Þeir sem skoða samfélags- og fjölmiðla hafa vart farið varhluta af réttarhöldunum sem nú fara fram í máli bandarísku leikaranna Johnny Depp og Amber Heard. Þar er tekist á um ofbeldi í sambandi þeirra, en í raun snýr dómsmálið sjálft ekki að því með beinum hætti heldur er þar um að ræða meiðyrðamál.
Upphaf dómsmálsins má rekja til greinar sem Heard skrifaði í The Washington Post árið 2018. Umfjöllunarefni greinarinnar var heimilisofbeldi og kvaðst Heard vera opinber persóna sem orðið hefði fyrir slíku í af hendi fyrrverandi eiginmanns. Þar sagði Heard jafnframt frá neikvæðum afleiðingum á starfsframa hennar í Hollywood í kjölfar þess að hún steig fram með ásakanirnar. Johnny Depp var hvergi nefndur á nafn í grein Heard, en þar sem þau höfðu skilið árið áður var nokkuð ljóst um hvern verið var að ræða.
Depp lét hins vegar ekki nægja að kæra Heard fyrir meiðyrði heldur sendi lögfræðingur hans út yfirlýsingu fyrir hans hönd þar sem ásakanir Heard eru sagðar ósannar, og ákvað Heard að greiða honum í sömu mynt og kærði Depp fyrir meiðyrði á móti. Kærurnar tvær eru nú teknar fyrir á sama tíma.
Áður mistekist að verjast ásökununum fyrir dómi
En þetta er ekki í fyrsta skipti sem tekist á er um málið fyrir dómi, en það var gert í breskum dómstóli þegar Depp kærði breska dagblaðið The Sun fyrir meiðyrði vegna fyrirsagnar sem birt var árið 2020 þar sem Depp var sagður ofbeldismaður. Málið var tekið fyrir í breskum dómstólum sama ár og var það dæmt dagblaðinu í vil á þeim grundvelli að fjöldi sannana lægju fyrir um að Depp hafi ítrekað beitt Heard ofbeldi á meðan á hjónabandi þeirra stóð.
Depp mistókst þannig að sannfæra breskan dómstól um að ásakanirnar á hendur honum væru falskar og reynir það nú í annað sinn fyrir dómstólum í Virginíu í Bandaríkjunum, en í eins konar fjölmiðlastríði sem hófst í kjölfar birtingar greinar Heard í Washington Post í lok árs 2018 hafa Depp og Heard ítrekað sakað hvort annað um ofbeldi á meðan á sambandi þeirra stóð.
Ásakanir um alvarlegt ofbeldi í báðar áttir
Hjónunum fyrrverandi ber ekki saman um hin ýmsu atvik sem upp komu á meðan á sambandi þeirra stóð, en meðal annars er deilt um atvik þar sem Depp missti bút úr fingri. Samkvæmt honum kastað Heard í hann vodkaflösku sem brotnaði á hendi hans, en hún segir hann hafa slasað sig á farsíma sem hann hafi mölvað með því að berja í vegg í reiðiskasti. Heard segist aldrei hafa beitt ofbeldi nema í sjálfsvörn. Depp hafi beitt hana líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi.
Miðað við áverkana sem þau hafa bæði sýnt fram á að hafa hlotið á meðan á sambandi þeirra stóð er allavega víst að þau hafa átt í mjög ofbeldisfullu sambandi, hvort sem það var annað þeirra eða þau bæði sem áttu þátt í því. Sama hver niðurstaða dómsmálsins verður er óvíst hvort Depp eða Heard muni nokkurn tímann eiga endurkvæmt á stóra skjáinn.