Í síðustu viku féllu tveir dómar í málum sem tengjast starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja í aðdraganda bankahrunsins, svokölluðum hrunmálum. Annar dómurinn féll í Ímon-málinu svokallaða fyrir Hæstarétti og hinn í Marple-málinu fyrir héraðsdómi. Alls er því sex stórum hrunmálum lokið með dómi Hæstaréttar, og héraðsdómur hefur dæmt í átta til viðbótar. Þá bíða þrjú stór mál þess að verða tekin fyrir í héraði og rúmlega 30 mál eru annað hvort enn til rannsóknar eða bíða ákvörðunar um hvort ákært verði í þeim eða ekki. Sum þeirra mála snúa að einstaklingum sem þegar hafa hlotið þunga dóma fyrir efnahagsbrot.
Sex málum lokið með dómi Hæstaréttar
Sex stórum hrunmálum lokið með dómi Hæstaréttar. Það fyrsta var tveggja ára fangelsisdómur yfir Baldri Guðlaugssyni, fyrrum ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu, snemma árs 2012 fyrir innherjasvik og brot í opinberu starfi. Brot sín framdi Baldur með því að selja hlutabréf í Landsbankanum 17. og 18. deptember 2008 á meðan að hann var ráðuneytisstjóri og sat í samráðshópi íslenskra stjórnvalda um fjármálastöðugleika. Söluandvirði bréfanna var 192 milljónir króna. Hlutabréf í Landsbankanum urðu verðlaus við bankahrunið nokkrum vikum eftir sölu bréfanna.
Sama ár voru Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrum stjórnarformaður Byrs, og Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrum sparisjóðsstjóri Byrs, dæmdir í fjögurra ára fangelsi vegna Exeter-málsins. Síðar hlaut Styrmir Þór Bragason, fyrrum forstjóri MP banka, eins árs dóm vegna sama máls. Jón Þorsteinn og Ragnar voru dæmdir fyrir umboðssvik vegna láns sem Byr veitti til félagsins Exeter-holding, sem notað var til að kaupa verðlaus stofnfjárbréf af mönnunum tveimr og MP banka. Styrmir var dæmdur fyrir hlutdeild í broti Jóns Þorsteins og Ragnars.
Lýður Guðmundsson hlaut dóm í Hæstarétti í fyrra. MYND: RÚV/Skjáskot
Í mars 2014 dæmdi Hæstiréttur Lýð Guðmundsson, fyrrum stjórnarformann Exista, í átta mánaða fangelsi fyrir brot á hlutafjárlögum. Fimm mánuðir refsingarinnar voru skilorðsbundnir. Bjarnfreður var einnig sviptum lögmannsréttindum í eitt ár. Málið snérist um 50 milljarða króna hlutafjáraukningu í desember 2008 sem einungis einn milljarður króna var greiddur fyrir, en samkvæmt hlutafélagalögum þarf að greiða minnst eina krónu fyrir hverja krónu sem hlutafé er hækkað um.
Í sama máli var lögmaðurinn Bjarnfreður Ólafsson dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar sem þrír mánuðir voru skilorðsbundnir, fyrir að skýra á villandi hátt frá hlutafjáraukningunni.
Alvarlegasta efnahagsbrot í íslenskri dómaframkvæmd
Þann 12. febrúar 2015 féll þyngsti dómur sem fallið hefur í efnahagsbrotamáli á Íslandi. Þá voru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, dæmdir sekir í Al Thani-málinu. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár. Voru fjórmenningarnir dæmdir fyrir markaðsmisnotkun á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti og umboðssvik samkvæmt hegningarlögum. Hæstiréttur kallaði brot mannanna alvarlegustu efnahagsbrot sem „nokkur dæmi verða fundin um í íslenskri dómaframkvæmd varðandi efnahagsbrot[…]Ákærðu[...]eiga sér engar málsbætur“.
Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson voru á meðal þeirra sem dæmdir voru í Al Thani-málinu.
Í síðustu viku féll svo dómur í Ímon-málinu svokallaða í Hæstarétti. Þar var Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, var í dag dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi. Elín Sigfúsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, var dæmd í 18 mánaða fangelsi. Steinþór Gunnarsson, fyrrum forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, var dæmdur í níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi.Sigurjón var fundinn sekur um að hafa framið umboðssvik og markaðsmisnotkun. Elín var fundin sek um umboðssvik og hlutdeild í markaðsmisnotkun og Steinþór var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun.Ímon-málið snérist um sölu Landsbankans á eigin bréfum til tveggja eignarhaldsfélaga í lok september og byrjun október árið 2008. Félögin tvö voru Imon ehf. og Azalea Resources Ltd. Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu og tók á sig alla áhættu af viðskiptunum. Samhliða losaði bankinn sig við eigin bréf á góðu verði miðað við aðstæður sem þá voru uppi í íslensku efnahagslífi.
Hæstiréttur hefur sýknað í einu stóru hrunmáli, hinu svokallaða Vafningsmáli. Sá dómur féll í febrúar 2014. Þar voru Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis, og Guðmundur Hjaltason, fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis, sýknaðir af ákæru um umboðssvik þegar bankinn veitti félaginu Milestone peningamarkaðslán í febrúar 2008. Í dómi Hæstaréttar kom fram að engin vafi hafi leikið á ásetningi mannanna, en að skilyrði þess að sakfellt sé fyrir umboðssik sé að fyrir liggi að tjón hafi orðið. Ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að háttsemi Lárusar og Guðmundar hafi falið í sér slíka áhættu.
Átta mál til viðbótar búin í héraði
Til viðbótar við þau stóru hrunmál sem hafa verið leidd til lykta í Hæstarétti er meðferð átta mála lokið fyrir héraðsdómi. Þeim hefur öllum nema einu þegar verið áfrýjað til Hæstaréttar.
Málin eru stóra markaðsmiðsnotkunarmál Kaupþings, markaðsmisnotkunarmál Landsbankans, mál kaupréttarfélaga Landsbankans, SPRON-málið, Milestone-málið, BK-málið, mál Hannesar Smárasonar vegna ætlaðs láns FL Group til Fons og að endingu Marple-málið, sem héraðsdómur dæmdi í á föstudag. Þessum málum hefur sumum hverjum lokið með sýknu héraðsdóms en öðrum með sakfellingu.
Þrjú mál bíða þess að vera tekin fyrir í héraðsdómi. Þau eru Stím-málið, CLN-mál Kaupþings og Aurum-málið svokallaða. Í Aurum-málinu var héraðsdómur reyndar búinn að sýkna sakborninga en Hæstiréttur vísaði málinu aftur í hérað vegna vanhæfis eins dómarans í málinu.
Mál gegn Hannesi Smárasyni, fyrrverandi forstjóra FL-Group, á enn eftir að verða tekið fyrir í Hæstarétti.
Yfir 30 mál enn í rannsókn eða bíða ákvörðunar um framhald
Enn eru fjölmörg hrunmál í rannsókn. Samkvæmt upplýsingum frá embætti sérstaks saksóknara þá er rannsókn lokið í 16-18 málum og bíða þau ákvörðunar um hvort saksótt verði í þeim eða hvort málin verði látin niður falla. Til viðbótar eru 15 hrunmál enn skráð í rannsókn hjá embættinu. Þá er hið svokallað Lindsor-mál enn til rannsóknar hjá yfirvöldum á Íslandi og í Lúxemborg.
Vert er að taka fram að sum málanna geta runnið saman í eina afgreiðslu og því afar ólíklegt að ákærur í málunum, ef ákært verður í þeim öllu, verði svona margar.
Ljóst er að embætti sérstaks saksóknara horfir til þeirra dóma sem fallnir eru í Hæstarétti þegar ákvarðanir um áframhald málanna er tekið. Þar koma fram vísbendingar um hvaða atriði það eru sem dómstólar horfa til þegar dæmt er í þessum stóru efnahagsbrotamálum.
Verður hegningarauka beitt?
Auk þess skiptir máli hvað Hæstiréttur gerir varðandi refsiramma mála. Í Al Thani-málinu var Hreiðar Már Sigurðsson dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi og Magnús Guðmundsson í fjögur og hálfs árs fangelsi. Hreiðar Már hefur síðan þá hlotið tvo viðbótardóma í héraði, annars vegar í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings þar sem honum var ekki gerður hegningarauki og hins vegar í Marple-málinu þar sem sex mánuðir bættust við dóm hans. Magnús hlaut einnig dóm í héraði í Marple-málinu þar sem 18 mánuðum var bætt við dóm hans. Refsiramminn fyrir brot þeirra er sex ár og er því fullnýttur samkvæmt þessari niðurstöðu.
Hreiðar Már Sigurðsson hefur hlotið einn dóm í Hæstarétti og tvo til viðbótar í héraðsdómi.
Hegningarlög gera hins vegar ráð fyrir fyrir að auka megi við refsinguna um allt að þrjú ár ef sakborningar leggja í vana sinn að fremja brot. Því geta dómstólar bætt þremur árum við refsingu Hreiðars Más og Magnúsar í þeim málum gegn þeim sem eiga eftir að klárast fyrir dómstólum og yrði heildarrefsing þeirra þá níu ár. Sama gildir vitanlega um aðra sakborninga sem hafa verið, eða verða, saksóttir oftar en einu sinni fyrir efnahagsbrot.
Þegar dæmdir menn enn til rannsóknar
Í Marple-málinu fór saksóknari málsins, Arnþrúður Þórarinsdóttir, fram á að horft yrði til hegningarauka þegar refsing Hreiðars Más og Magnúsar yrði ákvörðuð. Við því var ekki orðið.
Komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings og Marple-málinu, að Hreiðar Már sé sekur í þeim báðum og Magnús í öðru, mun dómurinn þurfa að taka afstöðu til þess hvort beita eigi hegingaraukanum og dæma þá í lengri refsingu en sex ára fangelsi.
Verði það niðurstaða hans að það eigi ekki að beita hegningarauka þá þarf embætti sérstaks saksóknara að taka ákvörðun um hvort það muni saksækja í málum sem eru enn til rannsóknar og mennirnir tveir eru á meðal grunaðra.
Það eru nefnilega hrunmál enn í rannsókn gagnvart einstaklingum sem þegar hafa hlotið dóma vegna annarra hrunmála, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þar á meðal eru mál sem snúa að Kaupþingi og hluta þeirra sakborninga sem þegar hafa hlotið dóma í Al Thani-málinu fyrir Hæstarétti og stóra markaðsmisnotkunarmálinu og Marple-málinu í héraðsdómi. Þá eru einnig mál til rannsóknar sem snúa að stjórnendum Glitnis og Landsbankans.