Þórsmörk, eigandi Árvakurs, útgáfufélag Morgunblaðsins og tengdra miðla, og dótturfélög þess frestuðu greiðslu á staðgreiðslu launa starfsmanna og tryggingagjaldi í fyrra upp á alls 192,9 milljónir króna. Um er að ræða vaxtalaust lán úr ríkissjóði sem þarf að endurgreiðast fyrir mitt ár 2026. Greiðslur eiga að hefjast síðar á þessu ári.
Þetta kemur fram í samstæðureikning Þórsmerkur sem birtur var í ársreikningaskrá Skattsins í gær.
Úrræðið um frestun skattgreiðslna var ein þeirra efnahagslegu aðgerða sem ríkisstjórnin kynnti til leiks fyrir fyrirtæki til að takast á við efnahagsleg áhrif kórónuveirufaraldursins. Auk þess fékk Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, rúmlega 81 milljónir króna í rekstrarstyrk úr ríkissjóði í fyrra.
Leynd yfir því hverjir skipta greiðslum
Þegar ríkisstjórnin kynnti svo fyrsta efnahagspakka sinn 21. mars var ein aðgerðin þar sú að fresta mætti þremur gjalddögum staðgreiðslu og tryggingargjalds á tímabilinu 1. apríl til 1. desember til viðbótar ef fyrirtæki gæti mætt ákveðnum skilyrðum.
Þegar kom að því að gera upp skuldina snemma árs 2021 var ákveðið að veita rýmri frest til að gera það. Í fyrravor töldu stjórnvöld svo að það þyrfti að veita þeim aðilum sem þurftu á því að halda vegna rekstrarerfiðleika enn frekari fresti á því að standa skil á umræddum skattgreiðslum.
Lögin sem heimildin til að dreifa þeirri skuld við ríkissjóð til ársins 2026 byggir á voru samþykkt á Alþingi 11. maí 2021. Þau byggja á frumvarpi sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram. Samkvæmt þeim gátu þau fyrirtæki sem uppfylltu ákveðin skilyrði, sem snúa aðallega að því að umsækjandi sé ekki í vanskilum með önnur opinber gjöld, fengið að fresta því í fjögur ár til viðbótar að gera upp upp skuldina. Þórsmörk og dótturfélög þess nýttu ekki úrræðið 2020 en gerðu það, líkt og áður sagði, í fyrra til að fresta 192,9 milljóna króna greiðslu launatengdra gjalda.
Kjarninn kallaði í fyrrasumar eftir upplýsingum um hvaða aðilar hefðu sótt um og fengið að fresta greiðslum á staðgreiðslu og tryggingagjaldi í allt að sex ár, vaxtalaust. Þeirri beiðni var hafnað á grundvelli þess að gögnin falli undir sérstaka þagnarskyldu laga um innheimtu opinberra skatta og gjalda. Í svarinu sagði að starfsmönnum Skattsins bæri að halda þessum upplýsingum leyndum að viðlagðri refsiábyrgð. „Gögnin varða m.a. efnahag gjaldanda en upplýsingar um skuldastöðu falla undir framangreint ákvæði. Þar sem gögnin falla undir sérstaka þagnarskyldureglu [...] um innheimtu opinberra skatta og gjalda, taka upplýsingalög [...] ekki til þeirra. [...] Með vísan til þessa er beiðni þinni hafnað um að fá afhend framangreind gögn.“
Birtu frétt um hagnað
Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu í byrjun maí var greint frá því að Þórsmörk hefði verið rekið með 186 milljón króna hagnaði á síðasta ári og að tekjur þess hefðu aukist um 300 milljónir króna á árinu 2021. Ekki var minnst á hið vaxtalausa lán sem samstæðan fékk úr ríkissjóði. Þar kom einnig fram að Árvakur hefði skilað 110 milljóna króna hagnaði. Árvakur á svo nokkur dótturfélög, meðal annars Landsprent, sem prentar Morgunblaðið og ýmsa aðra prentmiðla landsins.
Ársreikningi Árvakurs hefur verið skilað inn til ársreikningaskrár. Það gerðist á miðvikudag. Reikningurinn hefur hins vegar ekki verið gerður aðgengilegur.
Það er þó ársreikningur Landsprents. Í honum kemur fram að prentsmiðjan hagnaðist um 195,4 milljónir króna í fyrra. Það er meiri hagnaður en árið áður en rekstrartekjur drógust þó saman og voru 709,4 milljónir króna. Árvakur er á meðal stærstu viðskiptavina prentsmiðjunnar og skuldar þessu dótturfélagi sínu háar fjárhæðir. Á síðasta ári jukust skuldir tengdra aðila við Landsprent úr 476,5 milljónum króna í 730,2 milljónir króna. Landsprent nýtti sér úrræði stjórnvalda um frestum launatengdra gjalda og frestaði alls 13,2 milljóna króna greiðslum.
Stundin greindi frá því í lok september í fyrra að 40 prósent verðhækkun eða meiri væri yfirvofandi á dagblaðapappír og vitnaði þar í tilkynningu sem Landsprent hafði sent viðskiptavinum sínum en Landsprent prentar meðal annars Stundina.
Í áðurnefndri frétt í Morgunblaðinu, þar sem greint var frá rekstrarniðurstöðu Þórsmerkur og Árvakurs, kom einnig fram að annað dótturfélag Árvakurs, Ár og Dagur ehf. hefði keypt húsnæðið sem ritstjórnarskrifstofur Árvakurs eru til húsa í Hádegismóum á tæplega 1,6 milljarð króna af fasteignafélaginu Regin.
Samnefnt félag, Ár og Dagur ehf., var eitt sinn útgáfufélag fríblaðs sem bar nafnið Blaðið. Árvakur keypti þá útgáfu í tveimur skrefum fyrir bankahrun og breytti nafni fríblaðsins í 24 Stundir. Það blað hætti að koma út í sömu viku og bankarnir féllu í október 2008. Núverandi Ár og Dagur ehf. var hins vegar stofnað 2008. Samkvæmt ársreikningi átti það félag eignir upp á 262 þúsund krónur um síðustu áramót í formi kröfu á tengdan aðila og skuldaði ekkert. Í ársreikningi Árvakurs 2020 er félagið sagt ekki vera í rekstri.
Í ársreikningi Þórsmerkur kemur fram að samhliða kaupum Árs og Dags ehf. á skrifstofuhúsnæðinu í Hádegismóum hafi „öll bankalán verið endurfjármögnuð og hlutafé aukið.“
Hlutafjáraukning í byrjun árs
Kjarninn greindi frá því í mars að hlutafé í Þórsmörk hafi verið aukið um 100 milljónir króna þann 31. janúar síðastliðinn. Aðilar tengdir Ísfélagi Vestmannaeyja og félag í eigu Kaupfélags Skagfirðinga greiddu stærstan hluta hennar.
Frá því að nýir eigendur tóku við rekstri Árvakurs í febrúar 2009 undir hatti Þórsmerkur og til loka árs 2020 hefur útgáfufélagið tapað yfir 2,5 milljörðum króna. Eigendahópurinn, sem hefur tekið einhverjum breytingum á tímabilinu, hefur nú lagt Árvakri til samtals tvo milljarða króna í nýtt hlutafé.
Þegar nýju eigendurnir tóku við rekstrinum var Morgunblaðið, flaggskip útgáfunnar, lesið af rúmlega 40 prósent þjóðarinnar. Í síðustu birtu mælingu Gallup á lestri prentmiðla var sá lestur kominn niður í 18 prósent og hefur aldrei mælst lægri. Lestur blaðsins hjá 18-49 ára mælist 9,1 prósent.
Vefur útgáfunnar, Mbl.is, var lengi vel mest lesni vefur landsins en síðustu misseri hefur Vísir.is, vefur í eigu Sýnar, stöðugt mælst með fleiri notendur. Mbl.is hefur þó enn vinninginn þegar kemur að fjölda flettinga en miðlarnir tveir hafa undanfarið verið með nánast sama fjölda innlita á viku.