Bandaríkjamenn taka um þessar mundir við formennsku í Norðurskautsráðinu en leiðtogafundur ráðsins stendur nú yfir í Iqaluit í Kanada. Það er skipað ríkjunum átta sem liggja að norðurslóðum, Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Kanada, Rússlandi og Svíþjóð—en auk þess eiga samtök frumbyggja á svæðinu fasta aðild. Of snemmt er að meta hvort órói vegna framferðis Rússa undanfarið muni hafa langvarandi áhrif á samstarfið á vettvangi ráðsins. Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands mætti ekki til fundarins nú, sem er viðsnúningur frá fyrri tíð – auk þess sem Dmitry Rogozin aðstoðar-forsætisráðherra hefur verið með ögrandi yfirlýsingar.
Íslendingar eiga mikið undir því að Norðurskautsráðið eflist og því er mikilvægt að skoða stefnu Bandaríkjamanna í málefnum norðurslóða og afstöðu þeirra til ráðsins. Bandaríkjamenn eiga umtalsverðra beinna hagsmuna að gæta á norðurslóðum – þeir eiga meira en 1500 kílómetra langa strandlengju sem liggur að norðurskautssvæðinu – en talið er að einn þriðji vinnanlegrar olíu á svæðinu liggi í jarðlögum undan ströndum Alaska-fylkis. Bandaríkjamenn hafa sýnt vilja til að efla Norðurskautsráðið sem nærvera utanríkisráðherranna, John Kerry og Hillary Clinton, á síðustu fundum ráðsins sýnir glögglega.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, stillir sér upp fyrir svokallaða „selfie“ ljósmynd á síðasta fundi Norðurskautsráðsins. Mynd: EPA
Innan bandaríska stjórnkerfisins eru loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra að verða viðurkennt vandamál. Stofnanir eins og varnarmálaráðuneytið eru farnar að setja þjóðaröryggi í samhengi við alþjóðlegt öryggi og Obama-stjórnin hefur lagt fram ítarlega stefnu um norðurskautssvæðið. Þar vekur athygli að undirstrikað er mikilvægi Hafréttarsáttmálans, að Bandaríkjamenn muni virða ákvæði hans og vinna að fullgildingu. Einhver kynni að spyrja hvers vegna áhersla sé lögð á Hafréttarsáttmálann þar sem Bandaríkjamenn hafi ekki enn fullgilt hann – en hafa verður í huga að nærri algilt er um alþjóðalög að ríki leitast við virða þau hvað sem fullgildingu líður.
Snemma árs 2014 var kynnt skýrsla um hvernig hinni nýju stefnu skuli framfylgt. Þar eru áréttuð þrjú meginhagsmunamál Bandaríkjanna hvað varðar norðurslóðir; að tekið sé tillit til þjóðaröryggis; að gætt sé að ábyrgri umgengni og umsjón með svæðinu; og að stuðlað sé að alþjóðlegri samvinnu. Þar er ennfremur tilgreint hvernig koma skuli upp öryggiskerfum hvað varðar fjarskipti og veðurathuganir, og að safnað skuli saman og gerð aðgengileg þekking á þróun lífríkis og náttúru vegna þeirra breytinga sem eru að verða—allt í góðri samvinnu við innfædda á svæðinu. Þó hefur stefnan verið gagnrýnd, að það skorti að tekið sé af skarið með raunverulega framkvæmd. Bandaríkjamenn séu um það bil tíu árum á eftir því sem mætti kalla ásættanlega áætlun í norðurslóðamálum hvað varðar uppbyggingu innviða sem snúa að samgöngum, hafnarmannvirkjum og fjarskiptum.
Þegar lesið er á milli línanna í orðalagi stefnunnar, sést að þar er talað um þjóðir en ekki ríki, mögulega til að skírskota frekar til innfæddra íbúa svæðisins sem hafa átt undir högg að sækja gagnvart hinum fullvalda ríkjum. Einnig eru ríkin átta sem eru burðarásinn í Norðurskautsráðinu talin sérstaklega upp, því Bandaríkjamenn hafa lagt áherslu á óskorað vægi ráðsins. Skemmst er að minnast þess er Hillary Clinton, þáverandi utanríkisráðherra, setti ofan í við Kanadamenn fyrir að hafa boðað til fundar og undanskilið Íslendinga, Finna, Svía og innfædda íbúa svæðisins – hins svokallaða fimm ríkja-samstarfs – sem reyndar hefur ekki verið áberandi eða náð að skyggja á Norðurskautsráðið sjálft.
Blikur á lofti?
Svo virðist sem Bandaríkjamenn einsetji sér að viðhalda friðsamlegu ástandi á norðurslóðum og hafi þar ekki uppi hernaðarlegar áætlanir. Bandaríski flotinn gaf nýlega út áætlun um norðurslóðir til ársins 2030 og þar er talin lítil hætta á átökum á svæðinu í fyrirsjánlegri framtíð. Þó getur brugðið til beggja vona og hugsanlegt að deilur við Rússa vegna ógnandi hegðunar þeirra gætu breytt stöðunni. Má þar nefna aukinn hernarðarlegan viðbúnað Rússa á norðurskautssvæðinu og nýlega atburði á Krímskaga sem hafa sett samstarf NATO við Rússa í bið. Mikilvægt er þó að hafa í huga að Rússar taka enn virkan þátt í starfi Norðurskautsráðsins.
Hér er ekki gert lítið úr ógnandi tilburðum Rússa á alþjóðavettvangi undanfarin misseri. Þó er varasamt að túlka aukna hernaðarlega uppbyggingu þeirra á svæðinu norður af Rússlandi sem beina hernaðarlega ógn. Þetta styðja ummæli Roberts J. Papp, fyrrum aðmíráls og sérstaks fulltrúa Hvíta hússins í málefnum norðurslóða, sem telur Rússa ekki vera að hernaðarvæða norðurslóðir. Þeir eiga þar þrátt fyrir allt um 17.500 kílómetra langa strandlengju og hafa lagt í talsverðar fjárfestingar í höfnum og annarri nauðsynlegri þjónustu vegna norður-siglingaleiðarinnar. Í því samhengi hefur verið bent á að öll starfsemi sem snýr að leit og björgun verði að miklu leyti á hernaðarlegum grunni vegna þess hversu svæðið er víðfemt og aðstæður erfiðar.
Papp bendir einnig á að hvað sem atburðum í öðrum heimshlutum líður, meðal annars í Úkraínu, sé mikilvægt að kynda ekki undir tortryggni og halda tengslum við Rússa. Þannig megi tryggja áfram friðsamlegt samstarf um norðurslóðir og þau brýnu mál sem þar bíða úrlausna, eins og umhverfismál. John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna tók í sama streng í ræðu sinni á leiðtogafundinum í gær. Hann hvað aukin hernaðarumsvif myndu ekki hafa áhrif á starfsemi Norðurskautsráðsins – þau mál mætti ræða annarsstaðar – en lagði áherslu á mikilvægi samstarfs svo bregðast mætti við loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á lífríki svæðisins.
Vladimir Pútin - Rússar hafa þótt sýna ógnandi framkomu á alþjóðavettvangi undanfarin misseri. Mynd: EPA
Hvernig snertir stefnan Ísland?
Þegar norðurslóðastefna Bandaríkjanna er skoðuð er ekki að merkja að Ísland komi þar mikið við sögu. Ekki þarf þó að vera að opinber stefnumótun afhjúpi allar áætlanir sem á borðinu eru, en athygli vekur þó að Ísland er aldrei nefnt í skýrslu um stefnumótun bandaríska varnarmálaráðuneytisins, um framtíðaráform á norðurslóðum. Þar er hins vegar m.a. vísað í samstarf um björgunar og heræfingar við Kanadamenn, Grænlendinga og Norðmenn.
Því má ekki gleyma að þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hafi lokað Keflavíkurstöðinni hafa þeir enn öfluga fótfestu í Thule á Grænlandi, sem var og hefur verið mikilvægur hlekkur í varnarkeðjunni á norðurslóðum. Hugsanleg umskipti á Grænlandi með meiri ítökum Kínverja, og jafnvel Rússa, gætu sett þrýsting á Bandaríkjamenn um að skerpa á stöðu sinni þar. Ef Grænlendingar settu Bandaríkjamönnum stólinn fyrir dyrnar með aukinni samvinnu við Kína eða Rússa myndi það hugsanlega færa áherslur Bandaríkjanna að Íslandi. Hafa ber í huga að í gildi er varnarsamningur milli ríkjanna og nothæf aðstaða á Keflavíkurflugvelli, svo hægt væri að koma upp starfsemi á Íslandi með tiltölulega skömmum fyrirvara.
Reynsla smáríkja sýnir að efling alþjóðlegs samstarfs er þeim í hag. Á það við um formlega samninga og sáttmála sem meðal annars lúta að auðlindanýtingu, umhverfisvernd og öryggismálum. Á vef utanríkisráðuneytisins, þar sem fjallað er um auðlinda- og umhverfismál, er áréttað að nýting tækifæra á norðurslóðum krefjist virkrar milliríkjasamvinnu á grundvelli þjóðaréttar. Sú stefna sem Bandaríkjamenn hafa boðað, með frekari eflingu Norðurskautsráðsins og áherslu á umhverfismál, verður að teljast Íslendingum til hagsbóta og gefa jafnframt vonir um áframhaldandi friðsamlegt ástand á norðurslóðum.