Alríkisstjórn Bandaríkjanna mun ekki taka upp nokkurt kerfi sem gerir sönnun fyrir bólusetningu gagnvart COVID-19 að kröfu til þess að mega njóta þjónustu eða sækja viðburði. Þetta kom fram í máli Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúa Hvíta hússins, á blaðamannafundi í gær.
Hún sagði fréttamönnum að það yrði enginn alríkisgagnagrunnur um bólusetningar fólks settur upp og bandarískum þegnum yrði heldur ekki gert skylt að sækja sér samhæfð vottorð um bólusetningu. Psaki sagði að Bandaríkjastjórn vildi standa vörð um persónuvernd og réttindi fólks.
Einstaka ríki og einkageirinn
Þetta er þó ekki alveg svona klippt og skorið hvað Bandaríkin varðar. Ekki er útilokað stór hluti Bandaríkjamanna muni á næstunni þurfa að framvísa sönnun um bólusetningu, mótefni eða neikvætt COVID-próf til þess að geta notið þjónustu eða sótt samkomur.
Hæstaréttardómur frá árinu 1905, í máli prests af sænskum uppruna, gerir einstaka ríkjum Bandaríkjanna kleift að gera kröfu um bólusetningu. Presturinn sem um ræðir, Henning Jacobson, vildi ekki láta bólusetja sig við bólusótt, þeim illvíga sjúkdómi sem síðar tókst að útrýma með bólusetningu. Þessi áhugaverða saga var rakin í nýlegum hlaðvarpsþætti frá The Atlantic.
New York-ríki er á meðal þeirra ríkja sem hafa kynnt til sögunnar rafræna lausn sem fólk getur notað, ef það vill, til þess að halda utan um eigin bólusetningarvottorð. „Hugsaðu um það sem rafrænan flugmiða, nema til þess að sanna að þú hafir fengið COVID-19 bólusetningu eða neikvætt próf,“ segir á vef ríkisins um snjallsímaforritið Excelsior Pass. Walmart hefur einnig boðið upp á svipað snjallsímaforrit fyrir þá sem vilja, en bandaríska verslunarkeðjan hefur tekið þátt í að bólusetja fjölmarga Bandaríkjamenn undanfarnar vikur.
Samkvæmt fréttaskýringu New York Times um ýmsar hliðar þessa máls vestanhafs eru einkafyrirtæki einnig mörg að hugsa um að gera staðfestingu á ónæmi eða nýlegu neikvæðu prófi að skyldu fyrir viðskiptavini sína. Fyrirtæki eru sögð óttast að margir viðskiptavinir muni kjósa að halda sig fjarri stöðum þar sem fólk safnast saman nema þeir hafi vissu fyrir því að aðrir gestir séu einnig bólusettir.
Þessu öllu eru þegar byrjuð að fylgja hugmyndafræðileg átök, eftir kunnuglegum átakalínum. Á sama tíma og demókratarnir sem stjórna í New York-ríki hafa kynnt sín áform til sögunnar og háskólar á borð við Brown og Cornell boðað að nemendur þurfi að vera bólusettir er þeir mæta næsta haust, hafa ríkisstjórar úr röðum Repúblikanaflokksins bæði í Texas og Flórída bannað öllum stofnunum ríkisins og einkaaðilum sem þiggja fé úr sameiginlegum sjóðum að gera bólusetningu að einhverri kröfu.
WHO varar við bólusetningarvegabréfum
Þetta er því pólitískt umdeilt í Bandaríkjunum. Eins og Kjarninn sagði frá í gær hefur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) komið því á framfæri að hún styðji ekki við að bólusetningarvegabréf verði gerð að skyldu fyrir ferðalögum milli ríkja.
Sú afstaða WHO byggir bæði á því að ekki er enn vitað með vissu hvort bólusettir geti borið kórónuveiruna með sér þrátt fyrir að veikjast ekki sjálfir og einnig á jafnræðissjónarmiðum, ekki sé rétt að meina þeim ekki geta af einhverjum ástæðum þegið bólusetningu að ferðast.
Regluverk um bólusetningarvegabréf, eða rafræn vottorð um bólusetningu sem á að vera handhægt að framvísa til þess að fá að ferðast eða nota þjónustu, er þó víða í smíðum, bæði hjá einstaka ríkjum heims og í samvinnu ríkja.
Grænn passi Ísraela
Slíkt kerfi, Græni passinn, hefur þegar verið tekið í notkun í Ísrael, en þar hefur yfir helmingur íbúa þegar verið fullbólusettur, ef íbúar á hernumdum svæðum Palestínumanna eru ekki taldir með. Græna passann þarf fólk að sýna í snjallsímum sínum áður en það fer inn á staði á borð við líkamsræktarstöðvar og leikhús.
Stafrænt grænt skírteini ESB
Evrópusambandið hefur kynnt til sögunnar áætlun um samræmd rafræn skírteini fyrir ferðalög á milli landa innan ESB sem eiga að sýna fram á að fólk hafi ýmist verið bólusett, fengið nýlegt neikvætt PCR-próf eða náð sér eftir að hafa sýkst af COVID-19.
Eftirlitsstofnanir ESB á sviði persónuverndar hafa þó varað við því að heilbrigðisgögnum verði safnað saman á þennan máta. Tryggja þurfi að lagagrundvöllur sé fyrir áætlunum Evrópusambandsins í hverju og einu aðildarríki. Einnig þurfi að tryggja að ef gagnasöfnuninni verði þurfi sömuleiðis að passa að hún verði einungis tímabundin og hætti þegar faraldrinum ljúki.
Kórónupassinn danski
Einstaka ríki Evrópu hafa þó þegar stokkið af stað og eru byrjuð að þróa eða nota sín eigin kerfi til þess að koma atvinnustarfsemi sem hefur verið lokuð lengi af stað á ný.
Í Danmörku hófst notkun á kórónupassanum í gær, en þá var hárgreiðslufólki, snyrtifræðingum, ökukennurum og öðrum sem vinna störf sín í návígi og hafa þurft að hafa lokað leyft að taka til starfa á ný, en sú kvöð er sett á herðar atvinnurekenda að fylgjast með því hvort viðskiptavinirnir framvísi gildum kórónupassa.
Fyrirtæki sem hleypa inn viðskiptavinum sem eru ekki með gildan kórónupassa geta búist við sektum sem geta verið verulegar, ef upp kemst um ítrekuð brot. Það hefur ekki fallið í kramið hjá öllum, sumum atvinnurekendum þykja töluverðar byrðar lagðar á sínar herðar. Gríðarlegt ásókn hefur verið í skimun í Danmörku undanfarna daga, enda veitir neikvæð niðurstaða í COVID-19 prófi fólki 72 klukkustunda leyfi til þess að fara til rakarans eða snyrtifræðingsins.
Til stendur að hleypa áhorfendum á íþróttakappleiki undir sömu formerkjum frá 21. apríl og opnunaráætlun danskra stjórnvalda gerir ráð fyrir því að veitingastaðir, söfn, leikhús og kvikmyndahús muni geta starfað á ný frá 6. maí og þjónustað, í fyrstu hið minnsta, þá sem hafa verið bólusettir, þegar fengið COVID-19 eða framvísa neikvæðu PCR-prófi.
Veirupróf fyrir pöbbaferð?
Bretar eru að prófa sig áfram með svipaða hluti og Danir. Þegar verslunum sem ekki eru skilgreindar sem nauðsynlegar og krám með útiaðstöðu verður leyft að taka á móti viðskiptavinum á ný þann 12. apríl verður þessum stöðum þó í sjálfvald sett hvor þær krefji fólk um að framvísa breska kórónuveiruvegabréfinu eða ekki.
Breska ríkisstjórnin vinnur nú að því að koma upp einhverri samræmdri lausn sem gæti gilt í Englandi, Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi.