Djokovic, sem er einn fremsti tennisspilari heims í karlaflokki, stefnir á þátttöku á Opna ástralska meistaramótinu sem hefst í Melbourne 17. janúar. Bólusetning er skilyrði fyrir þátttöku en Djokovic er óbólusettur og hefur talað gegn bólusetningum. Hann sótti um undanþágu sem yfirvöld í Viktoríu-fylki veittu honum, líkt og nokkrum öðrum keppendum. Þegar Djokovic kom til landsins á miðvikudag var honum hins vegar meinuð innganga í landið af landamæravörðum. Djokovic hefur kært ákvörðunina og mun dómstóll skera úr um á morgun, mánudag, hvort honum verði vísað úr landi eða ekki.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, var í fyrstu hlynntur ákvörðun yfirvalda í Viktoríu-fylki um að veita Djokovic undanþágu en skipti síðar um skoðun þar sem hann sagði að enginn ætti að vera hafinn yfir gildandi reglur. Undanþágan er veitt af læknisfræðilegum ástæðum og fyrst um sinn var ekki gefið upp á hvaða forsendum undanþágan var veitt en í réttarskjölum sem gerð voru opinber í gær kemur fram að Djokovic hefði smitast af Covid-19 16. desember og því hafi undanþágan verið samþykkt af Tennissambandi Ástralíu. Athygli vekur að á Twitter-síðu Djokovic má sjá færslu frá 17. desember þar sem hann tekur á móti viðurkenningu í Serbíu fyrir afrek sín, grímulaus.
An honor to receive my very own Serbian stamp. Thank you to my generous country for this rare gift! I’m humbled!! Excited to share we’ll partner with the Serbian National Postal Service on @novakfoundation projects for every child to have the opportunity to attend preschool 🙏🏼 pic.twitter.com/Ww8Zma95NU
— Novak Djokovic (@DjokerNole) December 17, 2021
Lagaleg og pólitísk flækja
Morrison hefur verið sakaður um að gera undanþágubeiðni Djokovic að pólitísku máli. Aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins hafa verið hvað harðastar í Ástralíu þar sem íbúar hafa búið við strangar takmarkanir svo mánuðum skiptir. Um 90 prósent Ástrala eru bólusettir en sóttvarnareglur voru aftur hertar nýlega vegna ómíkron-afbrigðisins. Auk þess eru strangar reglur á landamærunum þar sem aðeins tvíbólusettum einstaklingum eða þeim sem hafa læknisfræðilega undanþágu frá bólusetningu er hleypt inn í landið. Morrison er undir þrýstingi, þingkosningar fara væntanlega fram í maí, en forsætisráðherrann þvertekur fyrir að afturköllun vegabréfsáritunar Djokovic hafi eitthvað með tengsl Ástralíu við Serbíu að gera.
Djokovic hefur einmitt vakið athygli fyrir það á íþróttaferli sínum að biðja bænir, meðal annars í þeim tilgangi að hreinsa mengað vatn. Þá hefur hann setið inni í egglaga belg á stórmótum í þeim tilgangi að auka blóðstreymi líkamans og auka framleiðslu rauðra blóðkorna. Þessar óhefðbundnu aðferðir Djokovic hafa mest megnis vakið upp kátínu meðal stuðningsmanna hans. Þar til nú.
Umræða um bólusetningar virðist ekki falla vel inn í íþróttaheiminn. Mál Djokovic hefur sett af stað umræðu um að íþróttafólk eigi ekki að fá undanþágu einungis vegna stöðu sinnar. Íþróttafólk hefur hingað til, ekki síst fyrir tilstuðlan samfélagsmiðla, getað komið skoðunum sínum óáreitt á framfæri svo lengi sem þær skaða ekki aðra. En þegar skoðununum fylgir að fara eftir öðrum reglum en allir aðrir breytist staðan.
„Almenningur heldur áfram að bregðast vel við þegar íþróttafólk tjáir sig um málefni sem hafa samfélagsleg áhrif og hafa jákvæð áhrif á líf fólks,“ segir Michael Lynch, fyrrverandi yfirmaður markaðsmála íþrótta hjá Visa, í samtali við blaðamann New York Times. Lynch hefur einnig starfað sem ráðgjafi í íþróttaheiminum um langa hríð og segir hann það vera neikvæða þróun ef einhverjir ætli að taka afstöðu með skoðunum sem geta stofnað lífi fólks í hættu.
Rafael Nadal, helsti keppinautur Djokovic, er á meðal þeirra sem hafa tjáð sig um þá stöðu sem upp er komin. Nadal segir Djokovic frjálst að taka eigin ákvarðanir. „En það eru afleiðingar og mér líkar ekki við þá stöðu sem er komin upp,“ sagði Nadal á blaðamannafundi. Hann segist finna til með Djokovic að vissu leyti en að hann hafi vitað með margra mánaða fyrirvara að bólusetning væri skylda fyrir þátttöku á mótinu. „Heimurinn hefur þjáðst of mikið til að þurfa að sætta sig við þá sem fara ekki eftir settum reglum,“ sagði Nadal og yppti öxlum, furðu lostinn yfir ástandinu.
Umdeilt innflytjendahótel
Foreldrar Djokovic hafa einnig tjáð sig um stöðuna og segja þau Djokovic vera fanga ástralskra yfirvalda. Flóttamenn og hælisleitendur hafa verið vistaðir á hótelinu sem Djokovic dvelur á og hafa stuðningsmenn hans safnast saman fyrir utan hótelið. En þar hafa einnig aðgerðasinnar í innflytjendamálum komið saman þar sem þeir vonast til að dvöl Djokovic á hótelinu veki athygli á slæmri aðstöðu sem innflytjendur og hælisleitendur hafa þurft að búa við á hótelinu.
Mohammad Joy Miah hefur dvalið á hótelinu í nokkurn tíma og segist vera andlega niðurbrotinn. „Ég hef hvorki fengið að fara út í dagsbirtuna eða andað að mér fersku lofti. Líf mitt er herbergið,“ segir hann í samtali við BBC. Þá deildi hann mynd af mat sem hann fékk sendan upp á herbergi í lok desember en þar mátti finna maðk. „Ég borðaði tvo eða þrjá sem voru í brokkolíinu mínu áður en vörðurinn samþykkti að fjarlægja máltíðina,“ segir hann. Vera Djokovic á hótelinu hefur óneitanlega vakið athygli, en tilfinningar þeirra sem einnig eru á hótelinu eru blendnar. „Fjölmiðlar munu fjalla meira um okkur og líklega heimurinn allur, bara af því að Djokovis verður hérna í nokkra daga, sem er í raun mjög sorglegt,“ segir Mehdi Ali, hælisleitandi sem dvelur á hótelinu. Hann hefur rætt við fjölmarga fjölmiðla um mál Djokovic og er gagnrýninn á þá í færslu á Twitter. „Ég er búinn að vera í búri í níu ár, ég er 24 ára í dag og eina sem þið viljið tala um við mig er þetta [mál Djokovic],“ tísti Mehdi Ali á afmælisdaginn sinn á fimmtudag.
It's so sad that so many journalists contacted me yesterday to ask me about Djokovic. I've been in a cage for 9 years, I turn 24 today, and all you want to talk to me about is that.
— Mehdi Ali (@MehdiAli98) January 6, 2022
Pretending to care by asking me how I am and then straight away asking questions about Djokovic.
Hver verður niðurstaðan?
En mun Djokovic geta talað sig inn á Opna ástralska meistaramótið? Það gæti skýrst á mánudag þegar ákvörðun yfirvalda um að vísa honum úr landi verður tekin fyrir. Mótið er mikilvægt fyrir Djokovic sem á möguleika á vinna það í tíunda skipti og tekið þannig fram úr sínum helstu keppinautum, Rafael Nadal og Roger Federer, en allir þrír hafa unnið 20 risamót í tennis.Staðreyndin að Djokovic er á meðal fremstu og þekktustu tennisspilara heims skiptir máli í stóra samhenginu. „Allir vissu að hann væri væntanlegur og ég held að það sé ekki ásættanlegt ef ríkisstjórnin segir að hún hafi ekki vitað málavöxtu fyrr en hann kom til Ástralíu. Þau leyfðu honum að fara um borð í flugvélina.“ segir Mary Crock, sérfræðingur í innflytjendalögum við Háskólann í Sydney, í samtali við BBC.
Fyrirliggjandi gögn benda til að Djokovic mun að öllum líkindum ekki hafa betur í dómsal á morgun. En ef það verður niðurstaðan, til að mynda ef dómarinn snýr við ógildingu yfirvalda á vegabréfsáritun Djokovic verður honum frjálst að koma inn í landið og gefst þá vika til að undirbúa sig fyrir mótið, svo lengi sem yfirvöld aðhafast ekki frekar í málinu.
Ef hann hins vegar tapar málinu gæti hann vísað því til áfrýjunardómstóls. Það gæti þó reynst dýrkeypt þar sem það mun að öllum líkindum taka um viku að koma málinu á dagskrá og þá verður Djokovic enn í málaferlum þegar mótið hefst, í engri leikæfingu og enn á flóttamannahótelinu umdeilda.