Heildarvirði seðla og mynta í umferð hérlendis nam tæpum 74 milljörðum króna í nóvember, sem er 2,2 prósent meira en virði þeirra í sama mánuði árið 2020, samkvæmt tölum frá Seðlabankanum. Aukningin á framboði reiðufjár á milli ára hefur ekki verið minni frá því í maí árið 2014. Sennilegt er að faraldurinn hafi leitt til aukins vilja til að geyma eignir sínar á því formi fyrst um sinn, en þó gætu viðskiptin með reiðufé hafa minnkað.
Mikið reiðufé eftir hrun
Hægt er að finna upplýsingar um framboð reiðufjár í umferð með því að draga innistæður innlánastofnana í seðlum og mynt frá tölum um heildarvirði útgefins reiðufjár. Báðar þessar tölur má finna á vefsíðu Seðlabankans.
Miklar sveiflur eru á þessum tölum á milli mánaða, líkt og myndin hér að neðan sýnir. Yfir lengri tímabil er framboðsaukningin þó nokkuð jöfn, en virði seðla og mynta í notkun hefur að meðaltali aukist um ellefu prósent á milli ára á síðustu níu árum. Þetta er svipuð aukning og á tímabilinu 2001 til 2007, en þá var meðalaukningin um níu prósent.
Í fjármálakreppunni 2008-2012 stórjókst hins vegar fjöldi seðla og mynta í umferð. Mest var aukningin í október árið 2008, en þá var heildarvirði seðla í umferð 108 prósentum meiri en á sama tíma árið áður. Aukningin hélst mikil í fjögur ár, en hún var að meðaltali um 34 prósent á milli ára frá október 2008 til október 2012.
Í kjölfar kórónuveirufaraldursins mátti svo sjá nokkra aukningu á seðlum og mynt í umferð, en frá apríl 2020 til mars 2021 nam ársaukningin að meðaltali níu prósentum. Mest var hún í október árið 2020, en þá var heildarvirði reiðufjár 12 prósentum meira en það á sama tíma árið áður.
Síðan þá hefur hratt dregið úr aukningunni með hverjum mánuði. Samkvæmt hagtölum Seðlabankans er það bæði vegna hægari aukningar á útgefnu fé bankans og meiri aukningar í reiðufjáreignum viðskiptabankanna.
Flótti í öruggar eignir
Stefán Arnarson, aðalféhirðir Seðlabanka Íslands, fjallaði um þróun reiðufjár á tímum faraldursins í grein sem hann skrifaði í Vísbendingu í fyrra. Samkvæmt honum er erfitt að greina notkun reiðufjár, þar sem það er bæði notað til viðskipta og til að geyma verðmæti.
Þó bendir hlutfallsleg aukning 10.000 króna seðla á árinu 2020 til þess að fólk hafi í auknum mæli viljað geyma eignir sínar í formi reiðufjár á tímum faraldursins.
Svo virðist sem mikið af aukningu 10.000 króna seðla í umferð hafi átt sér stað á fyrstu vikum faraldursins í mars og apríl. Daginn sem fyrsta samkomubannið var auglýst streymdu til dæmis út 350 milljónir króna af 10.000 króna seðlum.
Nú eru 10.000 króna seðlar 65,6 prósent af heildarvirði allra seðla. Seðillinn er líka næstvinsælastur á eftir þúsundkallinum, en rúmlega fjórði hver peningaseðill er 10.000 króna seðill.
Samkvæmt Stefáni er möguleg skýring á þessari fjölgun sú að fólk hafi brugðist við óvissu í efnahagsmálum með því að færa eignir sínar inn á öruggara form, þ.e. íslenskt reiðufé. Hann segir að þessi hegðun, sem kölluð er „flight to quality“ á ensku, birtist til dæmis sem ásókn í gull á óvissutímum.
Minni viðskipti með reiðufé
Í grein sinni nefnir Stefán einnig að ýmsar birtingamyndir faraldursins og niðursveiflunnar sem honum fylgdi hafi án efa leitt til minni viðskipta með reiðufé. Þeirra á meðal eru aukin netverslun, takmarkað aðgengi að þjónustu í útibúum og hvatning yfirvalda til að nota snertilausar greiðslulausnir.
Einnig gæti fækkun ferðamanna einnig leitt til minni viðskipta með reiðufé, en þeir komu með allt að einum milljarði íslenskra króna í seðlum og myntum með sér til Íslands í hverjum mánuði þegar ferðamannagóðærið stóð sem hæst. Sömuleiðis gæti aukin notkun sjálfsafgreiðslukassa í dagvöruverslunum ýtt undir kortanotkun hjá íslenskum neytendum, á kostnað reiðufjárnotkunar.
Verðbólgan meiri í fyrsta skipti frá 2012
Líkt og myndin hér að ofan sýnir hefur aukning reiðufjár í umferð yfirleitt verið meiri heldur en verðbólgan hérlendis á síðustu árum. Frá því í júlí á síðasta ári hefur þessu hins vegar verið öfugt farið og var verðbólgan um það bil tvöfalt meiri en reiðufjáraukningin í nóvember.
Þetta er í fyrsta skipti sem verðbólga hefur mælst meiri en aukning reiðufjár í umferð frá áramótum 2012 og 2013, en þá var verðbólgan 3,7 prósent á meðan virði reiðufjár jókst um 4,2 prósent frá síðasta ári.