Nýja Karolinska sjúkrahúsið (NKS) er eitt stærsta og metnaðarfyllsta byggingarverkefni Svíþjóðar og líklega Norðurlandanna allra. Fyrirmyndirnar eru bestu sjúkrahús í heimi sem sameina allt í senn öflugt vísindastarf, færasta starfsfólkið og erfiðustu tilfellin. Á heimasíðu verkefnisins er löng lýsing á því hvernig hagsmunir sjúklinganna eru hafðir að leiðarljósi við alla hönnun og skipulag. Til dæmis verða allar sjúkrastofur einstaklingsherbergi þar sem hver sjúklingur hefur aðgang að klósetti og sturtu auk þess sem aukarúm verður í herbergjunum fyrir ættingja.
Vinnuferlar eru hannaðir með það að leiðarljósi að minnka flutning á sjúklingum milli deilda og ávallt er hugað að umhverfis- og orkusjónarmiðum. Í stuttu máli verður NKS eitt af flottustu sjúkrahúsum í heimi – á blaði að minnsta kosti. Ýmislegt bendir hins vegar til þess að lagt hafi verið af stað með áætlun sem var gjörsamlega óraunhæf, hvort sem litið er til væntanlegrar starfsemi eða kostnaðar.
Stokkhólmur stækkar og álagið á heilbrigðiskerfið eykst
Samkvæmt áætlunum er gert ráð fyrir því að íbúum í Stokkhólmi fjölgi um 350 þúsund til ársins 2020. Það segir sig sjálft að skipuleggja þarf alla opinbera þjónustu í kringum slíka fjölgun afar vel, sérstaklega í ljósi þess að fjölgunin er mest í hópi barna og eldri borgara. Í Stokkhólmi var því ákveðið fyrir nokkrum árum að verja aukalega 42 milljörðum sænskra króna (665 milljarðar ISK) til þess að mæta auknu álagi á heilbigðiskerfið. NKS er aðeins hluti af þessu verkefni sem felur í sér endurbætur á flestum sjúkrahúsum borgarinnar auk nýrra heilsugæslustöðva og stóraukinnar áherslu á heimilislækna. Gert er ráð fyrir 870 nýjum sjúkrarýmum sem duga til að sinna 52 þúsund nýjum tilfellum.
Ákvörðunin um NKS var tekin af stjórnmálamönnum sem um leið endurhönnuðu skipulag heilbrigðisþjónustunar í Stokkhólmi. Nýi spítalinn á að vera hátæknisjúkrahús sem sinnir allra flóknustu tilfellunum með færasta fólkinu og bestu tækjunum. Þegar önnur sjúkrahús eða heilsugæslur fá til sín sjúklinga með flókin vandamál ætti því að senda þá áfram til NKS.
Upprunalega planið var þannig að enginn gæti gengið beint inn af götunni á NKS, þangað kæmu aðeins sjúklingar sem vísað hefði verið áfram eða væru þegar í meðferð á spítalanum. Vandamálið er hins vegar það að önnur sjúkrahús í Stokkhólmi hafa afskaplega lítinn áhuga á að senda frá sér sjúklinga. Til að einfalda myndina má segja að í borginni ríki samkeppni milli sjúkrahúsa og fátt bendir til þess að þau vilji leyfa stjórnmálamönnum að neyða sig til að tapa fyrir NKS.
Áætlun um fækkun starfsmanna á NKS er óraunhæf
Fjölmiðlar í Svíþjóð fylgjast eðlilega vel með framkvæmdum við nýja spítalann og nú síðast hefur Sænska dagblaðið lagst í mikla rannsóknarvinnu þar sem eitt og annað kom í ljós. Til að mynda virðast áætlanir um starfsmanna- og sjúklingafjölda vera gjörsamlega óraunhæfar og líklegt að sá sparnaður sem átti að nást í gegn með færri starfsmönnum gufi upp.
Í dag starfa um 16 þúsund manns hjá Karolinska sjúkrahúsinu, helmingurinn í Solna þar sem nýtt sjúkrahús rís en hinn helmingurinn í Huddinge. Gert var ráð fyrir því að um 80 prósent af starfsmönnunum í Solna flyttust yfir á nýja spítalann en hinir færu á aðrar sjúkrastofnanir. Samkvæmt því sem komið hefur fram í fjölmiðlum er gert ráð fyrir að allt að 30 prósent fleira starfsfólk þurfi á sjúkrahús sem er eingöngu með einstaklingsstofur. Þessi tala er þó mjög á reiki og forsvarsmenn nýja spítalans eru vissir um að bættir verkferlar muni draga úr þörfinni á fjölda starfsmanna. Það gæti reyndar verið óhjákvæmilegt að fækka starfsmönnum þar sem að nýju byggingarnar eru minni en þær gömlu og því einfaldlega ekki pláss fyrir sama fjölda sjúklinga og starfsmanna og spítalinn sinnir í dag.
Hins vegar hefur ekki fengist svar við því hvar ná á í allt það sérhæfða starfsfólk sem þarf til að sinna störfunum á nýja hátæknisjúkrahúsinu. Í dag er staðan þannig að ekki er hægt að hafa öll sjúkrarými í Stokkhólmi opin allt árið vegna skorts á starfsfólki. Í bréfi til stjórnvalda segja starfsmenn að útlitið sé enn verra en í fyrra og að yfir sumarmánuðina í ár séu 500 stöður ómannaðar. Bæta þarf þjálfun og menntun starfsmanna til að fjölga hæfu fólki en þar fyrir utan eru líkur á því að NKS þurfi að yfirbjóða önnur sjúkrahús til að laða til sín besta fólkið. Fyrir utan kostnaðinn hefur það líka þær afleiðingar að önnur sjúkrahús missa sína færustu starfsmenn.
Talið er að framkvæmdir við nýja Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi fari allt að 150 milljörðum króna fram úr kostnaðaráætlunum. Mynd: EPA
Tugi milljarða fram úr áætlun
Framkvæmdir við NKS hófust árið 2010 þótt undirbúningsvinna og niðurrif hafi í raun byrjað fyrr. Samkvæmt fyrstu plönum stóð til að starfsemi hæfist á nýjum spítala á næsta ári en nú er ljóst að verkinu seinkar um að minnsta kosti tvö ár. Gert er ráð fyrir fyrstu sjúklingunum inn í húsið haustið 2016 en spítalinn á að vera tilbúinn í mars 2018.
Ástæðan fyrir seinkuninni er að aðeins eitt tilboð barst í framkvæmdina á sínum tíma sem þýddi að þeir sum buðu í verkið gátu í raun hagað áætlanagerð eins og þeir vildu. Það er byggingarisinn Skanska sem sinnir framkvæmdum í samstarfi við breska fjármögnunarfyrirtækið Innisfree sem hefur reyndar verið kallað vogunarsjóður. Innisfree tekur reyndar ekki beinan þátt í verkinu heldur stofnaði það tvö skúffufyrirtæki í Lúxemburg af skattaástæðum. Samkvæmt samningum sjá þessi fyrirtæki ekki bara um að byggja spítalann heldur viðhald og rekstur næstu árin.
Þegar samningar voru undirritaðir var áætlaður kostnaður við byggingu NKS 14,5 milljarðar sænskra (230 milljarðar ISK) en samkvæmt frétt Sænska dagblaðsins frá í byrjun maí verður reikningurinn að minnsta kosti tíu milljörðum SEK hærri. Þetta er hins vegar aðeins brot af kostnaðinum fram til ársins 2040 samkvæmt fréttum blaðsins. Reyndar hefur ekki gengið vel að fá nákvæmar upplýsingar um kostnaðinn og þegar fyrst var leitað eftir upplýsingum sögðu stjórnvöld að kostnaðurinn yrði um 52 milljarðar SEK (824 milljarðar ISK). Leynileg skjöl sem blaðið komst yfir sýndu hins vegar að kostnaðurinn verður nær 61,4 milljörðum SEK (973 milljarðar ISK) eða um 150 milljörðum íslenskra króna hærri en til stóð.
Eftir uppljóstrun blaðsins hefur bandalag hægri flokkanna samþykkt að láta fara fram óháða úttekt á framkvæmdinni. Bandalagið hefur ekki meirihluta á bak við sig í Stokkhólmi og eftir kröfu frá rauðgrænu flokkunum í stjórnarandstöðu samþykktu þeir að fá utanaðkomandi sérfræðinga til verksins.
Hægt að draga lærdóm frá Stokkhólmi
Enginn efast um þörfina á því að bæta heilbrigðisþjónustu í Stokkhólmi í ljósi fjölgunar íbúa. Spurningin er hins vegar hvort að ákvörðunin um NKS hafi verið tekin með hagsmuni fjöldans að leiðarljósi, eða hvort tilhugsunin um sjúkrahús á heimsmælikvarða hafi villt mönnum sýn.
Það sem mikilvægast er að hafa í huga er að framkvæmdir við hátæknisjúkrahús geta mjög auðveldlega farið fleiri milljarða fram úr áætlun og að plön sem gerð eru við upphaf framkvæmda eru jafnvel orðin úrelt nokkrum árum síðar vegna fólksfjölgunar.
Á Íslandi hafa margir sagt að þegar hafi verið ráðist í kostnaðarsama hönnun vegna hátæknisjúkrahússins sem til stendur að reisa við Hringbraut og að of seint sé að breyta plönunum. Reynslan frá NKS ætti hins vegar að gera mönnum ljóst að það er enn dýrara að fara af stað með vonda hugmynd, en að endurskoða áætlanir sem þegar hafa verið gerðar.