Ólympíufriðurinn hefur verið hluti Ólympíuleikanna frá því þeir voru stofnaðir í Forn-Grikklandi, þegar þátttakendur þeirra hétu því að halda vopnahlé á meðan á leikunum stóð til þess að tryggja öryggi þeirra sem á leikunum kepptu sem og áhorfenda.
Ólympíufriðurinn var formlega tekinn upp að nýju árið 1992 og kveður á um að vopnahlé skuli ríkja á meðan á Ólympíuleikum stendur, nánar til tekið frá því viku áður en Ólympíuleikar eru settir og þar til vika er liðin frá því að Ólympíuleikum fatlaðra lýkur. Er þetta gert til þess að tryggja að þátttakendur geti ferðast til og frá og tekið þátt í Ólymplíuleikunum án þess að óttast um öryggi sitt. Ólympíska vopnahléð var einróma samþykkt, þar á meðal af Rússlandi, fyrir Vetrarólympíuleikanna í Peking á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í desember.
Ólympíuleikar fatlaðra verða settir í Peking í Kína í dag, en eins og alkunnugt er orðið réðst Rússland inn í Úkraínu hinn 24. febrúar síðastliðinn og braut þar með hið ólympíska vopnahlé. Hefur því jafnvel verið velt upp að meðal ástæðna þess að Rússar hafi þó ekki lagt til atlögu enn fyrr hafi verið til þess að styggja ekki bandamenn sína í Kína með því að rjúfa Ólympíufriðinn á meðan á meginhluta Vetrarólympíuleikanna stóð í Peking, en þeim lauk formlega 20. febrúar.
Viðsnúningur á síðustu stundu
Framan af var talið að rússneskir keppendur fengju engu að síður að taka þátt í Ólympíuleikum fatlaðra, sem hefjast eins og áður segir í dag, föstudaginn 4. mars. Alþjóðaólympíunefnd fatlaðra taldi sig ekki hafa annarra kosta völ en að leyfa þeim að keppa og tilkynnti það miðvikudaginn 2. mars, en lét loks undan miklum þrýstingi frá aþjóðasamfélaginu, sem og öðrum keppnisþjóðum Ólympíuleikanna, og tilkynnti í gær, 3. mars, að keppendum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi yrði meinuð þátttaka á Ólympíuleikum fatlaðra.
Er ákvörðun Alþjóðaólympíunefndar fatlaðra í takt við viðbrögð íþróttahreyfingarinnar allrar, sem keppst hefur við að fordæma innrás Rússlands í Úkraínu. Þannig hefur rússneskum félags- og landsliðum verið meinuð þátttaka af alþjóðasamtökum flestra íþrótta, meðal annars knattspyrnu, körfubolta og frjálsíþrótta.