Ákvörðun stjórnvalda í Bandaríkjunum um að taka við tíu þúsund flóttamönnum frá Sýrlandi á næsta ári sætir tíðindum, þó fjöldinn sé aðeins dropi í hafi vandamálsins sem þjóðir heimsins, ekki síst í Evrópu, standa frammi fyrir vegna gríðarlegs straums fólks frá stríðshrjáðum svæðum, einkum Sýrlandi, Írak og Afganistan. Fram að þessu hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum haft sjálfstæða stefnu gagnvart Sýrlandi og ekki fylgt ákvörðunum annarra ríkja, hvorki varðandi vanda flóttamanna eða annað, en fréttaskýrendur hér í Bandaríkjunum segja að ákvörðun Obama sé „táknræn“ og hann vilji að gefa út þau skilaboð, að hann standi með Evrópuríkjum og verði þeim innan handar. Þetta sé mikilvæg diplómatísk lína að draga í ástandi sem einkennist af vaxandi spennu.
Til samanburðar ætla Þjóðverjar að taka á móti 600 þúsund flóttamönnum á næsta ári, og hefur Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hvatt þjóðir heims til að standa saman og taka við flóttamönnum opnum örmum. Auk þess þurfi að huga að rótum vandans, í stríðshrjáðum löndum - Sýrlandi ekki síst - með mannúð að leiðarljósi. Hún ítrekaði í dag þá afstöðu sína að Evrópuþjóðir þyrftu að opna faðm sinn fyrir flóttafólki, og sagði að landamæri Þýskalands yrðu áfram opin. Þrátt fyrir tímabundna lokun þeirra, sem væri fyrst og fremst til að bæta móttökuferlið og auka öryggi flóttamanna, þá yrði það meginmarkmið aðgerðanna að bjarga fólki úr brýnni neyð. Sjálf hefur hún sagt að koma mikils fjölda flóttamanna til Þýskalands, mun að líkindum „varanlega“ breyta Þýskalandi.
Hernaðarspenna - Bandaríkin og Rússland í hár saman
John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Sergei Lavron utanríkisráðherra Rússlands ræddu saman í síma, síðastliðinn miðvikudag, að því er Reuters greindi frá í dag. Ræddu þeir fyrst og fremst aðkomu Rússa að hernaðaraðgerðum í Sýrlandi, en Kerry hefur fullyrt að Rússar séu að styðja við ólögmætar aðgerðir stjórnar Assads. Hann beiti her Sýrlands gegn óbreyttum borgurum, og Rússar muni ekki komast upp með að leggja til stuðning sinn. Lavrov birti yfirlýsingu á vef ráðuneytis síns, að því er fram kemur í umfjöllun Reuters, þar sem hann segist hafa ítrekað við Kerry að nauðsynlegt væri að mynda þétt bandalagt gegn hryðjuverkahópum sem séu vaxandi ógn við almannahag í Sýrlandi.
Hvað sem líður þessum viðhorfum utanríkisráðherrana þá einkennast samskipti Rússa og Bandaríkjanna af vaxandi spennu, og segir í umfjöllun Washington Post að framferði rússneska hersins í Úkraínu að undanförnu og í Sýrlandi, þar sem hermenn hafa komið sér fyrir á mikilvægum svæðum og herflugvélar flogið inn í lofthelgi þar sem þær eiga ekki að vera, sé „ögrun“ við Bandaríkin, Evrópuríki og raunar heimsfrið. Í reynd séu Rússar einangraðir og reyni hvað þeir geti til að styrkja samband við bandalagsþjóðir, eins og Kínverja, á meðan þeir færa sig sífellt upp á skaftið, með veikan efnahag. Sitt sýnist hverjum um þetta mat, og hafa Rússar alfarið neitað því að þeir séu að styðja ólögmætar aðgerðir í Sýrlandi. Í dag fóru þeir formlega fram á það að Obama og Vladímir Pútín, forseti Rússlands, ræddu um stöðu mála í Sýrlandi, og hvernig megi tryggj þar frið og um leið draga úr spennu milli þessara fornu pólitísku óvina.
Russia says it wants Putin-Obama talks on #Syria: http://t.co/87RTD8xD3w pic.twitter.com/gZ8uyR1S9g
— Reuters Top News (@Reuters) September 15, 2015
Reynir á pólitíska hæfileika
Leiðtogar valdamestu ríkja heimsins eru undir mikilli pressu þessa dagana, vegna vaxandi spennu í Evrópu og stríðstákanna í Sýrlandi, Írak og Afganistan. Margt bendir til þess að viðbrögð ríkja heimsins, ekki síst í Evrópu, við þeim miklu erfiðleikum sem blasa við milljónum manna, hafi verið alltof sein. Góður vilji nú sé ekki nóg til þess að bregðast við yfirþyrmandi vanda sem allt að 25 milljónir manna glíma nú við.
Til þess að lágmarka tjónið þurfi að grípa aðgerða sem gætu orðið umdeildar. Svo sem umfangsmeiri hernaðaríhlutunar í Sýrlandi. Hvernig sem mál munu þróast þá standa þjóðarleiðtogar frammi fyrir miklum vanda þar sem tíminn vinnur ekki með þeim, frekar en milljónum óbreyttra borgara sem ógnaröld stríðs bitnar á.