Wikileaks, í samstarfi við Kjarnann og níu aðra fjölmiðla víðsvegar um heiminn, birtir í dag 17 ný leyniskjöl úr TISA-viðræðunum svokölluðu. Viðræðurnar, sem er ætlað að auka frelsi í þjónustuviðskiptum, hafa staðið yfir frá vormánuðum ársins 2013 og vonast þau ríki sem taka þátt í þeim að viðræðunum ljúki á næsta ári. Alls taka 23 aðilar þátt í þeim (Evrópusambandið, sem kemur fram fyrir sín 28 aðildarlönd, er talið sem einn aðili í viðræðunum), þeirra á meðal er Ísland.
Því eru alls 50 lönd þátttakendur í viðræðunum. Þau lönd sem taka þátt í viðræðunum eru samtals ábyrg fryir um tveimur þriðju hluta heimsframleiðslunnar. Þjónustuviðskipti eru ábyrg fyrir um 80 prósent af þjóðarframleiðslu í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu. Því er ljóst að mikið er undir.
Skjölin sem eru birt í dag fjalla um mörg mismunandi þjónustusvið. Þeirra á meðal er flutningaþjónusta í lofti, rafræn viðskipti, flæði vinnuafls, fjarskiptaþjónustu, fjármálaþjónustu og aukið gagnsæi varðandi ákvarðanir og ráðstafanir ríkisstjórna.
Hægt er að nálgast þau með því að ýta á hlekkina hér að neðan.
TISA Annex on Air Transport Services
TISA Annex on Competetive Delivery Services
TISA Annex on Domestic Regulation
TISA Annex on Electonic Commerce
TISA Annex on International Maritime Transport Services
TISA Annex on Movement of Natural Persons
TISA Annex on Professional Services
TISA Annex on Telecommunications Services
EU Cover Note on Reservations
TISA Financial Services Negotiating Text
TISA Japan Analysis of Committed Related Provision
TISA Japan Separate From And Accountable
TISA Japan UPU Clarification On USO
TISA Transparency Negotiating Text (previous)
TiSA Transparency Negotiating Text
Viðræður um að auka frelsi í þjónustuviðskiptum
TISA stendur fyrir Trade in Services Agreement. Viðræðurnar eru marghliða og snúast um að auka frelsi í þjónustuviðskiptum milli landa. Yfirlýst markmið þeirra er að fækka hindrunum í vegi fyrirtækja sem starfa á vettvangi þjónustuviðskipta og auka gegnsæi í milliríkjaviðskiptum með þjónustu. Samningsviðræðurnar skipta Ísland miklu máli enda spanna þátttökuríkin helstu markaðssvæði íslenskra fyrirtækja.
Einungis einn almennur alþjóðlegur samningur um þjónustuviðskipti hefur verið gerður í sögunni. Hann gengur undir nafninu GATS og gekk í gildi árið 1996. Síðan hefur ekki náðst að semja um nýja lausn sem tekur tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á heiminum undanfarna tæpa tvo áratugi.
Skjölin sem nú eru birt eru úr viðræðulötum sem fóru fram í apríl í fyrra og í janúar og febrúar í ár.
Tvívegis áður birt skjöl úr TISA-viðræðum
Kjarninn hefur tvívegis áður tekið þátt í birtingu leyniskjala úr TISA-viðræðunum.
Í júní 2014 birti Kjarninn og ýmsir fjölmiðlar víða um heim, í samstarfi við Wikileaks, fyrstu leyniskjölin sem láku úr TISA-viðræðunum.
Í þeim kom fram að vilji væri til þess að vinda ofan af því regluverki sem sett hefur verið á fjármálaþjónustu eftir hrun, liðka fyrir veru lykilstjórnenda og sérfræðinga í fjármálageiranum í öðrum löndum en þeirra eigin umfram aðra og setja upp einhvers konar yfirþjóðlegan dómstól til að taka ákvarðanir um deilumál sem munu spretta upp á milli fjármálafyrirtækja og þjóða í framtíðinni.
Á forsíðu skjalanna sem Wikileaks lét Kjarnann hafa sagði meðal annars að ekki mætti aflétta trúnaði á þeim fyrr en fimm árum eftir að TISA-samkomulagið taki gildi eða fimm árum eftir að viðræðunum ljúki, fari svo að samningar náist ekki. Á skjölunum stendur að þau verði að „vera vistuð í lokaðri eða öruggri byggingu, herbergi eða hirslu“.
Viðræðurnar fara líka fram utan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og lúta því ekki þeim reglum sem gilda um þá stofnun. Ljóst er á skjölunum frá bæði Wikileaks og nú AWP að vilji er til þess að auka frelsi í að selja þjónustu milli landa allverulega.
Það er þó ekki vilji til þess á meðal þeirra sem fara með viðræðurnar fyrir hönd Íslands að það hvíli nein sérstök leynd yfir þeim.
Tyrkir leggja fram tillögu um aukna samkeppni í heilbrigðisgeira
Í byrjun febrúar greindi Kjarninn síðan frá því að tillaga hafi verið lögð fram um viðauka um að auka samkeppni um heilbrigðisþjónustu á milli landa með því að markaðsvæða þjónustuna. Samkvæmt tillögunni eru miklir ónýttir möguleikar til að alþjóðavæða heilbrigðisþjónustu, aðallega vegna þess að heilbrigðisþjónusta er að mestu fjármögnuð og veitt af ríkjum eða velferðarstofnunum. Það er því nánast ekkert aðdráttarafl fyrir erlenda samkeppnisaðila til að keppa um að veita hana vegna þess hversu lítið markaðsvætt umhverfi hennar er.
Það var samningsnefnd Tyrklands sem lagði fram tillöguna en hún var rædd í áttundu viðræðulotu TISA-viðræðnanna sem fór fram í Genf í september síðastliðnum. Vert er að taka fram að öllum löndum er frjálst að leggja fram tillögur um viðauka.Ísland og Noregur hafa til að mynda í hyggju að leggja fram tillögu um viðauka um orkuþjónustu, sem löndin tvö standa mjög framarlega í að veita.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var tekið afar dræmt í tillögu Tyrkja þegar hún var lögð fram í viðræðulotunum í september og desember á síðasta ári.
Mikill titringur
Fréttir af tillögunni vöktu samt sem áður heimsathygli. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sendi meðal annars frá sér fréttatilkynningu þar sem hún sagði mjög skýrt að heilbrigðiskerfi aðildarríkja verði ekki einkavædd af Evrópusambandinu né í viðskiptasamningum á borð við TISA, sem sambandið gerir fyrir hönd aðildarríkja sinna.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Málið olli líka pólitísku fjaðrafoki á Íslandi. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra var spurður um það í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi þann 5. febrúar síðastliðinn. Hann sagði að enginn starfsmaður heilbrigðisráðuneytisins hafi aðkomu að TISA-viðræðunum, hann hafi ekkert heyrt um tillögu um viðauka við samninginn sem í fólst að fella markaðsvæðingu heilbrigðisþjónustu undir hann og að afstaða Íslands til þessa, sem utanríkisráðuneytið sendi frá sér, hafi ekki verið borin undir hann.
Utanríkisráðuneytið brást við orðum Kristjáns með því að senda frá sér tilkynningu um að það hafi upplýst velferðarráðuneyti hans um framlagningu tillögu um viðauka við TISA-samninginn. Það hafi ráðuneytið gert 6. janúar síðastliðinn. Síðan hafi verið haldin fundur með tengiliðum úr öllum fagráðuneytum þann 14. janúar. Tengiliður úr ráðuneyti Kristjáns hefði tekið þátt í þeim fundi.
Sérstakar umræður á Alþingi
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, óskaði eftir sérstökum viðræðum um TISA-viðræðurnar á Alþingi í byrjun mars 2015. Ögmundur spurði Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra hvort samningurinn yrði borin undir Alþingi áður en að skrifað verði undir hann og hvort til greina kæmi að markaðsvæða almannaþjónustu með samningsgerðinni.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. MYND EPA
Gunnar Bragi var afdráttarlaus í tilsvörum sínum. Hann sagði að upplýsingar um markmið Íslendinga og áherslur í viðræðunum væru án nokkurs leyndar. Nú sé hægt að nálgast allar upplýsingar um framvindu þeirra á heimasíðu ráðuneytisins. Mikið samráð hefði auk þess verið við ýmsa hagsmunaaðila og utanríkismálanefnd verið upplýst reglulega.
Gunnar Bragi sagði síðan að Ísland myndi ekki gangast undir neinar skuldbindingar sem feli í sér að veita erlendum aðilum markaðsaðgang að þjónustu sem nú er í almannaþjónustu. Þar á meðal er heilbrigðisþjónusta.
Hann sjái þó ekki ástæðu til að leggja samninginn fyrir Alþingi fyrr en kemur að fullgildingu hans þar sem að TISA-samningurinn krefst ekki lagabreytinga á Íslandi. Hins vegar verði lögð fram þingsályktunartillaga um fullgildinguna.