Morðtíðni hefur aukist hratt í borgum Bandaríkjanna að undanförnu og er varla nein borg í landinu þar undanskilin. Mesta aukningin er í Milwaukee þar sem 104 morð hafa verið framin á þessu ári en á sama tíma í fyrra voru 59 morð framin. Það er 76 prósent aukning milli ára, samkvæmt upplýsingum frá bandarískum stjórnvöldum sem kynntar voru í morgun.
Aukning mælist mikil í flestu stóru borgum Bandaríkjanna. Í Dallas hafa 83 verið myrtir á þessu ári en á sama tíma í fyrra var 71 myrtur. Í Chicago, þar sem flest morð eru framin, hafa 294 einstaklingar verið myrtir á þessu ári en þeir voru 244 á sama tíma í fyrra. Það eru aukning um 20 prósent.
Í New York, sem um árabil var mesta glæpaborg Bandaríkjanna, eins og Kjarninn fjallaði ítarlega um fréttaskýringu 5. ágúst síðastliðinn, hefur aukningin einnig verið þó nokkur, eða um níu prósent á milli ára. Samtals hafa 208 einstaklingar verið myrtir í New York á þessu ári en á sama tíma í fyrra voru þeir 190.
En mikill munur er á tíðninni þegar kemur að því bera saman stærð borganna. Í Milwaukee eru íbúar um 600 þúsund, en í New York 8,4 milljónir, svo dæmi sé tekið.
Eins og sést á þessari mynd, sem New York Times birti í morgun, hefur mikil aukning verið í flestum stærstu borgum Bandaríkjanna. Mynd: New York Times.
Félagsleg vandamál vegna versnandi efnahags
Skýringarnar á aukningunni eru ekki augljósar, að sögn lögregluyfirvalda. En þó telja þau sig greina samhengi á milli versnandi efnahags íbúa í tilteknum hverfum og aukinna glæpa og morða. Það er gömul saga og ný, hér í Bandaríkjunum, að skýrt samhengi sé á milli glæpa og slæmra félagslegra aðstæðna. Eftir langt tímabil þar sem morðtíðni hefur minnkað mikið þá virðist sem þróunin sé að snúast við. Og það veldur skiljanlega áhyggjum. Garry McCarthy, lögreglustjóri í Chicago, segist ekki vera í neinum vafa um að mikil útbreiðsla á skotvopnum sé í það minnsta hluti skýringarinnar. Eins og Kjarninn fjallaði um á dögunum, þá hefur sala á skotvopnum í Bandaríkjunum aukist umtalsvert milli ára, og þá einkum á ódýrum byssum, bæði skammbyssum og stærri vopnum. Hann segist ennfremur sjá mynstur þar sem illa virðist ganga að fylgjast með síbrotafólki. „Þeir sem eru að fremja morðin er ekki fólk sem hefur aldrei áður tengst glæpum. Þetta er sama fólkið og lögregluyfirvöld eru að berjast við alla daga. Það er umhugsunarefni fyrir okkur, því við þurfum að finna leiðir til þess að fylgjast betur með þeim sem eru oft að brjóta af sér, því annars endar það illa,“ segir McCarthy.
Innanmein sem erfitt er að verjast
Aukin tíðni morða er ekki rakin til gengja bardaga eða skipulagðrar glæpastarfsemi að þessu sinni, eins og raunin var vítt og breitt um Bandaríkin í kringum 1990. Þá blómstraði „gengjamenning“ þar sem miskunnarlausu ofbeldi var beitt til þess að vernda yfirráðasvæði. Hún er ekki eins áberandi nú og hún var, en almennt er álitið að skipulögð starfsemi sé kerfisbundnari nú en áður og um margt illviðráðanlegri.
Michael S. Harrison, lögreglustjóri í New Orleans, segist sjá aukningu í glæpum inn á heimilum fólks og á þessu ári sú flest morð í hans umdæmi rakin til deilna innan fjölskyldna eða vinahópa. Því miður sé erfitt að verjast glæpum sem þessum með betri löggæslu, segir hann, en tengingin milli einangrunar og versnandi lífsafkomu í vissum borgarhlutum í Bandaríkjunum virðist augljós. „Það þarf mikið átak til þess að snúa svona þróun við,“ segir Harrison í viðtali við New York Times, vitnar til þess að langtímaatvinnuleysi hafi aukist á vissum svæðum, og því fylgi oft aukin tíðni glæpa og erfiðleika. Undir þetta tekur Tom Barrett, borgarstjórinn í Milwaukee. „Ég, og við stjórnmálamenn, þurfum að sannfæra unga fólkið um að það hafi hlutverk í okkar samfélögum. Það má ekki upplifa sig utangátta eins og það hafi ekki neitt hlutverk,“ sagði Barrett.
#Chicago's murder rate is up 20% from last year & is one of many cities nationwide seeing an increase in homicides. http://t.co/zMgsLkFaRb
— The Chicago Reporter (@ChicagoReporter) September 1, 2015