Milljarðar gætu ratað úr fyrirtæki í eigu borgarinnar í ríkissjóð vegna afleiðusamninga við Glitni
Orkuveita Reykjavíkur vildi ekki gera upp afleiðusamninga við Glitni HoldCo vegna þess að hún taldi að félagið hefði framselt samninganna til ríkissjóðs og að það hefði þegar fengið bætur fyrir afglöp endurskoðenda í sátt við PwC. Hún taldi líka að Glitnir hefði verið ógjaldfær þegar bankinn gerði samninga og þeir því ógildir vegna þess að hann gat ekki staðið við sinn hlut. Orkuveitan tapaði málinu á föstudag.
Á föstudag féll dómur í Landsrétti í máli sem Orkuveita Reykjavíkur höfðaði á hendur Glitni HoldCo, félags utan um eftirstöðvar þrotabús Glitnis.
Málið snerist um afleiðusamninga sem Orkuveitan hafði gert við Glitni á árunum 2002 til 2008, eða áður en bankinn féll með látum haustið 2008, til að verja sig fyrir gengisáhættu, enda tekjur Orkuveitunnar að mestu í íslenskum krónum en fjárhagslegar skuldbindingar að mestu í erlendum myntum. Með samningunum tók Orkuveitan stöðu með krónunni en þegar hún féll myndaðist tap á samningunum. Það tap vildi Glitnir HoldCo sækja.
Málareksturinn hafði staðið yfir síðan 2012 og á meðan að á honum stóð hefur grundvöllum málsins tekið breytingum.
En niðurstaða Landsréttar var sú að dómur héraðsdóms skyldi standa óraskaður. Verði það endanleg niðurstaða þá mun Orkuveitan, sem er að stærstum hluta í eigu Reykjavíkurborgar, þurfa að greiða Glitni að minnsta kosti 3,3 milljarða króna þegar dráttarvextir fram að síðustu áramótum eru taldir til. Heildarupphæðin sem þarf að greiða er hærri, enda dráttarvextir haldið áfram að safnast upp á þeim ellefu mánuðum sem liðnir eru af árinu 2021.
Til að setja þessa tölu í samhengi þá var hagnaður Orkuveitunnar allt árið í fyrra 5,6 milljarðar króna. Því er um að upphæð sem nemur tæplega 60 prósent af árshagnaði Orkuveitunnar, fyrirtækis sem greiddi fjóra milljarða króna í arð til eigenda sinna í ár.
Þessi upphæð, verði hún innheimt að fullu, mun þó ekki sitja að uppistöðu eftir í Glitni HoldCo eða hjá hluthöfum þess félags, fyrrverandi kröfuhöfum Glitnis. Samkvæmt stöðugleikasamkomulaginu sem gert var undir lok árs 2015 skuldbatt Glitnir HoldCo sig til að greiða allar íslenskar krónur sem hann átti eða kæmi til að eignast til íslenska ríkissjóðs.
Því mun fyrirtæki sem Reykjavík á 94 prósent hlut í, og tvö smærri sveitarfélög restina, þurfa að óbreyttu að greiða Glitni HoldCo á fjórða milljarð króna sem rennur svo í ríkissjóð. Höfuðborgin, Akranes og Borgarbyggð tapa, en ríkissjóður hagnast.
Leynd hvílir yfir eigum sem Glitnir HoldCo rukkaði inn fyrir ríkið
Þegar samkomulag náðist milli íslenska ríkisins og kröfuhafa Glitnis um greiðslu stöðugleikaframlags svo að hægt yrði að ljúka nauðasamningi bankans, var ljóst að stærsti hluti alls stöðugleikaframlagsins sem greiddur yrði í ríkissjóð úr ranni kröfuhafa allra föllnu bankanna myndi koma úr Glitni. Þar munaði mestu um allt hlutafé í Íslandsbanka, sem ákveðið var á lokametrunum að myndi fara til ríkisins, en ekki bara afraksturinn af sölu hans líkt og í tilfelli Arion banka.
Ýmsar aðrar eignir, meðal annars ætlaðar skuldir ákveðinna einstaklinga eða félaga, voru á meðal þeirra sem Glitnir skuldbatt sig að láta ríkinu í té. Þar á meðal eru svokallaðar „eftirstæðar eignir“ í íslenskum krónum. Einn flokkur þeirra kallaðist „skilyrtar fjársópseignir“.
Í Þær eignir urðu áfram í vörslu og umsýslu félaga sem stofnuð voru utan um þrotabú föllnu bankanna en andvirði þeirra átti að renna í ríkissjóð eftir því sem það féll til. Það þýðir á mannamáli að bankafélögin seldu eignir, ráku dómsmál eða beittu öðrum verkfærum til að breyta þessum fjársópseignum í reiðufé og framseldu svo ríkissjóði afraksturinn.
Mikil leynd hefur ríkt um hvaða eignir er að um að ræða. Í frétt Viðskiptablaðsins frá árinu 2016 er vitnað í svar fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn blaðsins þar sem segir að ráðuneytinu sé „óheimilt samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki að miðla upplýsingum um þessar eignir“.
Glitnir HoldCo hefur sömuleiðis ekki viljað upplýsa um hvaða eignir sé að ræða, hvernig þeim hefur verið komið í verð né hvað hefur fengist fyrir eignir sem voru seldar.
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort sótt verður um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar Íslands í málinu eins og er, samkvæmt upplýsingum Kjarnans.
Töldu að samningarnir hefðu verið framseldir
Orkuveitan vildi að hún yrði sýknuð í málinu vegna þess að hún telur að Glitnir HoldCo sé ekki lengur eigandi þeirra afleiðusamninga sem gerðir voru. Það var rökstutt aðallega með tölvupósti frá ríkisendurskoðun þar sem fram kemur að eftirstæðar eignir Glitnis hafi verið framseldar ríkinu 10. desember 2015. Auk þess vísaði Orkuveitan í að í ársreikningi Glitnis HoldCo vegna ársins 2015 hefðu kröfur vegna afleiðusamninga verið færðar niður í núll krónur. Það væri staðfesting á því að Glitnir héldi einfaldlega ekki lengur á kröfunum.
Við málareksturinn var hins vegar lagður fram tölvupóstur frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá 6. febrúar í fyrra þar sem kom fram að afleiðusamningarnir hafi ekki verið framseldir ríkissjóði. Í dómi Landsréttar segir að dómarar málsins telji að yfirlýsingar Seðlabanka Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og ríkisendurskoðunar staðfesti að „eiginlegt framsal á afleiðusamningunum sjálfum til íslenska ríkisins hafi ekki átt sér stað“.
Það verður þó ekki séð að ríkisendurskoðun hafi staðfest slíkt með áðurnefndum tölvupósti. Þvert á móti.
Neituðu að birta stöðugleikasamninga
Í öðru máli sem Glitnir HoldCo höfðaði vegna uppgjörs afleiðusamninga gegn Útgerðarfélagi Reykjavíkur, og lauk eftir dóm sem féll í héraði í fyrravor, voru sömu málsástæður að hluta til undir.
Eftir að Útgerðarfélagið tapaði málinu, og var gert að greiða rúmlega þrjá milljarða króna í gegnum Glitni og í ríkissjóð, skrifaði Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri þess, grein sem birtist í Kjarnanum. Þar sagði hann meðal annars að í fyrirspurn til Ríkisendurskoðanda sem hann hafi séð eftir að málflutningi lauk hafi sagt: „Það liggur skýrt fyrir að svokallaðar eftirstæðar eignir (retained assets) voru hluti af eignasafninu sem slitabú Glitnis framseldi ríkinu með samningi, dags. 10. desember 2015, um uppgjör á stöðugleikaeignum. „Um þessar eignir sagði starfsmaður Ríkisendurskoðanda ennfremur: „Eftirstæðar eignir, þ.m.t. afleiðusamningar, hafa allar verið metnar og færðar upp til eignar í efnahagsreikningi ríkissjóðs…”.
Lögmaður Orkuveitunar skoraði á Glitni HoldCo að leggja fram stöðugleikasamkomulag sitt við íslenska ríkið til að útkljá þetta mál endanlega. Við því varð félagið ekki. Það breytti engu í huga dómara Landsréttar. Þeir töldu ekki ljóst af málsgögnum að kröfuréttindi hefðu verið framseld íslenska ríkinu heldur talið að „einungis efnislegur ávinningur af innheimtu samninganna hefði verið framseldur íslenska ríkinu“.
Sömdu án þess að viðurkenna sekt
Orkuveitan bar líka fyrir sig að Glitnir HoldCo væri þegar búið að fá greitt vegna afleiðusamninganna í sátt sem félagið gerði við endurskoðunarfyrirtækið PwC ehf. um fébótagreiðslur vegna endurskoðunarstarfa þess fyrir Glitni á árunum 2007 og 2008.
Málið sem Glitnir höfðaði gegn PwC var ekkert smámál. Í stefnu þess, sem birt var í mars 2012 voru sérstaklega tilgreind fimm atriði þar sem PwC átti að hafa brotið gegn lög- og samningsbundnum skyldum sínum. Í fyrsta lagi hefði PwC ekki upplýst um að stjórnendur Glitnis hefðu veitt útlán til innbyrðis tengdra aðila langt umfram leyfileg hámörk, í öðru lagi leynt útlánaáhættu bankans til aðila sem töldust tengdir, í þriðja lagi veitt stórfelld útlán til fjárvána eignarhaldsfélaga, í fjórða lagi vanrækt afskriftarskyldu sína og í fimmta lagi vanrækt að upplýsa um þá gríðarlega miklu fjárhagslegu hagsmuni sem bankinn var með í eigin bréfum með þeim afleiðingum að eigið fé hans var verulega of hátt skráð.
Sáttir náðust milli Glitnis og PwC í nóvember 2013. Trúnaður ríkti um upphæðina sem PwC greiddi en í umfjöllun Kjarnans um hana frá þessum tíma kom fram að PwC hefði greitt hundruð milljóna króna til að komast hjá málshöfðun sem hinn fallni banki hafði höfðað á hendur PwC á Íslandi og í Bretlandi. Samkomulagið var gert „án viðurkenningar sakar“. Það snerist því um að endurskoðunarfyrirtækið greiddi bætur án þess að hafa viðurkennt að hafa gert nokkuð rangt.
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að Orkuveitunni hafi ekki tekist að sanna að sáttin við PwC hafi náð yfir afleiðusamninganna.
Hefði með saknæmum hætti leynt ógjaldfærni
Í þriðja lagi taldi Orkuveitan að Glitnir HoldCo hefði með saknæmum hætti leynt því að bankinn hefði í reynd verið ógjaldfær þegar þrír af afleiðusamningunum voru gerðir á árinu 2008.
Þannig hefði Glitnir aldrei getað staðið við sinn hluta samninganna ef á það hefði reynt og það ætti að leiða til ógildingar samninganna. Umræddir þrír samningar og framlengingar þeirra mynduðu að stofni til þann höfuðstól sem Glitnir HoldCo krafði Orkuveituna um í málinu.
Þessu var líka hafnað af Landsrétti.
Lestu meira:
-
11. janúar 2023Vatn á myllu kölska
-
10. janúar 2023Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
-
9. janúar 2023Fjármálaeftirlitið telur Íslandsbanka mögulega hafa brotið gegn lögum
-
8. janúar 2023Náttúra og umhverfi í forgang
-
8. janúar 2023Lífeyrissjóðir hafa ekki lánað meira verðtryggt á einum mánuði frá því fyrir faraldur
-
8. janúar 2023Sautján ár á milli ráðninga á konu í forstjórastóli hjá skráðu félagi
-
4. janúar 202314 félög lækkuðu í virði en fjöldi einstaklinga sem á hlutabréf þrefaldaðist á þremur árum
-
3. janúar 2023Vont vetrarveður en gæti verið (miklu) verra
-
2. janúar 2023Fréttablaðið hætt að koma inn um lúguna hjá fólki – Lestur hríðfallið og kostnaður aukist
-
2. janúar 2023Seðlabankinn gleymdi að telja séreignarsparnaðinn með í minnisblaði um greiðslubyrði