ár. Niðurstaða mats hans á eldsvoðanum er að ástandið hafi verið orðið íbúum hússins lífshættulegt nokkrum mínútum eftir að eldurinn var kveiktur vegna mikils reyks og hita á ganginum. „Við erum alltaf að tala um mjög fáar mínútur,“ sagði Guðmundur. Hvort sem þær hafi verið ein, tvær eða þrjár var sá tími sem fólkið hafði til að flýja stuttur. „Það virðist ekki hafa verið reykskynjari eða neinar varnir í húsinu til að vara fólkið við þessu.“
Eldurinn var að mati þeirra sérfræðinga sem komið hafa fyrir dóminn síðustu daga kveiktur á tveimur stöðum; í herbergi Mareks á annarri hæðinni og við stigann sem lá upp á þriðju hæðina. Opið var upp á þriðju hæðina við stigann og það varð til þess, að sögn Guðmundar, að reykurinn fór þangað til að byrja með.
Guðmundur kom ekki að því að rannsaka upptök eldsins. Sú rannsókn var gerð af tæknideild lögreglunnar en var einnig til skoðunar í rannsókn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
„Það sem þú hefur í höndunum eru fyrirfram gefnar forsendur frá lögreglu,“ segir Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Mareks, við Guðmund er Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari hefur lokið sínum spurningum. Guðmundur áréttar að hann hafi við mat sitt meðal annars stuðst við margvísleg gögn, myndir og skýrslur. „Þegar maður er búinn að horfa á brunnin hús í fjörutíu ár þá sér maður fljótt, sérstaklega af myndum, í raun og veru hvernig brunaferlarnir liggja og hvar mesti eldurinn er.“
Stefán Karl vill vita hvort að sá möguleiki sé fyrir hendi að eldurinn sem kviknaði á ganginum hafi „færst frá stiganum og inn í herbergið“. Guðmundur telur að slíkt hefði tekið töluvert langan tíma. „Svo ég bara átti mig á þessu,“ heldur Stefán áfram, „þá er sá möguleiki samt fyrir hendi að eldurinn breiðist út í þessa átt?“
Af þeim myndum sem teknar voru á vettvangi áður en slökkvilið kom á staðinn er ljóst, að sögn Guðmundar, að reykur kom út um glugga herbergis Mareks, „og ljóst að það er kominn eldur þar inn“. Ef aðeins hefði á þeim tímapunkti logað eldur við stigann „þá hefði alls ekki komið reykur út um gluggann í þessu herbergi“.
Hlaut djúp brunasár
„Góðan daginn, við vorum að frétta að þú værir með covid,“ segir Barbara Björnsdóttir, formaður dómsins, þegar næsta vitni, pólskur maður um sextugt svarar símanum eftir nokkrar hringingar. Hann greindist í gær og er kominn í farsóttarhús. „Ég vona að þú sért ekki mjög lasinn,“ segir Barbara og hann neitar því. „Gott að heyra,“ segir hún og biður hann að greina frá því sem gerðist daginn sem eldurinn kviknaði. Hann var íbúi í húsinu. „Ég veit ekki hvað gerðist eða hvernig það gerðist af því að það sá það enginn,“ byrjar hann á að segja.
Hann hafi leigt herbergi innst á ganginum á annarri hæðinni og verið að horfa á sjónvarpið. Hann segir þvínæst að hegðun Mareks nágranna síns hafi verið skrítin. „Hann var öðruvísi en hann átti að sér að vera.“ Marek hafi komið inn í herbergið til hans í tvígang. Í annað skiptið hafi hann komið með peninga og skilið þá eftir. „Hann sagði eitthvað en það var glórulaust.“ Þegar hann fór sjálfur fram á ganginn, „af tilviljun“ eins og hann lýsir því, kannski um klukkustund síðar, hafi verið „sjokkerandi“ að sjá á hvaða stig eldsvoðinn var kominn. Hann hafði ekkert heyrt, enga lykt fundið. Frammi sá hann ekki til lofts vegna reyks og fór aftur inn í herbergi sitt og ætlaði að reyna að fara út um gluggann. Engin leið var að gera það, hann var alltof lítill. „Reykurinn byrjaði að koma undir hurðina á herberginu. Ég ákvað að fara út í gegnum ganginn. Náði í sæng, setti hana yfir mig, og fór þá leið. Það var erfitt að ná andanum en ég náði að komast út.“
Hann skreið út ganginn og hlaut á flóttanum alvarleg brunasár á hnjám, baki og höndum. Honum var haldið sofandi í um mánuð á gjörgæsludeild og á þeim tíma voru gerðar á honum aðgerðir. Annan mánuð til viðbótar var hann á legudeild lýtaskurðlækninga. Þaðan fór hann í endurhæfingu á Grensásdeild. „Það er búið að græða á mig skinn. Það var tekið af fótunum og sett á bakið og hendurnar,“ segir hann. Hann er með mörg ör og tveir fingur hans hafa ekki gróið um heilt.
„En andlega?“ spyr Kolbrún. „Ég er náttúrlega hjá læknum, sjúkraþjálfurum og sálfræðingi,“ svarar hann.
Verjandinn spyr einnar spurningar, hvort að hann hafi séð Marek kveikja í. „Nei, ég sá það ekki.“
Það er hraði á vitnaleiðslum dagsins. Öll vitnin, mörg hver vön að koma fyrir dóm, eru mætt tímanlega. Inn og út. Út og inn. Það ískrar margsinnis í stólnum við vitnastúkuna þennan daginn. Það lækkar hratt í sprittflöskunum við dyrnar.
„Hefði hann getað dáið?“ spyr Kolbrún um áverka sem ungi maðurinn sem stökk út um gluggann af þriðju hæð til að bjarga lífi sínu hlaut við hátt fallið. „Já, já. Að sjálfsögðu,“ svarar vitnið Curtis Snook, sérfræðingur í bráðalækningum við Landspítalann, sem tók á móti manninum á bráðadeildinni. Hann hafi hlotið mörg höfuðkúpubrot og blætt hafi frá slagæð í heilanum.
Vill blaðamennina út
Tómas er kominn, segir Kolbrún. Hún á við næsta vitni, geðlæknirinn Tómas Zoëga sem gerði fyrsta geðmatið á Marek eftir að hann var handtekinn. En áður en Tómas er leiddur inn í salinn kveður Stefán Karl sér hljóðs. Hann segist efast um að Tómas „geti yfir höfuð tjáð sig“ í ljósi trúnaðar við Marek. Hann fer svo fram á það að „í það minnsta“ verði gerð sú krafa að fjölmiðlum sé óheimilt að skrifa frá vitnisburðinum. „Í tengslum við skýrslugjöf geðlækna?“ spyr Barbara dómari til áréttingar. „Á hvaða grundvelli?“
Stefán vísar til ákveðinnar lagagreinar. Beiðni hans er bókuð. „Ég held að við skulum taka örstutt hlé,“ segir Barbara og dómarar fara afsíðis. „Sumt á bara ekkert erindi hérna inn,“ segir Stefán og beinir orðum sínum til þeirra sem eftir eru í salnum. Skömmu síðar koma dómararnir þrír inn á ný.
„Það hefur verið ákveðið að þinghaldinu verður ekki lokað í samræmi við úrskurði um það,“ segir Barbara. „Og það verður ekki fallist á að lagt verði bann við því að það verði fjallað um [vitnisburði geðlæknanna].“
Stefán Karl er ekki á þeim buxunum að gefast upp þó að Barbara hafi boðað Tómas inn í salinn. „Það er þá kannski annað dómari,“ segir hann. Fyrst ekki sé fallist á að þinghaldinu verði lokað verði Tómasi geðlækni „ekki heimilt að tala um persónuleg samskipti“ sín og Mareks eða „persónulega sögu hans“, aðeins niðurstöðu matsins. Tómas hefur á þessum tímapunkti þegar sest í vitnastúlkuna. „Ég er matsmaður að koma fyrir dóminn, er það ekki?“ spyr hann.
„Ég segi það bara hreint út,“ segir Stefán, að ef þetta er niðurstaðan geti hann aldrei aftur mælst til þess að skjólstæðingar tjái sig við geðlækna. „Ég bara mun aldrei gera það,“ segir hann með nokkurri áherslu. Áfram heldur þref milli hans og tveggja dómara um niðurstöðu Landsréttar sem úrskurðaði að þinghaldið skyldi opið.
Hélt að hann væri með krabbamein
En svo kemur að því að skýrslutaka yfir Tómasi getur loks hafist. Hann greinir frá því að hann hafi að beiðni lögreglunnar hitt Marek í fangelsinu að Hólmsheiði daginn eftir eldsvoðann. Þá hafi hann talað mjög mikið og hátt og blótað mikið, bæði á íslensku og pólsku. „Það var erfitt að fá samhengi í það sem hann sagði.“
Tómas komst einnig að því í viðtalinu að Marek hafði veikst í byrjun maí í fyrra og svo lagður inn á Landspítalann vegna kviðverkja og til frekari rannsókna. Grunur hafði vaknað um krabbamein í maga. Annað hafi síðar komið í ljós en „honum var sagt á þeim tíma að þetta kynni að vera krabbamein.“
Marek hafi auk þess sagt að fyrir þrjátíu árum hefði hann legið inn á geðdeild í Póllandi. Hann hafi gert sér upp þau veikindi til að komast hjá herþjónustu.
Gæti hann hafa búið þetta til?
Í kjölfar viðtalsins var Marek lagður inn á geðdeild og honum gefin geðrofslyf en þegar Tómas hittir hann fáum dögum síðar er hann enn verulega veikur. Í þriðja viðtalinu var hann orðinn rólegri og smám saman fór Tómas að fá skýrari mynd á það sem á undan hafði gengið. Margir hafi lýst mjög breyttri hegðun hans fljótlega eftir að honum voru færðar þær fréttir að hann kynni að vera með illkynja meinvörp í heila. Bróðurdóttir hans sagði hann hafa farið í „eitthvert sjokk“. Tómas segist ekki halda að Marek hafi fengið upplýsingar um að hann væri ekki með krabbamein fyrr en eftir brunann á Bræðraborgarstíg.
Eftir viðtölin við Marek og út frá þeim gögnum sem Tómas skoðaði á þessum tíma, var það niðurstaða hans að hann hefði verið „algjörlega ófær um að stjórna gerðum sínum.“
„Gæti hann hafa verið að búa þetta til?“ spyr Kolbrún og vísar til þess að hann hafi áður, að eigin sögn, gert sér upp veikindi til að komast hjá herþjónustu. „Ég tel það mjög ólíklegt, afskaplega ólíklegt,“ svarar Tómas.
„Það er okkar mat að hann hafi verið ófær um að bera ábyrgð á gjörðum sínum,“ segir Guðrún Dóra Bjarnadóttir, geðlæknir á sérhæfðri endurhæfingardeild, í sínum vitnisburði. Að hann hafi verið í maníu með geðrofseinkenni. Hún vann yfirgeðmat á Marek ásamt Magnúsi Harðarsyni geðlækni. Hún segir hann „mjög ólíklega“ hafa getað gert sér þessi miklu einkenni upp. Í viðtölum við ættingja hans hafi komið fram vísbendingar um ákveðin geðræn einkenni hjá honum í gegnum tíðina. „Marek tekur áhættu í viðskiptum meira en aðrir, eyðir peningum í hluti sem aðrir myndu ekki gera, er kvensamur og eyðir peningum í konur. Á öðrum tímabilum hélt hann sig til hlés og var ekki í miklum sambandi við fjölskylduna.“ Hún, líkt og Tómas, sagði að hann hefði, þegar hún hitti hann, verið á geðlyfjum og komið eðlilega fyrir.
„Ef það yrði niðurstaðan hér að Marek hefði gert það sem honum er gefið að sök og hann metinn ósakhæfur. Telur þú að ástand hans sé þannig að það sé rétt að hann sæti öryggisgæslu?“ spyr Kolbrún. „Mér þætti rétt að hann myndi vistast á réttargeðdeild þar sem hægt yrði að fylgjast með þróun einkenna og trappa niður þessi lyf,“ svarar hún.
Stefán Karl segir hana þá væntanlega byggja það mat sitt á því að hann hafi verið í maníu og kveikt í. „Það er ekki mitt að úrskurða um það. En ef það er niðurstaða dómara þætti mér eðlilegt ef maður hefur gert þetta í maníu er mjög mikilvægt að hann sé í sérstöku eftirliti.“
Nálin í heystakknum
Guðrún Dóra segir ekkert óeðlilegt hafa komið fram í taugasálfræðilegri rannsókn á Marek en minnist í einu svari sínu á að ýmislegt líkamlegt geti valdið maníu og einnig séu dæmi um slíkt af völdum ákveðinna lyfja, s.s. sýklalyfja. Kallast það þá antibiomania.
Þetta grípur Stefán Karl á lofti, googlar með hraði og á eftir spyrja önnur læknismenntuð vitni dagsins ítrekað út í. „Þannig að það er möguleiki fyrir hendi,“ spyr hann Guðrúnu, „að sýklalyf sem Marek var að taka [vegna kviðverkjanna] hafi getað valdið geðrofinu?“ Hún segir slíkt í fyrsta lagi mjög lítið rannsakað og í öðru lagi finnist þess aðeins stöku tilfelli.
„Ef það væri til, geðrof af völdum sýklalyfja, þá er það afskaplega sjaldgæft fyrirbæri,“ segir vitnið Sigurður Örn Hektorsson, geðlæknir og yfirlæknir geðheilsuteymis fanga, og að hann hafi aldrei heyrt um það fyrr á fjörutíu ára starfsferli sínum. „Þegar maður fer að leita að nálinni í heystakknum þá getur maður fundið nálina.“
Engin geðræn vandamál gert vart við sig
Kristján Tómasson dómari spyr kollega Guðrúnar Dóru, Magnús Harðarson, hversu líklegur Marek hafi verið á þessum tíma um að framkvæða skipulegan verknað, hafa uppi áætlun um að framkvæma eitthvað? „Hann var með alls konar áætlanir,“ svarar Magnús. „Alls konar. Fara til útlanda. Tilviljunarkenndar og dregnar upp úr einhverju boxi sem enginn skyldi.“ Síðan sé það spurning hvort hann hefði fylgt þeim eftir.
Sigurður Örn hitti Marek aðeins einu sinni. Það var örfáum dögum eftir eldsvoðann. Allan þann tíma sem hann hafi dvalið í fangelsi eftir að hann var útskrifaður af geðdeild hafi engin geðræn vandamál komið upp „sem við höfum haft ástæðu til að hafa afskipti af“. Sigurður Örn segir Marek á geðrofslyfjum. Engar sveiflur virðist vera í hans líðan, „eftir því sem ég best veit“.
Stefán Karl vill vita hvort að það myndi koma fram á lyfjaprófi því „nú hefur Marek upplýst mig um það að hann hafi ekki tekið [geðrofslyfið] olanzapine síðastliðna sex mánuði,“ segir hann og biður um að dómarinn bóki þessa yfirlýsingu. „Hann hafi staðið í þeirri trú að um væri að ræða svefnlyf og að hann hafi gefið samfanga sínum þetta svo að samfanginn gæti náð góðum svefni. Marek segist reiðubúinn að undirgangast lyfjapróf.“
Kolbrún óskar eftir gögnum frá Fangelsismálastofnun um lyfjagjöf Mareks og fær senda mynd af lyfjaboxi hans sem Sigurður er spurður út í. Á myndinni eiga að sjást töflurnar, geðlyfið sem Marek ætti að vera að taka samkvæmt læknisráði.
Í lok dags er þeirri spurningu enn ósvarað hvort að Marek sé sannarlega að taka geðlyfin.
Þriðja degi réttarhaldanna yfir Marek Moszczynski er lokið. Þeim verður framhaldið á föstudag. Á þeim síðasta degi þeirra fer fram málflutningur verjanda og sækjanda.